Vorboðinn ljúfi

Eins og kannski einhverjir vita er Cassini geimfarið á hringsóli um eina fallegustu reikistjörnu sólkerfisins, sjálfan Satúrnus. Aðeins degi eftir vorjafndægur á Satúrnusi (12. ágúst 2009) tók Cassini geimfarið 75 ljósmyndir af reikistjörnunni sem síðan voru settar saman í eina stórkostlega panoramamynd af Satúrnusi og hringum hans. Þetta er sjaldgæf og sérskennileg sýn á Satúrnus þar sem sólin skín næstum beint á miðbauginn. Þessar lýsingaraðstæður valda því að hringarnir eru tiltölulega dimmir nema þar sem endurvarpað ljós frá Satúrnusi sjálfum rekst á þá. Skuggar hringanna mynda örþunna línu í mitti Satúrnusar. Þetta er vorboðinn ljúfi á Satúrnusi.

pia11667_lg.jpg

Við jaðar hringanna sjást nokkur fylgitungl Satúrnusar. Janus (179 km í þvermál) er í neðra vinstra horninu á myndinni. Epímeþeifur (113 km) er nærri miðju, neðst. Pandóra (81 km) er utan hringanna hægra meginn á myndinni og Atlas (30 km) er innan hins örþunna F-hrings hægra meginn á myndinni. Aðrir bjartir blettir í bakgrunninum eru fjarlægar stjörnur.

Ég skora á þig að skoða myndina í betri upplausn hér. Hún er hreint stórkostleg!! Þvílík unun sem það er að vera upp á þeim tíma þegar vísindin gera okkur kleift að sjá slíkt listaverk í náttúrunni. 

Það væri ekki úr vegi fyrir fjölmiðla landsins að birta þessa mynd hjá sér. Til dæmis væri hægt að sleppa plássinu undir slúðurdálkana eða stjörnuspekina og setja myndina í staðinn.

----

Í dag verður því miður endurfluttur Vísindaþáttur á dagskrá Útvarps Sögu. Ástæðan er einfaldlega flensa annars þáttarstjórnanda en hinn er staddur erlendis. Í síðustu viku leit Ólafur Ingólfsson prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands í heimsókn og er þátturinn að sjálfsögðu aðgengilegur á vefnum.

Við mætum bara hressir í næstu viku með eitthvað nýtt og spennandi úr heimi vísindanna. 

----

Vinur okkar hann Helgi Hrafn Guðmundsson, blaðamaður á Skakka turninum, skrifaði fróðlega grein um ferðalög til Mars í nýjasta hefti Skakka turnsins. Þar er hugmyndum um mannaða ferð til Mars, aðra leiðina, lýst. Ég hafði heyrt um þessa hugmynd fyrir nokkru síðan og þótti hún áhugaverð, en ég hef enga trú á að hún verði nokkurn tímann að veruleika. Geimferðastofnanir myndu sennilega aldrei senda fólk fyrir skattpeninga almennings í sjálfsmorðsleiðangur til annars hnattar, jafnvel þótt við myndum læra óskaplega mikið af því. 

Mig langar til heldur betur til Mars og færi á stundinni ef mér byðist það. En ég vildi líka komast heim aftur, færa jarðfræðingum grjót og jarðveg til ítarlegra rannsókna, sýna ljósmyndir af ferðalaginu og segja fólki frá ævintýrinu. 

Það er líka gaman að segja frá því að heimildirnar í blaðinu eru meðal annars úr þessari grein um Mars á Stjörnufræðivefnum

----

Ef það væri ekki fyrir þessa bévítans rigningu alltaf hreint hér á landi, þá væri nú hægt að fara út með handsjónauka eða stjörnusjónauka og skoða fallega vetrarbraut, Andrómeduvetrarbrautina. Sverrir lauk nýverið við að skrifa stuttan pistil um þennan nágranna okkar í alheiminum og hvar hana er að finna á næturhimninum. Kortin gætu nýst þér mjög vel til að finna hana. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Arnar

Ég hélt að myndin væri eitthvað gölluð þegar það kom bara svartur kassi í hringina (umhverfis Saturn).. en svo fattaði ég að þeir voru í skugganum

Ekkert smá flott mynd.

Arnar, 22.9.2009 kl. 15:28

2 Smámynd: Óli Jón

Þessi mynd er einstaklega flott!

Óli Jón, 23.9.2009 kl. 01:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband