Stjörnufræðiferð út fyrir Edmonton (og seinna meir á Íslandi!)

Var að koma úr stjörnufræðiferð sem stóð frá seinnipartinum á föstudag fram til hádegis á sunnudegi. Það var Edmonton deild RASC (Konunglega kanadíska stjörnufræðifélagsins) sem stóð fyrir viðburðinum sem nefnist George Moore's workshop og hefur verið haldin árlega síðustu 25 ár. Þau leigðu sumarbúðir við Pigeon Lake þar sem þátttakendur gistu báðar næturnar.

Ég hef aldrei tekið þátt í svona ferð áður svo þetta var algerlega ný lífsreynsla fyrir mig. Ég var orðinn gríðarlega spenntur á fimmudagskvöldið, daginn fyrir ferðina, og komst að þeirri niðurstöðu að Stjörnuskoðunarfélagið yrði að standa fyrir ferð af þessu tagi næsta vetur! Var í símasambandi við formann Stjörnuskoðunarfélagsins (Sævar) sem var algerlega sammála! Ef fleiri félagsmenn eru til í þetta þá höfum við eitt ár eða rúmlega það til þess að undirbúa svona stjörnufræðihelgi á Íslandi fyrir félagsmenn og alla sem hafa áhuga. Ég tók slatta af myndum sem ég set inn á myndasvæði Stjörnuskoðunarfélagsins þegar ég hef tíma (væntanlega eftir að ég kem heim til Íslands). Auk þess spjallaði ég við nokkra félagsmenn sem hafa tekið þátt í þessu áður og komið nálægt skipulagningunni. Er kominn með fullt af punktum sem munu vonandi gagnast okkur við skipulagningu á svipuðum viðburði á Íslandi.

Tilbúinn í stjörnuteitið!

Fólk var beðið um að slökkva á bílljósum eða dempa þau til þess að spilla ekki aðlögun augna stjörnuskoðara í stjörnuteitunum. Þessi er algerlega til fyrirmyndar!

Dagskráin var blanda af stjörnuskoðun og fyrirlestrum. Spáin var ekki góð en við vorum heppin og fengum heiðan himinn á föstudagskvöldið (rigning í gær). Staðurinn þar sem smiðjan var er í um 60-90 mín. akstursfjarlægð frá borginni og himinninn er þar þokkalega dimmur (birtumark yfir +5,67 þótt stjörnuskyggni væri slæmt vegna veðurkerfa sem voru að ganga yfir - held að himinninn sé vanalega mun betri). Þrátt fyrir að við værum í um 100 km fjarlægð frá borginni þá læddist ljósmengunin upp á himininn í norðaustri.

Stjörnuskoðunin á föstudaginn var hreint út sagt frábær! Fáeinir 10-13 tommu sjónaukar og nokkrir minni til viðbótar. Það var mjög gaman að skoða Kúluþyrpinguna miklu í Herkúlesi (M13), Dymbilþokuna (M27), Tvíklasann (Double Cluster) í Perseifi og vetrarbrautirnar M81 og M82 í Stórabirni. Þarna voru bæði stjörnuskoðendur með áratuga reynslu og byrjendur sem var mjög skemmtileg blanda. Einn þátttakenda var að sjá þessi fyrirbæri í fyrsta skipti en þeir sem reyndastir voru notuðu tímann til þess að eltast við daufar hringþokur (+15). Ég náði ekki að sjá allt sem þeir höfðu upp á að bjóða en með tímanum mun ég vonandi öðlast reynslu í því að sjá daufar þokur.

Í gærdag voru fyrirlestrar eftir hádegi (gert ráð fyrir að fólk gæti sofið aðeins fram eftir stjörnuskoðunina daginn áður). Aðalfyrirlesarinn, Stephen James O'Meara, var ekki af verra taginu en hann hefur skrifað reglulega pistla í Sky&Telescope og Astronomy um árabil. Einhverjir ættu að kannast við kappann sem hefur sent frá sér margar bækur um stjörnufræði, sögu stjörnufræðinnar og er einnig þekktur fyrir athuganir sínar á eldfjöllum. Hann býr á Stóru eyjunni í Hawaii eyjaklasanum sem er náttúrlega paradís á jörð fyrir stjörnuskoðara og áhugamenn um jarðfræði!

Fyrirlestrurinn hjá Stephen fjallaði um nornaveiðar og galdrabrennur á 17. öld og hvernig þær tengdust halastjörnum sem voru boðberar skrattans (skv. kenningum þess tíma áttu þær uppruna sinn í öskumekkinum frá eldgosum sem voru smá sýnishorn af glóðum vítis). Hann tengdi nornafárið á 17. öld á fimlegan hátt við þá hjátrú sem nú tíðkast m.a. í tengslum við heimsendaspárnar fyrir árið 2012.

Stephen er einstaklega mikill ljúflingur. Hann var hérna alla ferðina og gaf sér tíma til þess að spjalla við alla á svæðinu. Ég hafði (eins og alltaf!) það m.a. mér til ágætis að vera frá Íslandi og fékk því ýmsar spurningar frá honum og fleirum um aðstæður og hvernig við stundum stjörnuskoðun heima á Fróni. Hann var mjög forvitinn um það hvort ég væri að fylgjast með fyrirbærum í lofthjúpnum og yfir hafinu að degi til og við sólsetur. Ég er alltaf á vaktinni og kíki reglulega upp í himininn, sérstaklega fyrir sólsetur. Mun í framhaldinu fylgjast enn betur með og leita eftir grænum blossum og þess háttar þegar sólin gengur til viðar. Stephen er alltaf opinn fyrir því að heyra um athuganir fólks um allan heim og gefur upp netfangið sitt undir föstum dálki í Astronomy tímaritinu.

Annað dæmi um jákvætt viðmót Stephens var þegar hann gekk á milli fólks í stjörnuteitinu til þess að spjalla. Hann reyndi sitt ítrasta til þess að sýna mér þoku sem nefnist Norður-Ameríkuþokan í stjörnumerkinu Svaninum. Ég skannaði yfir svæðið en var ekki um að ég sæi hana því ég hafði ekki hugmynd um hvernig hún liti út í sjónauka (á myndum lítur hún út eins og Norður-Ameríka!). Loksins tókst reyndum stjörnufræðigarpi við hliðina á okkur að sýna mér hana.

Það voru ýmis fyrirbæri til viðbótar sem ég sá í fyrsta sinn. Það sem ég átti ekki von á var þegar einhver benti mér á nokkra gervihnetti í sjónauka. Ólíkt gervihnöttunum sem sveima yfir Íslandi á pólbrautum þá héldu þessir sig á sama svæði. Þeir eru nefnilega á staðbrautum sem þýðir að þeir eru alltaf yfir sama svæði á jörðinni (til dæmis hnettir sem taka veðurmyndir af N-Ameríku)! Stórmerkilegt að sjá þessa gervihnetti sem eru of sunnarlega á himinhvelfingunni til þess að sjást frá Íslandi.

Kvöldstund með Stephen James O'Meara

Kvöldstund í gærkvöldi með Stephen James O'Meara (í ljósgráu peysunni).

Í lokin þá ætlaði ég að afhenda honum stjörnukortið sem ég útbý fyrir hvern mánuð og sýnir himininn yfir Íslandi. Ég fann það ekki en sýndi honum það í staðinn í tölvunni. Ætla að senda honum það í tölvupósti ásamt smá umfjöllun um stjörnuskoðun á Íslandi. Ég verð með fyrirlestur annað kvöld sem nefnist „64° N - An Astronomical Journey“ á fundi Edmontondeildar RASC í stjörnuverinu á vísindasafninu. Sendi honum e.t.v. glærurnar úr þeim fyrirlestri.

Að sjálfsögðu notaði ég tækifæri til þess að spyrja hann í lokin hvort hann gæti hugsað sér að fara í smá stjörnufræði- og jarðfræðiferð til Íslands næsta vetur.  Í byrjun ferðarinnar sagðist hann hafa mikinn áhuga á því að heimsækja landið en væri enn að bíða eftir eldgosi. Einnig spurði hann út í hvenær væri besti tíminn til þess að koma í heimsókn til þess að kíkja á norðurljósin því konan hans hefði mikinn áhuga á því. Ég mælti með september því þá er orðið nógu dimmt og hægt að fá góðar vikur inni á milli. Hann var jákvæður fyrir því að koma í heimsókn en auðvitað tekur þarf að taka frá 10 daga til þess að fljúga til Íslands, vera þar og fljúga aftur heim til Hawaii.

Ég sagði að hann væri náttúrlega augljós fyrsti kostur fyrir stjörnufræðihelgi á Íslandi en ef hann getur það ekki þá finnum við einhvern annan. Það er nóg til af virtum stjörnuskoðurum, hvort sem er í Norður-Ameríku eða Evrópu. Veit um nokkra hérna í Kanada sem eru einnig reyndir fyrirlesarar og því fengur fyrir íslenska áhugamenn um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Það voru samt engir Evrópumenn sem komu strax upp í hugann. Það helgast væntanlega af því að tímaritin sem ég les eru frá N-Ameríku. Man núna samt eftir mönnum t.d. frá Bretlandi sem væru sannkölluð himnasending fyrir okkur.

Það voru þrír fyrirlestrar á eftir Stephen og var erfitt að velja á milli þeirra. Ég ákvað samt að láta slag standa og fara á fyrirlestur sem nefndist „You can do better than clear sky chart“. Heiti fyrirlestrarins vísar til upplýsingaskiltis sem er á mörgum vefsíðum hér um slóðir og byggir á upplýsingum um veður og skýjafar frá Kanadísku veðurstofunni (sem gagnast fyrir alla Norður-Ameríku). Ég hef hugsað mér að búa til eitthvað svipað fyrir Ísland og kannski verður af því á næsta eða þarnæsta ári. Það var annar af veðurfræðingunum í ferðinni sem flutti fyrirlesturinn. Hann heitir Alister Ling og er lesendum Astronomy tímaritins að góðu kunnur því hann sér um stjörnuskoðun mánaðarins í blaðinu. Það er mikill fengur af því að hafa veðurfræðing í stjörnuteitum sem býr yfir upplýsingum og reynslu sem kemur ekki fram á veðurkortum!

Larry kennir spegilstillingu

Larry kennir áhugasömum að stilla spegilsjónauka. Greinilegt að það mætti færa til aukaspegilinn á þessum sjónauka!

Eftir þessa tvo fyrirlestra var reyndur stjörnuskoðar sem nefnist Larry með smiðju þar sem hann fór í gegnum það hvernig á að stilla spegilsjónauka til þess að ná sem mestu út úr tækjunum. Ég er nýbúinn að eignast spegilsjónauka sem var vel stilltur fyrir og hafði því aldrei farið áður í gegnum ferlið. Náði samt heilmiklu af því sem hann sýndi. Larry skutlaði mér heim frá Pigeon Lake og það var gaman að spjalla við hann. Við höfum haft nokkur tækifæri til þess að spjalla saman um stjörnuskoðun og raunar alls konar aðra hluti. Sem dæmi um það hve hann er almennilegur náungi þá bauðst hann til þess að lána mér tjald sem hann átti svo ég gæti komið með honum í stjörnuteiti í september! Aðalkvöldin í því stjörnuteiti voru á föstudegi og laugardegi en margir voru komnir þangað fyrr og tjölduðu á svæðinu. Ég hafði samt ekki tækifæri til þess að þiggja þetta góða boð en mætti á laugardeginum þegar ég var með fyrirlestur um stjörnufræði á Íslandi (svipaðan þeim sem ég verð með á morgun). Það var skýjað í þessu stjörnusteiti og veðrið því ekki eins og best var á kosið (rétt eins og í stjörnuteitinu í Elk Island Park sem ég bloggaði um í september).

Það reynsla mín af fólki hér um slóðir að það er mjög almennilegt og vill allt fyrir mann gera.

Næsta skref þegar ég kem heim er að reyna að mynda smá hóp af fólki sem vill taka þátt í undirbúningi fyrir svona stjörnuskoðunarferð eins og ég tók þátt í um helgina.

Heiðan himinn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband