Stjörnueyja í Fljótinu

potw1103a.jpg

Á þessari mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sjást glögglega daufir þyrilarmar þyrilþokunnar NGC 1345. NGC 1345 er hluti af vetrarbrautarþyrpingu í stjörnumerkinu Fljótinu – hópi um 70 vetrarbrauta í um 85 milljón ljósára fjarlægð frá jörðu. Á þessum stað á næturhimninum er fjöldi bjartra vetrarbrauta einkum vegna þess að önnur vetrarbrautaþyrping í stjörnumerkinu Ofninum er þar nærri. Þótt þyrpingarnar séu nálægt hvor annarri á himinhvelfingunni eru um 20 milljón ljósár á milli þeirra. Saman mynda þessar þyrpingar Syðri reginþyrpinguna.

Það var John Herschel sem uppgötvaði NGC 1345 í Suður Afríku. Hann lýsti fyrirbærinu sem litlum, daufum og ógreinilegum þokuhnoðra, enda er mjög erfitt að sjá vetrarbrautina, jafnvel með stórum áhugamannasjónaukum nútímans.

hpotw1103_vb.jpgÍ bakgrunni myndarinnar sjást ótal margar enn fjarlægari vetrarbrautir af öllum stærðum og gerðum. Í NGC 1345 er greinilegur bjálki sem teygir sig milli armanna um kjarnann. Vetrarbrautin telst því til bjálkaþoka eins og Vetrarbrautin okkar er talin vera. Flokkun og greining vetrarbrauta er mikilvægur þáttur í könnun alheimsins því þær gefa okkur vísbendingar um þróun alheimsins. Flokkun vetrarbrauta er ein af fáum verkefnum nútíma stjarnvísinda þar sem mannfólkið er hæfara til verksins en tölvur. Þess vegna hafa vísindamenn Hubble óskað eftir liðsinni almennings í Galaxy Zoo verkefninu. Þar gefst notendum kostur á að renna í gegnum ljósmyndir frá Hubble geimsjónaukanum og gera ef til vill merkar uppgötvanir í leiðinni.

Þessari mynd var skeytt saman úr ljósmyndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys í gegnum bláa síu annars vegar og nær-innrauða síu hins vegar. Í heild var lýsingartími um hvora síu 17,5 mínútur.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble

Tengt efni

- Tryggvi Kristmar Tryggvason

Nokkrar fréttir

Við höfum haft í nógu að snúast nú í upphafi árs og haft lítinn tíma til að blogga. Mig langar þess vegna til að vísa á nokkrar áhugaverðar fréttir sem birst hafa á vefnum okkar undanfarna daga.

----

Hubble þysjar að undarlegu fyrirbæri

Árið 2007 fann hollenskur kennari, Hanny van Arkel, undarlegt grænglóandi gasský þegar hún var að flokka vetrarbrautir í Galaxy Zoo verkefninu. Fyrirbærið var nefnt Hanny's Voorwerp eða Fyrirbæri Hannýjar á vondri eða góðri íslensku og er þekkt undir því nafni í fræðunum. Mynd Hubbles er sú besta sem tekin hefur verið af þessu fyrirbæri hingað til. Þar sést hvernig nálægt dulstirni (IC 2497), sem var virkt fyrir um 200.000 árum, lýsir upp skýið og svo virðist sem þar eigi stjörnumyndun sér stað.

Lesa meira

----

Keplerssjónaukinn finnur sína fyrstu bergreikistjörnu

Keplerssjónaukinn starir á um 150.000 stjörnur á litlu svæði á himinhvolfinu í leit að fjarreikistjörnum. Í vikunni tilkynntu stjörnufræðingar að Keplerssjónaukinn hefði fundið smæstu reikistjörnu sem fundist hefur utan okkar sólkerfis hingað til. Reikistjarnan er sú tíunda sem sjónaukinn finnur og er því nefnd Kepler-10b. Þessi reikistjarna er aðeins 1,4 sinnum stærri en jörðin og 4,6 sinnum massameiri og fellur því í þann flokk fjarreikistjarna sem nefndar hafa verið risajarðir. Hægt var að gera ótrúlega nákvæmar mælingar á móðurstjörnunni, sem líkist sólinni okkar, sem gerðu mönnum kleift að staðfesta að um bergreikistjörnu væri að ræða. Hitastigið á yfirborði hennar er líklegast um 1.300°C sem er hærra en hitastig kviku.

Lesa meira

----

Faldir fjársjóðir ESO líta dagsins ljós

Í lok árs 2010 efndi Stjörnustöð Evrópulanda, ESO, til stjörnuljósmyndakeppni. Þessi keppni var með erfiðara móti því í henni urðu þátttakendur að kafa ofan í stórt gagnasafn ESO í leit að hráum gögnum og vinna úr þeim fallegar ljósmyndir. Nærri 100 ljósmyndir bárust frá hæfileikaríku áhugafólki en vinningshafinn, rússneskur stjörnuáhugamaður að nafni Igor Chekalin, útbjó þessa gullfallegu mynd af Messier 78 í Óríon, og fær að launum ferð að Very Large Telescope ESO í Chile. 

messier_78.jpg

Lesa meira

----

Vinningshafi í jólaleik Stjörnufræðivefsins

Í desember 2010 stóðum við fyrir laufléttum leik í tilefni jólanna. Þátttakendum gafst kostur á að svara einni spurningu um aldur alheimsins og ef það svaraði rétt átti það möguleika á að fá bókina Alheimurinn og Galíleósjónaukann í verðlaun. Þátttakan fór fram úr okkar björtustu vonum og svöruðu langflestir spurningunni rétt. Við erum loksins búnir að draga og var það Anna Ragnheiður Jónsdóttir sem hlaut aðalverðlaunin. Tíu aðrir hljóta glaðning frá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness og Stjörnufræðivefnum.

Lesa meira


Aðeins meira um þessa skemmtilegu frétt

snSprengistjörnur eru gríðarlega öflugar sprengingar mjög massamikilla stjarna. Þessi stjarna sem sprakk í vetrarbrautinni UGC 3378 varð um stutta stund jafn björt og heil vetrarbraut. Hugsið ykkur, ein stjarna sem skín á við hundrað milljarða sóla. Hér til hægri sést mynd af sprengistjörnunni (blikkandi ljósblettur í stefnu klukkan 2 frá stóra blettinum í miðjunni) og vetrarbrautinni. Myndin sem fylgir fréttinni á við um eldri frétt af annarri sprengistjörnu. Þegar stjarnan sprakk varð sennilega annað hvort til nifteindastjarna eða svarthol.

Ég flutti pistil í þættinum Vítt og breitt á Rás 1 á mánudag þar sem ég kom inn á sprengistjörnur. Hvet ykkur öll til að hlusta á hann til að fræðast meira. Hægt er að hlýða á pistilinn hér. Hér undir er svo stuttur kafli úr pistlinum:

Ef stjarna er meira en átta sinnum þyngri en sólin lifir hún í innan við 1 milljarð ára. Þegar vetnið í kjarna hennar er uppurið dregst kjarninn saman og byrjar að framleiða orku úr öðrum efnum eins og helíumi, súrefni og kolefni, rétt eins og sólin okkar og aðrar massaminni stjörnur. Í tilviki sólar lýkur ferlinu þegar hér er komið sögu, en alls ekki í tilviki þyngri stjarna. Sé hún nógu massamikil verður hún að reginrisa sem umbreytir sífellt þyngri frumefnum í orku í innviðum sínum. Segja má að hún vinni sig upp eftir lotukerfinu. Stjarnan knýr fram orku úr kolefni, neoni, súrefni, kísli, brennisteini, argoni, kalsíumi, títani, krómi uns röðin er komin að járni. Járn losar ekki orku svo auðveldlega en tekur hana frekar til sín. Þá er stjarnan skyndilega komin á endastöð.

Afleiðingarnar eru hrikalegar. Skyndilega hrinur stjarnan saman með tilheyrandi hamförum. Efnislög stjörnunnar þeytast út í geiminn í stórfenglegri sprengingu. Í þessari sprengingu skilar stjarnan öllum þeim efnum sem mynduðust við kjarnasamruna innan í henni sem og öll önnur frumefni sem við þekkjum í náttúrunni en þau myndast við sprenginguna sjálfa. Þessi efni dreifast um vetrarbrautina og mynda nýjar stjörnur, ný sólkerfi og jafnvel nýtt líf.

Járnið í blóðinu okkar, kalkið í beinunum, gullið í skartgripunum, kísilinn í bláa lóninu og tölvunum okkar og brennisteininn í flugeldunum má sem sagt rekja stjarna sem hafa sprungið í tætlur fyrir mörgum milljörðum ára.

Menn hafa nokkrum sinnum orðið vitni að þessum hamförum með berum augum. Árið 1054 sást stjarna springa í Nautsmerkinu. Það tók ljósið frá henni 6.300 ár að berast til okkar sem þýðir að þegar menn urðu hennar fyrst varir hafði stjarnan í raun og veru verið dáin í 6.300 ár. Þessi sprengistjarna var svo björt að hún sást að degi til og lesbjart var á næturnar í nokkrar vikur. Í dag sést á sama stað geimþokan Messier 1 eða Krabbaþokan úr efnunum sem stjarnan skilaði frá sér við dauða sinn.

Í miðju þokunnar er ofurþétt leif stjörnunnar sem áður skein skært. Þessi leif er úr nifteindum, svonefnd nifteindastjarna sem er stjarna á stærð við höfuðborgarsvæðið en snýst ógnarhratt, um 30 sinnum á sekúndu. Frá þessari stjörnu berst mjög reglulegt tif sem olli stjörnufræðingum miklum heilabrotum þegar þau heyrðust fyrst.

Fleiri stjarna í Vetrarbrautinni okkar bíða þessi nöturlegu örlög. Sólin okkar er sem betur fer ekki í þeim hópi en nokkrar þeirra eru áberandi á kvöldhimninum þessa dagana, til dæmis Fjósakonurnar þrjár í Óríon og stjarnan Betelgás í sama merki.

===

Frétt: Árekstur vetrarbrauta ekki lengur talinn ábyrgur fyrir vexti svarthola

Hvað gerist þegar vetrarbrautar rekast á? Undangengin ár hefur árekstur vetrarbrauta verið talinn valda gríðarmiklum geislunarhrinum úr miðjum vetrarbrauta. Með hliðsjón af viðamiklum rannsóknum er nú unnt að kveða upp dóm: Samruni vetrarbrauta seðjar ekki hungur svartholanna sem knýja þessa virku vetrarbrautakjarna, svo öðrum fyrirferðarminni fyrirbærum er um að kenna.

Lesa meira http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/319

===

Frétt: VISTA starir djúpt í bláa lónið

vista_lonthokan.jpg

Þessa nýju ljósmynd, sem er innrauð, tók VISTA sjónauki ESO í Paranal-stjörnustöðinni í Chile af Lónþokunni. Myndin er hluti af fimm ára rannsókn á Vetrarbrautinni okkar og aðeins lítill hluti af miklu stærri ljósmynd af svæðinu í kringum þokuna. Sú mynd er að sama skapi aðeins lítill hluti af enn stærra svæði allt verður kortlagt.

- Sævar


mbl.is Stúlka fann sprengistjörnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fékkstu sjónauka í jólagjöf?

Við vitum að fjölmargir fengu stjörnusjónauka í jólagjöf. Margir bíða eflaust spenntir eftir því að prófa gripinn því veðrið hefur ekki verið mjög heppilegt til stjörnuskoðunar síðustu daga.

Hér undir eru nokkur hollráð og tenglar sem ættu að auðvelda þér að byrja í þessu skemmtilega áhugamáli:

  • Vertu þolinmóð(ur) – Það tekur alltaf tíma að læra á stjörnusjónauka og mikilvægt að sýna þolinmæði og gefast alls ekki upp. Að læra á sjónauka er eins og að læra á hljóðfæri, nema miklu auðveldara, en maður þarf að læra réttu handtökin.
  • Lesu leiðarvísinn – Öllum sjónaukum fylgir leiðarvísir. Þeir eru misgóðir eins og gefur að skilja en í þeim eru yfirleitt alltaf nægar upplýsingar til að svara helstu spurningum sem kunna að vakna.
  • Prófaðu sjónaukann að degi til – Það er miklu auðveldara að læra á sjónaukann með því að prófa hann að degi til. Stilltu miðarann með því að horfa á ljósastaur og áttaðu þig á stækkuninni með því að kíkja á umhverfið í kringum þig.
  • Notaðu alltaf minnstu stækkun fyrst – Margir halda að stækkunin sé mikilvægasti eiginleiki stjörnusjónauka en svo er ekki. Það er miklu auðveldara að finna fyrirbæri á himninum með minnstu stækkun en mestu því sjónsviðið er miklu víðara. Auk þess er myndin yfirleitt alltaf tærari og skarpari í minni stækkun en meiri. Auktu stækkunina þegar þú ert búin(n) að finna fyrirbærið sem þú ætlar að skoða.
  • Sæktu þér stjörnukort – Á Stjörnufræðivefnum er hægt að sækja stjörnukort mánaðarins til útprentunar. Á því eru ýmis fyrirbæri sem auðvelt er að finna á himninum. Sæktu líka Stellarium ókeypis stjörnufræðihugbúnað í tölvuna þína á íslensku.

En hvað er hægt að skoða? Ýmislegt en við mælum með því að fólk byrji á að skoða tunglið og reikistjörnunar. Það eru tignarlegustu fyrirbærin sem maður skoðar með sjónauka. Allir stjörnusjónaukar ættu að stækka nóg til þess að þú sjáir Galíleótunglin við Júpíter, hringa Satúrnusar og gígana á tunglinu. 

Það borgar sig að eignast fleiri augngler. Augnglerin eru þeir hlutar sjónaukans sem stækka og ráða sjónsviðinu og eru því lang mikilvægustu fylgihlutir stjörnusjónauka. Með öllum sjónaukum fylgja oftast tvö augngler en gott er að eiga eitt til tvö til viðbótar. Augngler fást alla jafna hjá Sjónaukar.is.

Að lokum, besta leiðin til að koma sér af stað í þessu áhugamáli er að skrá sig í námskeið í stjörnufræði og stjörnuskoðun hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness. Næsta námskeið verður eftir áramót, sennilegast í febrúar og þá bæði krakkanámskeið og fullorðinsnámskeið. Við munum kynna það þegar þar að kemur.

Tengt efni:

- Sævar

Gleðilega hátíð

gledileg_jol_stjornufraedivefurinn.jpg

Stjörnufræðivefurinn óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Við þökkum lesturinn á árinu sem er að líða og frábærar viðtökur sem nýi vefurinn okkar hefur hlotið.

Við vonumst til að hafa veitt ykkur hvatningu til þess að horfa (oftar) upp í himininn og njóta þess sem fyrir augum ber.

Við höfum tekið saman stuttan annál yfir það markverðasta sem gerðist hjá okkur árið 2010. Annálinn má lesa hér http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/310

Gleðilega hátíð!


Gull

Þessi mynd markar ákveðin tímamót í einu metnaðarfyllsta rannsóknarverkefni í sögu stjarnvísinda.

jwst_spegill.jpg

Hér sést fyrsti spegillinn af átján sem er tilbúinn fyrir James Webb geimsjónaukann, arftaka Hubble geimsjónaukans, sem skotið verður á loft árið 2015. Spegillinn verður 6,5 metra breiður eða 25 fermetrar að flatarmáli. Fyrsti spegillinn hefur nú verið húðaður með örþunnu lagi af afurð sprengistjörnu, gulli.

Af hverju verða speglarnir gullhúðaðir? James Webb geimsjónaukinn er innrauður sjónauki og speglar þeirra eru gullhúðaðir þar sem gullið endurvarpar rauðu ljósi sérstaklega vel. Með gulli endurvarpar spegillinn 98% af því innrauða ljósi sem á hann fellur.

Hægt er að lesa sér betur til um James Webb geimsjónaukann á Stjörnufræðivefnum.

- Sævar


Rautt tungl á þriðjudagsmorgun

Þetta er nú heldur snubbótt frétt hjá Mbl.is. Við viljum aðeins vísa ykkur á betri umfjöllun hér, þar sem meðal annars má finna kort og myndskeið af ferlinu. Mbl.is myndi nú gera lesendum og áhugasömum greiða með því að vísa á ítarefni annars staðar. Það er ýmislegt áhugavert að sjá þótt það komi ekki fram í þessum stubbi.

Sjá hér http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/309

Veðurspáin er ágæt fyrir höfuðborgarsvæðið á þriðjudagsmorguninn. Vonandi að myrkvinn sjáist sem víðast.


mbl.is Tunglmyrkvi sést á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkrir góðir sjónaukar í jólapakkann

Það styttist í jólin og sennilega fær margt stjörnuáhugafólk sjónauka í jólagjöf. Hér undir eru nokkrir góðir sjónaukar sem við mælum heilshugar með.

SkyWatcher Skyliner Dobsonsjónauki

skywatcher_skyliner150p.jpgDobsonsjónaukar eru einfaldlega bestu byrjendasjónaukarnir. Þeir sameina einfaldleika, stórt ljósop, stöðugleika og hagstætt verð í einum pakka. Þótt þeir sýnist stundum stórir eru þeir langt í frá ómeðfærilegir og taka raunar svipað pláss og sjónaukar á venjulegum þrífótum. 

Í stjörnuskoðun skiptir ljósopið mestu máli. Því stærra sem ljósopið er því meira ljósi safnar sjónaukinn og því meiri smáatriði er hægt að sjá. Ljósopið hefur auk þess mikið að segja um hversu mikið hægt er að stækka með sjónaukanum. Hægt er að fá Skyliner Dobsonsjónaukana í tveimur stærðum, með 6 eða 8 tommu ljósop. Það nægir til þess að skoða fæðingarstaði stjarna, greina smáatriði í vetrarbrautum og skyggnast inn í stjörnuþyrpingar.

Við mælum eindregið með þessum frábæru stjörnusjónaukum og höfum bara góða reynslu af þeim. 

Sjónaukarnir fást hjá Sjónaukar.is og Sjónvarpsmiðstöðinni í Síðumúla og kosta frá 49.900 kr.

SkyWatcher Explorer-130

skywatcher_130.jpgMjög góður stjörnusjónauki á góðu verði. Hann er á svonefndu þýsku sjónaukastæði sem virkar eflaust flókið í notkun en er sáraeinfalt um leið og maður er búinn að læra á það. Þá eru þetta mjög þægilegir sjónaukar.

SkyWatcher Explorer-130 hentar til að skoða tunglið vel, reikistjörnur og djúpfyrirbæri. Með sjónaukanum er auðvelt að sjá tungl og skýjabelti Júpíters og hringa Satúrnusar.

Með sjónaukanum fylgja tvö augngler sem gefa annars vegar 36x stækkun og hins vegar 90x stækkun. Gott er að kaupa eins og eitt augngler til viðbótar sem gefur millistækkun eða jafnvel meiri. 

Sjónaukinn fæst hjá Sjónaukar.is og Sjónvarpsmiðstöðinni í Síðumúla og kostar frá 39.900 kr.

SkyWatcher Skyhawk-114

skyhawk_114.jpgLitli bróðir Explorer-130 sjónaukans en alls ekki síðri. Hann hefur aðeins minna ljósop en sýnir engu að síður vel flest allt það sem Explorer er fær um að sýna manni.

Með sjónaukanum fylgja tvö augngler sem gefa annars vegar 40x stækkun og hins vegar 111x stækkun. 

Sjónaukinn kostar aðeins 29.900 kr og fæst hjá Sjónaukar.is og í Sjónvarpsmiðstöðinni.

===

Á Stjörnufræðivefnum eru góðar upplýsingar um fyrstu skrefin í stjörnuskoðun. Þar eru líka stjörnukort sem hægt er að sækja svo maður viti nú hvað er á himninum.

Og svo er bara að skrá sig í námskeið í stjörnuskoðun hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness eftir áramót og læra almennilega á gripinn.


Leiðangurinn mikli

Engin geimför hafa kennt okkur jafn mikið um sólkerfið og Voyager-förin.

voyager_brautir.jpgNokkrum árum áður en geimförin fóru á loft höfðu stjörnufræðingar hugsað sér að nýta sérstaklega heppilega uppröðun reikistjarnanna sem verður á 176 ára fresti. Hugmyndin var þá að nýta uppröðunina til að þeyta geimförunum á milli reikistjarnanna og spara þannig gríðarlega orku. Þannig hefðu geimförin getað ferðast til Júpíters, Satúrnusar, Úranusar, Neptúnusar og Plútó, sem á þeim tíma var enn flokkaður sem reikistjarna. Fallið var frá þessum áformum vegna fjárskorts. Engu að síður var tækifærið nýtt og Voyager 1 sendur í ferðalag til Júpíters og Satúrnusar en Voyager 2 til allra reikistjarnanna nema Plútós.

Báðum förum var skotið á loft árið 1977 og heimsóttu þau Júpíter tveimur árum síðar og Satúrnus árin 1980 og 1981. Eftir að hafa flogið framhjá Satúrnusi var Voyager 1 beint út úr sólkerfinu okkar og hefur það nú ferðast lengst allra manngerðra hluta frá jörðinni. Voyager 2 hélt áfram leiðangri sínum og flaug framhjá Úranusi árið 1986 og Neptúnusi árið 1989. Voyager 2 leið út úr sólkerfinu líkt og Voyager 1 en mun aldrei taka fram úr systurfari sínu. Voyager leiðangrarnir hafa kennt okkur langmest af því sem við vitum um ytra sólkerfið og lögðu línurnar fyrir aðra leiðangra eins og Galíleó til Júpíters árið 1995 og Cassini til Satúrnusar árið 2004.

Í dag eru tölvur og hugbúnaður orðin miklu öflugri en áður sem gerir áhugafólki kleift að vinna upp á nýtt myndir frá þessum geimförum. Útkoman er oftar en ekki hreinasta listaverk!

Tengt efni:

====

Daufir gammablossar og jólakúla Hubblessjónaukans

Hvað eru daufir gammablossar? Sjá nýja frétt frá ESO hér http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1049/

Einnig er hér ný frétt um glæsilega mynd frá Hubblessjónaukanum http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/307

====

Við minnum fólk á jólagjafalista Stjörnufræðivefsins http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/301

- Sævar


mbl.is Geimfar stendur undir nafni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laufléttur jólaleikur og loftsteinadrífan Geminítar

galileo_sjonaukinn_og_bokin_alheimurinn_i_bo_i.jpgStjörnufræðivefurinn er með laufléttan jólaleik á netinu þar sem hægt er að vinna bókina Alheimurinn og Galileósjónaukann eða annan glaðning frá vefnum og Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness.

Lesendur þurfa aðeins að svara einni spurningu (og svarið er að sjálfsögðu að finna á Stjörnufræðivefnum!).  Þeir sem svara rétt geta skráð nafn sitt í pott sem dregið verður úr þann 20. desember.

Jólaleikur Stjörnufræðivefsins

 

Jólagjafalisti stjörnuáhugafólksins

Við höfum einnig sett saman lista með ýmsum hugmyndum að gjöfum fyrir þá sem hafa áhuga á stjörnunum.

Jólagjafir stjörnuáhugafólksins

 

Geminítar ættu að sjást um helgina

Tvíburarnir Upp úr næstu helgi nær loftsteinadrífan geminítar hámarki (13. og 14. des.) en stjörnuhröp frá þeim ættu einnig að sjást um helgina (sjást á milli 7. og 17. des.). Loftsteinadrífan virðist koma frá punkti í stjörnumerkinu Tvíburunum en nafnið geminítar er dregið af Gemini sem merkir tvíburar á latínu.

Hér til hliðar má sjá mynd af stjörnumerkinu Tvíburunum úr forritinu Stellarium.

Til þess að finna stjörnumerkið Tvíburana á himninum er best að nota stjörnukort mánaðarins fyrir kvöld eða morgna í desember.

 

Úti í sveit og ekkert tungl

Best er að skoða geminítana úti í sveit en björtustu loftsteinahröpin sjást samt úr bænum þar sem er þokkalega dimmt. Tunglið skemmir einnig fyrir. Það fer vaxandi sem þýðir að tunglið sest ekki fyrr en líður á kvöldið.

Hér að neðan er mynd úr forritinu AstroViewer sem sýnir hvenær reikistjörnurnar og tunglið sjást á himninum. Á myndinni sést að tunglið sest um kl. 23 á laugardagskvöldið 11. desember. Á sunnudagskvöldið sest það á milli tólf og eitt.

Tunglið og reikistjörnurnar 12. des. 2010

Bæði er hægt að skoða gagnvirkt stjörnukort á vefsíðu AstroViewer eða hlaða því niður í ókeypis, íslenskri útgáfu (neðst til vinstri á niðurhals-vefsíðunni).

 

Ekki verra að fara út snemma á morgnana!

Það er ekkert síðra að fara út að morgni dags til þess að kíkja eftir geminítunum. Mesta myrkrið er fyrir kl. 8 á morgnana. Venus skín skært í suðaustri á morgnana og á sama svæði á himninum er einnig að finna reikistjörnuna Satúrnus (sjá morgun-stjörnukortið á vefnum okkar).

Gangi ykkur vel!

-Sverrir


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband