Bloggfærsla gærdagsins...

Við blogguðum einmitt um þessa stórbrotnu uppgötvun í gær (Wink). Best að vísa bara á það fyrir áhugasama en þar segjum við örlítið meira frá þessari skemmtilegu frétt. 

Sjá hér

----

Námskeið í stjörnuskoðun 

Við viljum minna á námskeiðin okkar í stjörnufræði og stjörnuskoðun. Skráning er í fullum gangi en enn eru nokkur laus pláss.

Á sunnudaginn verða tvö krakkanámskeið, eða kannski öllu heldur fjölskyldunámskeiðin okkar. Við hvetjum alla sem hafa áhuga á himingeimnum til að skrá sig!

----

Falleg skífulaga vetrarbraut

Endum þetta á einni fallegri mynd:

eso1104a.jpg

Hér sést vetrarbrautin NGC 3621 á ljósmynd sem tekin var með 2,2 metra sjónauka ESO í Chile. Hún lítur út fyrir að vera dæmigerð þyrilþoka en ekki er allt sem sýnist. Vetrarbrautin er nefnilega harla óvenjuleg: Hún hefur ekki miðbungu og telst því hrein skífuvetrarbraut. Rauðu svæðin í vetrarbrautinni eru stjörnumyndunarsvæði, — risavaxin gas- og rykský þar sem stjörnur eru að fæðast.

Nánar er hægt að lesa sér til um hana hér.

Svo minnum við að sjáflsögðu á mynd vikunnar sem er einmitt af stjörnuhreiðri í Vetrarbrautinni okkar.


mbl.is Sólin er hnöttótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mynd vikunnar: Ofsafenginn fæðingarstaður stjarna

ngc2174.jpg

Hubblessjónauki NASA og ESA tók þessa ljósmynd af ofsafengnum fæðingarstað stjarna sem nefnist NGC 2174. Hér eru það einungis hæfustu stjörnurnar sem komast af.

Stjörnumyndun er mjög erfitt ferli því flest allt það hráefni sem þarf í myndun stjarna leysist upp þegar gasþokan sundrast. Í NGC 2174 sundrast þokan enn hraðar fyrir tilstilli nokkurra ungra og heitra stjarna sem blása ryki og gasi burt með sterkum sólvindum.

Þessi heitu ungviði gefa líka frá sér sterka geislun sem lýsir upp nærliggjandi gas. Gasþokan er að mestu leyti úr vetni sem útblá geislun frá heitustu stjörnunum hefur jónað. Þess vegna eru þokur sem þessi stundum nefndar röfuð vetnisský (HII svæði). Á myndinni sést aðeins hluti þokunnar því dökk rykský í forgrunni varpa skugga á glóandi gasið.

NGC 2174 er í um 6.400 ljósára fjarlægð í veiðimanninum Óríon. Hún er þó ekki hluti af Sverðþokunni frægu sem er miklu nær okkur. Þokan fannst ekki fyrr en árið 1877 þótt hún sé á besta stað í einu frægasta stjörnumerki himinsins. Var þar að verki franski stjörnufræðingurinn Jean Marie Edouard Stephan en hann fann þokuna með 80 cm spegilsjónauka stjörnustöðvarinnar í Marseille í Frakklandi.

Myndin er sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru í gegnum fjórar mismunandi síur Wide Field Planetary Camera 2 á Hubble geimsjónaukanum. Myndir úr síu sem dregur fram jónað súrefni voru litaðar bláar en myndir úr síu sem dregur fram jónað vetni eru grænar. Myndir úr síum sem sýna brennistein annars vegar og nær-innrauða geislun hins vegar fengu báðar grænan lit. Í heild var lýsingartíminn tæpar 2,5 klukkustundir en sjónsviðið er um 1,8 bogamínútur.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble

Tengt efni

- Tryggvi Kristmar Tryggvason

Í fyrsta sinn: Sólin í öllu sínu veldi

NASA birti í dag fyrstu myndina af allri sólinni í heild. Hér eru herlegheitin:

515180main_sun360_304_020211_2356ut_full.jpg

sun360_304_058_1_31.gif

Vá! Þessar glæsilegu mynd af sólinni var tekin með STEREO sólkönnunarförum NASA. Smelltu hér til að sækja mögnuð myndskeið.

STEREO, sem er ekki eitt heldur tvö geimför, var skotið á loft í október 2006. Síðustu fjögur ár hafa geimförin tvö fjarlægst jörðina smám saman og eru þau nú hvort sínum megin sólar í geimnu. Annað er rétt fyrir framan jörðina á braut hennar í kringum sólina en hitt eltir hana fyrir aftan brautarstefnuna. Þessi uppsetning gerir mönnum kleift að sjá báðar hliðar sólar í einu, nokkuð sem aldrei áður hefur verið hægt áður. Þetta er mikilvægt því ef við viljum bæta spár um geimveðrið er mikilvægt að sjá virk svæði á báðum hliðum sólar.

segulsvid_nordurljos.jpgAllir hafa séð áhrif geimveðurs á jörðina. Á heiðskíru kvöldi eru góðar líkur á því að þú sjáir norðurljós stíga dans á himninum. Norðurljósin má rekja til agna sem streyma stöðugt frá sólinni, annað hvort hægt og rólega (samt á um 400 km hraða á sekúndu) eða með miklum látum í sólblossum og kórónuskvettum. Kórónuskvettur og sólblossar eru einmitt það sem við menn hafa dálitlar áhyggjur af því ef mjög orkurík sprenging verður á sólinni getur það haft slæm áhrif á rafveitukerfi á jörðinni, GPS gervitungl og fjarskipti. Þegar öflugur sólblossi verður með tilheyrandi kórónuskvettu verða norðurljósin gjarna ótrúlega falleg.

Tengt efni


Stjörnuskoðun í febrúar og námskeið fyrir börn og fullorðna

Við höfum sett saman myndskeið sem sýnir stjörnumerki, reikistjörnur og önnur fyrirbæri sem hægt er að sjá á himninum núna í febrúar. Sólveig Einarsdóttir var svo indæl að lesa inn á myndbandið fyrir okkur.

Stjörnuskoðun í janúar 2011 

 

Námskeið í stjörnuskoðun 

Við viljum vekja athygli á námskeiðum sem Stjörnufræðivefurinn og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness bjóða upp á í vor:

  • Krakkanámskeið í Valhúsaskóla 13. feb. 2011... » Nánar
  • Byrjendanámskeið í Valhúsaskóla 22.-23. feb. 2011... » Nánar
  • Krakkanámskeið á Akureyri 5. mars 2011... » Nánar 

Á vefsíðu Stjörnuskoðunarfélagsins er hægt að fá frekari upplýsingar um námskeiðin og skrá sig á þau.

 Tímasetningarnar eru birtar með fyrirvara um breytingar.

Námskeið febrúar 2010 

-Sverrir 


Mynd vikunnar: Stjörnuborg sem aldrei sefur

potw1105a.jpg

Advanced Camera for Surveys myndavél Hubble geimsjónaukans náði þessari mynd af augnabliki í ævi þyrilvetrarbrautarinnar IC 391. Massamiklar stjörnuborgir sem þessi sýnast kyrrar og óbreytanlegar en í raun eru stjörnurnar í henni á stanslausri ferð og stöðugt í þróun. Nýjar stjörnur eru sífellt að myndast á meðan hinar eldri deyja – oft á mikilfenglegan hátt sem sprengistjörnur sem sjá má frá jörðu.

Þann 3. janúar 2001 fundu stjörnufræðingar við Stjörnustöðina í Peking eina slíka sprengistjörnu í IC 391 og fékk hún nafnið SN 2001B [1]. Um var að ræða sprengistjörnu af gerð Ib sem á sér stað þegar massamikil stjarna klárar eldsneyti sitt, fellur saman og sendir við það frá sér gríðarmikla geislun og öfluga höbbylgju. Með hjálp Hubblessjónaukans hefur skilningur okkar á sprengistjörnum aukist til mikilla muna undanfarin ár. Hubble hefur líka gert viðamiklar rannsóknir á sprengistjörnunni 1987A (heic0704), björtustu sprengistjörnu sem sést hefur frá jörðinni í 400 ár.

IC 391 er í um 80 milljón ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Gíraffanum, hátt í norðri á himinhvelfingunni. Breski áhugamaðurinn William Denning uppgötvaði vetrarbrautina á seinni hluta átjándu aldar og lýsir fyrirbærinu sem mjög daufu, smáu og kringlóttu.

Myndin var sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubble geimsjónaukanum. Myndir teknar í gegnum bláa síu voru litaðar bláar, grænar í gegnum græna síu og rauðar í gegnum nær-innrauða síu. Lýsingartímar í gegnum hverja síu voru 800 sekúndur, 700 sekúndur og 700 sekúndur. Myndin þekur 2,1 x 1,4 bogamínútur af himinhvelfingunni.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble & NASA

Tengt efni

Skýringar

  1. Sprengistjörnur eru nefndar eftir ártali og bókstaf eftir því hvenær sprengingin varð á árinu. SN 2001B gefur því til kynna að þetta sé önnur sprengistjarnan sem sást frá jörðinni árið 2001

 

 - Tryggvi Kristmar Tryggvason

Mynd vikunnar: Leyndardómar ungrar kúluþyrpingar

potw1104a.jpg

Stjarneðlisfræðingar hafa lengi velt vöngum yfir þessari óvenjulegu en fallegu kúluþyrpingu sem nefnist Palomar 1 og sést hér á mynd Hubblessjónauka NASA og ESA. Þessi daufa og strjála kúluþyrping er af allt öðrum toga en björtu systurþyrpingar hennar eins og til dæmis kúluþyrpingin M13 í Herkúlesi. Palomar fannst ekki fyrr en árið 1954 þegar maður að nafni George Abell kom auga á þyrpinguna á ljósmyndum sem teknar voru með Schmidt-sjónaukanum í stjörnustöðinni á Palomarfjalli.

Kúluþyrpingar eru þéttir hópar stjarna í jaðri Vetrarbrautarinnar, nánar tiltekið í svokölluðum hjúpi hennar. Þær eru meðal elstu fyrirbæra Vetrarbrautarinnar en þar finnast einkum eldgamlar stjörnur og svo til engar gasþokur. Skortur á gasþokum þýðir að þar myndast engar nýjar stjörnur.

Þótt Palomar 1 sé álitin á bilinu 6,3 til 8 milljarða ára gömul telst hún ung í samanburði við aðrar kúluþyrpingar. Palomar 1 er rétt um helmingi yngri en flestar hinna þyrpinganna sem eru í hjúpnum og urðu til við ofsafengin ferli í árdaga Vetrarbrautarinnar. Stjarneðlisfræðingar telja þó að ungar þyrpingar eins og Palomar 1 verði til við mun rólegra ferli, hugsanlega þegar gasþoka varð fyrir utanaðkomandi áreiti sem hratt stjörnumyndun af stað. Samkvæmt annarri tilgátu dró Vetrarbrautin þennan stjörnuhóp að sér. Þá hefur hann svifið um alheiminn en komið of nærri Vetrarbrautinni sem greip hana með þyngdartogi sínu. Einnig er hugsanlegt að þyrpingin hafi myndast með látum og sé leif dvergvetrarbrautar sem Vetrarbrautin okkar gleypti.

Í bakgrunni myndarinnar sjást nokkrar fjarlægar vetrarbrautir og bjartar stjörnur úr okkar eigin Vetrarbraut í forgrunni. Hér er því um að ræða skemmtilega fjölskyldumynd, ef svo má segja.

Myndin er búin til úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndin er tekin í gegnum appelsínugula og nær-innrauðar síur en lýsingartíminn í gegnum hvora síu var um 32 mínútur. Myndin nær yfir 3 bogamínútna breitt svæð á himinhvelfingunni.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble

Tengt efni

- Tryggvi Kristmar Tryggvason

The Mind - tónlistarmyndband

Valdimar Ágúst og Sigurður Jökull heita tveir ágætir menn sem hafa útbúið þetta fína tónlistarmyndband með tilvitnunum í merka vísindamenn. Innblásturinn er að sjálfsögðu sóttur til Symphony of Science.

Gefum Valdimari orðið:

Ég og vinur minn vorum að klára listaverk sem við höfum verið að vinna að síðastliðna tvo mánuði. Þetta er lag/myndband þar sem við höfum safnað saman setningum frá ýmsum vísindamönnum/heimspekingum, púslað saman í heildstæða sögu og klippt saman við myndskeið sem passa auk tónlistar. Sagan segir í stuttu máli frá tengslum okkar við alheiminn með því að fjalla um eðli heilans/hugans á vísindalegan hátt og tengir okkur við þróun lífs og alheims - tjáir hina vísindalegu heimsmynd á fallegan máta í máli og myndum(og tónlist).

Eðlisfræðingurin Richard Feynman orðaði skort vísinda-listar ágætlega í eftirfarandi setningu:

„Is no one inspired by our present picture of the universe? Our poets do not write about it; our artists do not try to portray this remarkable thing. The value of science remains unsung by singers: you are reduced to hearing not a song or poem, but an evening lecture about it. This is not yet a scientific age“

Það vantar allavega meira af efni sem að miðlar magnaðri heimsmynd nútíma vísinda á listformi. Þetta listform er nýtt af nálinni (frumkvöðull í þessu fagi, sem að veitti okkur innblástur til að gera þetta er John Boswell með Symphony of Science - en það er auðvelt að gera svona lög þar sem að nóg er af setningum og myndskeiðum á netinu.

Ég óska þeim kumpánum innilega til hamingju með þetta flotta framtak og vona að áframhald verði á.

- Sævar


Sprengistjörnur eru forvitnileg fyrirbæri

orion Betelgás er mjög massamikil stjarna. Hún er áberandi frá Íslandi þessa dagana enda næst bjartasta stjarnan (oftast) í stjörnumerkinu Óríon. Betelgás er svo stór að væri hún í miðju okkar sólkerfis myndi hún gleypa Merkúríus, Venus, jörðina og Mars, jafnvel Júpíter líka. Sem betur fer er Betelgás í öruggri fjarlægð frá okkur. Sprengistjarna þarf að vera í innan við 25 ljósára fjarlægð til að valda einhverjum skakkaföllum á jörðinni. Sem betur fer er engin slík stjarna svo nærri.

Betelgás gæti þegar verið sprungin. Ef hún sprakk í gær á okkar tíma, þá eru 640 ár þangað til ljósið berst til okkar með upplýsingarnar um örlög hennar. En ef hún sprakk fyrir akkúrat 640 árum, svona um það leyti sem stórgos varð í Öræfajökli, munum við frétta af því von bráðar. Ómögulegt er að segja til um hvort stjarnan springur eftir tvo daga, tvær vikur, tvo mánuði, tvö ár eða tvö þúsund ár. Kannski verðum við svo heppin að upplifa þetta, kannski ekki.

Þetta sem lýst er í fréttinni hefur áður gerst. Frægasta dæmið varð árið 1054. Þá urðu menn vitni að sprengistjörnu í Nautinu. Sú stjarna var reyndar mun fjarlægar, í um 6000 ljósára fjarlægð, en engu að síður varð lesabjart að nóttu til enda stjarnan mjög björt. Í dag eru þarna leifar sprengistjörnunnar, Krabbaþokan fræga, sem sést hér undir.

m1_krabbathokan_i_nautinu

Það er ekki langt síðan ég flutti pistil í þættinum Vítt og breitt á Rás 1 þar sem ég fjallaði einmitt um sprengistjörnur. Hvet ykkur öll til að hlusta á hann til að fræðast meira. Hægt er að hlýða á pistilinn hér. Hér undir er svo stuttur kafli úr pistlinum:

Ef stjarna er meira en átta sinnum þyngri en sólin lifir hún í innan við 1 milljarð ára. Þegar vetnið í kjarna hennar er uppurið dregst kjarninn saman og byrjar að framleiða orku úr öðrum efnum eins og helíumi, súrefni og kolefni, rétt eins og sólin okkar og aðrar massaminni stjörnur. Í tilviki sólar lýkur ferlinu þegar hér er komið sögu, en alls ekki í tilviki þyngri stjarna. Sé hún nógu massamikil verður hún að reginrisa sem umbreytir sífellt þyngri frumefnum í orku í innviðum sínum. Segja má að hún vinni sig upp eftir lotukerfinu. Stjarnan knýr fram orku úr kolefni, neoni, súrefni, kísli, brennisteini, argoni, kalsíumi, títani, krómi uns röðin er komin að járni. Járn losar ekki orku svo auðveldlega en tekur hana frekar til sín. Þá er stjarnan skyndilega komin á endastöð.

Afleiðingarnar eru hrikalegar. Skyndilega hrinur stjarnan saman með tilheyrandi hamförum. Efnislög stjörnunnar þeytast út í geiminn í stórfenglegri sprengingu. Í þessari sprengingu skilar stjarnan öllum þeim efnum sem mynduðust við kjarnasamruna innan í henni sem og öll önnur frumefni sem við þekkjum í náttúrunni en þau myndast við sprenginguna sjálfa. Þessi efni dreifast um vetrarbrautina og mynda nýjar stjörnur, ný sólkerfi og jafnvel nýtt líf.

Járnið í blóðinu okkar, kalkið í beinunum, gullið í skartgripunum, kísilinn í bláa lóninu og tölvunum okkar og brennisteininn í flugeldunum má sem sagt rekja stjarna sem hafa sprungið í tætlur fyrir mörgum milljörðum ára.

Menn hafa nokkrum sinnum orðið vitni að þessum hamförum með berum augum. Árið 1054 sást stjarna springa í Nautsmerkinu. Það tók ljósið frá henni 6.300 ár að berast til okkar sem þýðir að þegar menn urðu hennar fyrst varir hafði stjarnan í raun og veru verið dáin í 6.300 ár. Þessi sprengistjarna var svo björt að hún sást að degi til og lesbjart var á næturnar í nokkrar vikur. Í dag sést á sama stað geimþokan Messier 1 eða Krabbaþokan úr efnunum sem stjarnan skilaði frá sér við dauða sinn.

Í miðju þokunnar er ofurþétt leif stjörnunnar sem áður skein skært. Þessi leif er úr nifteindum, svonefnd nifteindastjarna sem er stjarna á stærð við höfuðborgarsvæðið en snýst ógnarhratt, um 30 sinnum á sekúndu. Frá þessari stjörnu berst mjög reglulegt tif sem olli stjörnufræðingum miklum heilabrotum þegar þau heyrðust fyrst.

Fleiri stjarna í Vetrarbrautinni okkar bíða þessi nöturlegu örlög. Sólin okkar er sem betur fer ekki í þeim hópi en nokkrar þeirra eru áberandi á kvöldhimninum þessa dagana, til dæmis Fjósakonurnar þrjár í Óríon og stjarnan Betelgás í sama merki.

Þegar Betelgás springur verður það mikið sjónarspil og leifarnar alveg örugglega mjög tignarlegar að sjá í gegnum stjörnusjónauka. Á himinhvolfinu eru fjölmargar aðrar stjörnur sem gætu sprungið þá og þegar. Meðal þeirra eru allar stjörnunar í belti Óríons, Fjósakonurnar sem margir kannast við en þær eru allar dæmi um mjög bjartar og stórar sólir sem lifa stutt.

Á suðurhveli er enn betri kandídat í næstu sprengistjörnu – Eta Carinae í stjörnumerkinu Kilinum. Hún er við það að springa og gæti raunar þegar verið sprungin. Hér undir sést mynd af þeirri mögnuðu stjörnu sem er bókstaflega í andarslitrunum. Klukkan tifar bókstaflega hjá henni.

eso0817a_1055289.jpg

Tengt efni:

- Sævar Helgi Bragason


mbl.is Jörðin eignast nýja sól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Námskeið í stjörnufræði fyrir börn og fullorðna

Stjörnufræðivefurinn og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness standa fyrir nokkrum námskeiðum núna í vor:

  • Kennaranámskeið í Valhúsaskóla 12. feb. 2011... » Nánar
  • Krakkanámskeið í Valhúsaskóla 13. feb. 2011... » Nánar
  • Byrjendanámskeið í Valhúsaskóla 22.-23. feb. 2011... » Nánar
  • Kennaranámskeið á Akureyri 5. mars 2011... » Nánar
  • Krakkanámskeið á Akureyri 5. mars 2011... » Nánar 

Á vefsíðu Stjörnuskoðunarfélagsins er hægt að fá frekari upplýsingar um námskeiðin og skrá sig á þau.

 Tímasetningarnar eru birtar með fyrirvara um breytingar.

Námskeið febrúar 2010 


Stjörnuskoðun í janúar 2011 - myndskeið

Við höfum sett saman myndskeið sem sýnir stjörnumerki, reikistjörnur og önnur fyrirbæri sem hægt er að sjá á himninum núna í janúar. Sólveig Einarsdóttir, íslenskukennari, var svo indæl að lesa inn á myndbandið fyrir okkur.

Stjörnuskoðun í janúar 2011 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband