Mynd vikunnar: Fullkomin þyrilvetrarbraut

NGC 6384

Hubblessjónauki NASA og ESA náði þessari fallegu mynd af þyrilvetrarbrautinni NGC 6384. Hana er að finna í stjörnumerkinu Naðurvalda, mjög nærri miðju okkar Vetrarbrautar á himinhvolfinu. Staðsetning NGC 6384 veldur því að margar stjörnur úr okkar eigin vetrarbraut koma fram í forgrunni þessarar myndar.

Árið 1971 skar ein stjarnan í NGC 6384 sig úr hópnum þegar hún varð skyndilega að sprengistjörnu. Um var að ræða sprengistjörnu af gerð Ia. Slíkar sprengistjörnur verða þegar massi hvíts dvergs, þ.e. stjörnu sem framleiðir ekki lengur orku með kjarnsamruna, fer yfir tiltekinn mörk þegar hann sankar að sér efni frá fylgistjörnu. Óðakjarnasamruni gerir stjörnuna bjartari en heila vetrarbraut á örskotsstundu.

Þótt margar stjörnur hafi dáið í NGC 6384 verða stjörnur stöðugt til á nýjan leik í henni, t.d. nærri kjarna hennar. Stjarneðlisfræðingar telja að bjálkamyndunin í kjarnanum beri gas inn að miðjunni þar sem það þéttist og myndar nýjar stjörnur.

Þessari mynd var skeytt saman úr myndum frá Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndir sem teknar voru í gegnum bláa síu var blandað saman við myndir teknar í gegnum nær-innrauða síu. Heildarlýsingartími var um 1050 sekúndur í gegnum hvora síu. Myndin nær yfir 3 x 1,5 bogamínútna svæði af himinhvelfingunni.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble & NASA

Tengt efni

 

 - Tryggvi Kristmar Tryggvason

Globe at Night - stjörnutalning 21. feb.-6.mars

Við viljum benda ykkur á alþjóðlegu stjörnutalninguna Globe at Night sem hefst á morgun.

Hér er vefsíða um stjörnutalningar á Stjörnufræðivefnum.

Það er ekki gert ráð fyrir neinni kunnáttu í stjörnufræði en verkefnið fer fram í þremur skrefum:

1) Prentið út leiðbeiningar á Globe at Night vefsíðunni.

2) Farið út og skoð efri hluta Óríons. Berið athuganirnar saman við kort í leiðbeiningunum.

3) Skráið hvernig til tókst á vefsíðu verkefnins.

Vonum að sem flest ykkar taki þátt!

Globe at Night


Opið hús í Valhúsaskóla á sunnudaginn

Sunnudaginn 20. febrúar verður opið hús hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness í Valhúsaskóla á milli kl. 14 og 17. Ef veður leyfir verður boðið upp á stjörnuskoðun um kvöldið. Meðal dagskrárliða verða:

  • Fyrirlestur um evrópska stjörnufræði.
  • Smiðja um stjörnumerkin og stjörnuhiminninn fyrir alla fjölskylduna.
  • Sjónaukasmiðja. Þið getið tekið með ykkur sjónauka og við reynt að aðstoða ykkur með hann eins og við getum.

Við vonumst til þess að sjá ykkur sem flest á sunnudaginn!

Valhúsaskóli 

-Sverrir 


Segulstormur hafinn en hvað varð um norðurljósin?

leirv_18feb2010.pngKórónuskvettan sem sólin sendi frá sér fyrir skömmu náði til jarðar í gærkvöld. Línurit segulmælingastöðvarinnar í Leirvogi sýndi að segulstormur hófst skömmu eftir klukkan 01 í nótt (sjá mynd til hægri) en hann var og er ekki eins öflugur og búist var við miðað við að um X-blossa var að ræða. Hann heldur áfram næstu klukkustundir en ekki er vitað hve lengi hann stendur yfir. Ekki nokkur hætta er á ferðum. 

Ég fylgdist með himninum í alla nótt en sá engin norðurljós eins og líklega margir aðrir. Það kom nokkuð á óvart en náttúran hefur jú tilhneigingu til að vera óútreiknanleg á köflum. Stundum gerist ekkert tímunum saman og svo allt í einu byrjar ballið. Til að sjá norðurljós er því einfaldlega best að fylgjast vel með og gá til himins annað slagið. Það eru enn líkur á að sjá falleg norðurljós í kvöld og nótt og um að gera að hafa augun opin. Ef kraginn sem sést hér undir er rauður, horfðu þá til himins! (Þegar þetta er skrifað eru greinilega fín norðurljós yfir Kanada.)

pmapN

Sólin er smám saman að vakna til lífsins aftur eftir ládeyðu síðustu ára. Þess vegna þótti fyrsti X-blossi nýju sólblettasveiflunni marka ákveðin tímamót. Á næstu árum, þegar virkni sólar eykst frekar, eigum við von á að X-blossar verði tíðari og öflugri. Og þá fyrst verður gaman. Við látum ykkur klárlega vita þegar við fáum yfir okkur væna gusu af hlöðnum eindum frá stjörnunni okkar.

Tengt efni:

- Sævar

Magnað myndskeið af sólblettahópnum

Vonandi rætast spárnar um mikla norðurljósadýrð á himni yfir okkur í nótt og næstu nætur. Það er kominn tími á fallegt sjónarspil.

Viðbót kl. 18:00 - Hvenær er best að líta til himins? Það er óljóst enda vitum við ekki hversu hratt agnirnar ferðast. Oft er ágætt að líta til himins um klukkan 21 og um eða upp úr miðnætti. Norðurljósin geta samt sem áður auðvitað birst hvenær sem er. Tunglið er næstum fullt svo birtan frá því dregur nokkuð úr birtu norðurljósanna. 

Ég rakst annars á þetta magnaða myndskeið af myndun sólblettahópsins 1158 sem á sök á öllum þessum blossum að undanförnu:

Myndskeiðið er búið til úr myndum Solar Dynamics Observatory geimfarsins. Hópurinn er margfalt stærri en jörðin að þvermáli.

Grípum niður í texta í grein um Sólina á Stjörnufræðivefnum um myndun sólbletta:

Sé fylgst með sólblettum í nokkra daga má sjá þá breytast, stækka eða minnka, á sama tíma og þeir ferðast þvert yfir skífu sólar. Sólblettir eru dökkleit svæði í ljóshvolfinu sem birtast stundum stakir en oftar en ekki í hópum. Blettirnir eru mjög misstórir, oftast nær miklu stærri en jörðin að þvermáli og geta jafnvel orðið stærri en Júpíter.

Sólblettir myndast þar sem sterkt staðbundið segulsvið hindrar að heitara gas stígi upp á við. Út frá Wienslögmáli má reikna út að hitastig sólbletts sé rétt yfir 4000°C, samanborið við tæplega 5600°C hitastig ljóshvolfsins í kring. Með lögmáli Stefan-Boltzmann má reikna út að bletturinn sendir frá sér 30% minna ljós en náliggjandi svæði. Sólblettirnir eru því svalari og virkari svæði þar sem hitastigsmunur birtist sem birtumunur. Þess vegna eru sólblettirnir dökkir á að líta.

Sterkara segulsvið við sólblettasvæðin veldur hitun kórónunnar að hluta og myndar virkari svæði. Þessi virku svæði valda sólblossum og kórónuskvettum.

Sólblettir eru ekki varanleg fyrirbæri í ljóshvolfinu en líftími þeirra er frá fáeinum klukkustundum upp í fáeinar vikur eða mánuði. Fjöldi sólbletta er sömuleiðis óstöðugur og breytist umtalsvert yfir ellefu ára tímabil sem kallst sólblettasveifla (solar cycle). Þegar sólblettasveiflan er í lágmarki eru sárafáir eða jafnvel engir sólblettir á sólinni svo mánuðum skiptir. Þegar sólblettasveiflan nær hámarki á nýjan leik er sólin óhemju virk og fjölmargir sólblettahópar myndast. Búist er við því að næsta sólblettahámark verði í maí 2013, en þá veikara en venjulega.

----

Rytjuleg þyrilþoka

Í gær birtum við glæsilega mynd af fagurri endurskinsþoku í stjörnumerkinu Óríon. Í dag birtum við aðra mynd, ekki síður glæsilega, frá Hubble geimsjónaukanum af óvenjulegri þyrilvetrarbraut

----

Opið hús hjá Stjörnuskoðunarfélaginu á sunnudaginn - námskeið á Akureyri

Sunnudaginn 20. febrúar verður opið hús hjá Stjörnuskoðunarfélaginu í Valhúsaskóla. Ýmislegt forvitnilegt er á dagskrá.

Enn eru nokkur laus pláss í námskeið Stjörnufræðivefsins og Stjörnuskoðunarfélagsins. Við verðum einnig á Akureyri í mars. Sjá nánar hér.

 

- Sævar


mbl.is Norðurljósadýrðar að vænta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sögðum frá þessu í gær - nánar um blossann

Við sögðum einmitt frá þessum blossa í gær, eins og áhorfendur Kastljóssins tóku vonandi eftir. Vert er að taka fram að engin hætta er á ferðum.

Sólin er misvirk. Hún hefur verið óvenju óvirk undanfarin ár, raunar svo óvirk að menn voru hættir að botna í sólinni (menn hafa reyndar aldrei botnað neitt alltof vel í sólinni en það horfir til bóta). Á ellefu ára fresti eða svo nær virknin hámarki og eru þá sólblettir og sólblossar algengir. Í gær sögðum við frá vægum M-blossa frá sólblettahópi 1158 sem þeytti nokkru efni í átt til jarðar og olli fínum norðurljósum í gærkvöldi og í nótt. Jón Sigurðsson, okkar maður á Þingeyri, náði myndum af sólblettahópnum með sjónaukanum sínum og birti á blogginu sínu.

Nú hefur sterkasti sólblossi í meira en fjögur ár orðið í þessum sama sólblettahópi. Blossinn náði hámarki klukkan 01:56 að íslenskum tíma og mældist X2 á styrkleikakvarða sólblossa. X-blossar eru öflugustu blossarnir (sjá nánar hér um styrkleika blossa) og er þetta fyrsti X-blossinn í nýju sólblettasveiflunni (nr. 24) sem nær líklega hámarki í kringum 2013. Við eigum von á fleiri X-blossum á næstu árum með tilheyrandi norðurljósasýningum.

Með þessum blossa barst kórónuskvetta frá sólinni sem stefnir nú í átt að jörðinni. Búast má við fallegum norðurljósum í nótt og næstu nætur og segulstormi þegar efnið kemur til okkar. 

Hér undir er mynd af blossanum.

x2flare

Þessar myndir voru teknar með Solar Dynamics Observatory geimfari NASA. Skvettan sem stefnir nú til okkar sést vel á þessari mynd Stereo geimfarsins.

Ef veður leyfir ættu því áhugamenn um norðurljósaljósmyndun að kíkja út í kvöld og annað kvöld. Ef kraginn sem sést hér undir er rauður, horfðu þá til himins!

pmapN

===

Megum til með að vísa líka á eftirfarandi:

- Sævar


mbl.is Sólstormur í vændum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsti X-sólblossi nýju sólblettasveiflunnar

Sólin er misvirk. Hún hefur verið óvenju óvirk undanfarin ár, raunar svo óvirk að menn voru hættir að botna í sólinni (menn hafa reyndar aldrei botnað neitt alltof vel í sólinni en það horfir til bóta). Á ellefu ára fresti eða svo nær virknin hámarki og eru þá sólblettir og sólblossar algengir. Í gær sögðum við frá vægum M-blossa frá sólblettahópi 1158 sem þeytti nokkru efni í átt til jarðar og olli fínum norðurljósum í gærkvöldi og í nótt. Truflunin í segulsviðinu kom vel fram í Segulmælingastöðinni í Leirvogi eins og hér má sjá.

Nú hefur sterkasti sólblossi í meira en fjögur ár orðið í þessum sama sólblettahópi. Blossinn náði hámarki klukkan 01:56 að íslenskum tíma og mældist X2 á styrkleikakvarða sólblossa. X-blossar eru öflugustu blossarnir (sjá nánar hér um styrkleika blossa) og er þetta fyrsti X-blossinn í nýju sólblettasveiflunni (nr. 24) sem nær líklega hámarki í kringum 2013. Við eigum von á fleiri X-blossum á næstu árum með tilheyrandi norðurljósasýningum.

Með þessum blossa barst kórónuskvetta frá sólinni sem stefnir nú í átt að jörðinni. Búast má við fallegum norðurljósum í nótt og næstu nótt og hugsanlega segulstormi þegar efnið kemur til okkar. 

Hér undir er mynd af blossanum.

x2flare

Þessar myndir voru teknar með Solar Dynamics Observatory geimfari NASA. Skvettan sem stefnir nú til okkar sést vel á þessari mynd Stereo geimfarsins.

Ef veður leyfir ættu því áhugamenn um norðurljósaljósmyndun að kíkja út í kvöld og annað kvöld. Ef kraginn sem sést hér undir er rauður, horfðu þá til himins!

pmapN

- Sævar


Ágætar líkur á norðurljósum í nótt – Stardust heimsækir halastjörnu í nótt

Í nótt, klukkan 04:56 að íslenskum tíma, flýgur Stardust geimfarið framhjá halastjörnunni Tempel 1. Þetta er í annað sinn sem þessi halastjarna er heimsótt. Þann 4. júlí árið 2005 flaug Deep Impact geimfarið framhjá henni. Í leiðinni losnaði lítið koparskeyti frá geimfarinu sem klessti á halastjörnuna og myndaði gíg. Svo mikið magn efnis losnaði við áreksturinn að ekki sást í gíginn sem olli stjörnufræðingum nokkrum vonbrigðum.

tempel_1_deep_impact_1060893.jpg

En nú fá menn annað tækifæri til að berja gíginn loks augum, þ.e.a.s. ef sú hlið halastjörnunnar snýr að geimfarinu. Menn vilja vita hvað gígurinn er stór og hve djúpur því það segir okkur hvernig halastjarnan er uppbyggð, þ.e. hvort hún sé mjög laus í sér (mjúk) eða hörð. Þetta er einnig í fyrsta sinn sem menn rannsaka halastjörnu í návígi fyrir og eftir sólnánd. Það gefur stjörnufræðingum kost á að skoða breytingar sem hafa orðið á henni á þeim tíma.

Til gamans má geta að Stardust er endurnýtt geimfar. Það varð fyrsta geimfarið í sögunni til að safna sýnum frá halastjörnu og koma þeim aftur heim til jarðar. Nánar má lesa sér til um halastjörnur, Stardust og Deep Impact á Stjörnufræðivefnum.

Fyrstu myndirnar berast snemma í fyrramálið og verða þær að sjálfsögðu birtar á Stjörnufræðivefnum.

===

Líkur á norðurljósum í nótt

Í nótt og annað kvöld eru góðar líkur á ágætum norðurljósum yfir Íslandi. Þann 13. febrúar síðastliðinn varð nefnilega öflugasti sólblossi ársins hingað til en hann sendi nokkurt magn hlaðinna einda frá sólinni í átt til jarðar. Solar Dynamics Observatory geimfar NASA tók mynd af blossanum sem sést hér undir:

sdo_solblossi_13feb2011.jpg

Sólblettir eru virk svæði á sólinni þar sem sólblossar eiga upptök sín. Blossinn 13. febrúar átti rætur að rekja til sólblettahópsins 1158 sem sést hér undir:

sdo_solblettahopur_1158.jpg

Vert er að taka fram að sólblossinn var ekki gríðarlega öflugur en blossar sem þessi eru mjög algengir. 

- Sævar Helgi Bragason


Mynd vikunnar: Gamlar stjörnur í nýju ljósi

M15 ACS

Stjörnurnar í Messier 15 hafa líklega aldrei litið eins vel út miðað við aldur og þær gera á þessari nýju ljósmynd Hubblessjónauka NASA og ESA. Stjörnurnar eru í raun um 13 milljarða ára gamlar og því meðal elstu fyrirbæra alheims. Messier 15 er björt og þétt þrátt fyrir háan aldur ólíkt fyrri mynd vikunnar frá Hubblessjónaukanum sem var af óvenju dreyfðri kúluþyrpingu, Palomar 1.

Messier 15 er kúluþyrping — kúlulaga safn gamalla stjarna sem mynduðust úr sömu gasþokunni við brún Vetrarbrautarinnar, á svæði sem nefnt er hjúpurinn. Hún hringsólar umhverfis miðju Vetrarbrautarinnar í um 34.000 ljósára fjarlægð frá jörðu í stjörnumerkinu Pegasusi.

Messier 15 er ein þéttasta kúluþyrping sem vitað er um en stærsti hluti massans er í kjarna hennar. Stjarneðlisfræðingar telj að íturvaxnar kúluþyrpingar eins og þessi hafi gengið í gegnum ferli sem nefnist kjarnahrun. Kjarnahrun er afleiðing gagnverkunnar þyngdarkrafta stakra stjarna sem leiðir til þess að þær færast nær kjarnanum.

Messier 15 var einnig fyrsta kúluþyrpingin sem í ljós kom að hýsir hringþoku; reyndar er aðeins vitað um fjórar kúluþyrpingar sem hýsa þær. Hringþokan nefnist Pease 1 og sést greinilega á myndinni sem lítill blár blettur neðarlega til vinstri við kjarnann.

Þessari mynd var skeytt saman úr myndum sem teknar í gegnum appelsínugula og nær-innrauða síu með Advanced Camera for Surveys á Hubble geimsjónaukanum. Heildarlýsingartími í gegnum hvora síu var 535 sekúndur og 615 sekúndur. Svæðið sem hér sést þekur 3,4 bogamínútur af himinhvolfinu.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble & NASA

Tengt efni

 

 - Tryggvi Kristmar Tryggvason

Víðar stormur en á Íslandi

Stormurinn veldur því að undirritaður er fastur á Egilsstöðum eftir að hafa afhent Grunnskólanum á Reyðarfirði Galíleósjónaukann í dag.

En það er víðar en á Íslandi sem stormur geysar. Á norðurhveli Satúrnusar hefur verið ansi stormasamt undanfarna mánuði. Ég rakst á þessa mögnuðu mynd af risastormi á Satúrnusi á bloggsíðu The Planetary Society:

saturn_storm_feb_6th_2011.png

Myndina útbjó stjörnuáhugamaðurinn Ian Regan úr gögnum frá Cassini geimfarinu sem hringsólað hefur umhverfis hringadróttinn síðustu ár. Útsýnið er stórfenglegt eins og sjá má. Hringarnir eru örþunnir en varpa breiðum skugga á miðbaug reikistjörnunnar og sunnan hans. Myndirnar voru teknar 4. febrúar síðastliðinn.

Stjörnuáhugamenn hafa líka náð frábærum myndum af storminum. Hér er ein frá filippseyingnum Christopher Go:

saturn_s_northern_storm_on_feb.gif

Go var í um 1,3 milljarða km fjarlægð frá Satúrnusi þegar hann tók þessar myndir — næstum 700 sinnum lengra í burtu en Cassini. Þrátt fyrir það sjást ótrúleg smáatriði í lofthjúpnum á mynd Gos.

Þessi stormur hrærir upp í lofthjúpi Satúrnusar. Vindhraðinn er líklega á bilinu 400 til 500 metrar á sekúndu — sex sinnum meiri en í öflugustu fellibyljum á jörðinni.

Já, það er víðar stormasamt en á jörðinni. Prísa mig sælan að vera bara fastur í 20 metrum á sekúndu.

- Sævar


mbl.is Búið að opna Hellisheiði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband