Amalþea heimsótt - Óvenjuleg vetrarbrautaþyrping

Amalþea er eitt 63 tungla sem ganga umhverfis Júpíter. Tunglið er lítið, ekki nema um 250 km breitt þar sem það er breiðast og meira en tvöfalt nær Júpíter en tunglið okkar er frá jörðinni. Amalþea er óvenju rautt að lit, líklega af völdum brennisteins sem berst frá eldfjallatunglinu Íó sem legst eins og teppi yfir Amalþeu.

Mest af því sem við vitum um Amalþeu má rekja til Galíleógeimfarsins sem rannsakaði Júpíter milli 1995 og 2003. Geimlistamaðurinn Björn Jónsson hefur nú útbúið mjög flott myndskeið þar sem flogið er framhjá þessu agnarsmáa tungli:

----

Fjarlægasta þroskaða vetrarbrautaþyrpingin

Stjörnufræðingar hafa með hjálp fjölda sjónauka á jörðu niðri og úti í geimnum, þar á meðal Very Large Telescope ESO í Paranal stjörnustöðinni í Chile, uppgötvað og mælt fjarlægðina til fjarlægustu þroskuðu vetrarbrautaþyrpingar sem fundist hefur hingað til. Þyrpingin birtist okkur eins og hún leit út þegar alheimurinn var innan við fjórðungur af aldri sínum í dag. Þrátt fyrir það er hún furðulega lík eldri vetrarbrautaþyrpingum sem við sjáum mun nær okkur í alheiminum.

Sjá nánar á vefsíðu ESO


Þéttur ALMA kvartett

alma_kvartett.jpg

Við fyrstu sýn virðist sem Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) loftnetin séu pikkföst á sínum stað, — svo er reyndar ekki.

Hægt er að flytja öll lofnetin milli staða með tveimur risastórum flutningabílum svo hægt sé að mæta þörfum ólíkra rannsóknarverkefna. Þegar sjónaukinn er fullbyggður samanstendur hann af 66 loftnetum. Tveir flutningabílar, Ottó og Lorre, voru sérsmíðaðir til að flytja 115 tonna loftnetin og koma þeim nákvæmlega fyrir á steinsteyptum prömmum sem dreift er um sléttuna, þeir fjarlægustu í allt að 16 km fjarlægð. Á þessari mynd hefur fjórum loftnetum verið komið fyrir þétt saman til prófunar.

Flutningabílarnar aka um sléttuna á 28 dekkjum, knúnir tveimur 700 hestafla (500 kW) díselvélum og tveimur 1.500 lítra eldsneytistönkum. Farmurinn er dýrmætur svo hámarkshraðinn er aðeins 12 km/klst.

Hægt er að lesa sér betur til um ALMA á íslensku á vefsíðu European Southern Observatory (ESO).

Myndina tók José Francisco Salgado (josefrancisco.org) fyrir ESO.

- Sævar


Mynd vikunnar: Eitruð arfleifð deyjandi stjörnu

PK 166

Furðuleg og óregluleg ský á þessari forvitnilegu mynd frá Hubblessjónauka NASA og ESA eru afleiðing mikillar virkni stjörnu, seint á æviskeiði hennar. Þegar eldsneytið í kjarna hennar þrýtur, þeyta óstöðug ytri lög stjörnunnar út hnoðrum úr eitruðum gastegundum, til dæmis kolmónoxíði og blásýru.

Westbrook hringþokan — einnig þekkt sem PK166-06, CRL 618 og AFGL 618 — er frumhringþoka; ógegnsætt, dökkt og tiltölulega skammlíft gasský sem verður til þegar stjarna þeytir ytri lögum sínum frá sér þegar eldsneytið þrýtur í kjarna hennar. Stjarnan sjálf er falin í miðju skýsins en þegar hún þróast með tímanum kemur hún til með að mynda hvítan dverg umlukinn lýsandi hringþoku sem smám saman hverfur. Vegna þess hve hlutfallslega stutt frumhringþokuskeiðið er í þróun stjarna eru tiltölulega fáar slíkar þekktar í Vetrarbrautinni okkar.

Frumhringþokur eru kaldar og gefa því frá sér lítið sýnilegt ljós. Þær eru þess vegna mjög daufar sem gerir vísindamönnum mjög erfitt fyrir að rannsaka þær. Myndin að ofan sýnir því þær fjölmörgu brellur sem stjarneðlisfræðingar nota til að rýna inn í skýið og kanna hvað á sér stað í þessari sérkennilegu þoku. Þannig samanstendur þessi mynd af myndum sem teknar voru af sýnilegu ljósi sem endurvarpast af gasskýinu auk nær-innrauðra mynda sem sýna dauft ljós, ósýnilegt okkur, frá mismunandi frumefnum djúp í skýinu sjálfu.

Rekja má eitt af nöfnum hringþokunnar, AFGL 618, frá forvera Hubblessjónaukans sem fann hana: skammstöfunin stendur fyrir Air Force Geophysics Laboratory. Á áttunda áratug síðustu aldar sendi þessi bandaríska rannsóknastofnun á loft nokkrar eldflaugar búnar innrauðum sjónaukum. Hundruð fyrirbæra sem erfitt eða ómögulegt var að rannsaka af jörðu niðri voru skrásett í þessu verkefni. Þetta sýndi fram á mikilvægi þess að koma innrauðum geimsjónaukum á braut um jörðina, t.d. Hubblessjónaukanum og síðar Herschel sjónauka ESA.

Þessi mynd er sett saman úr mörgum mismunandi ljósmyndum sem teknar voru með Wide Field Camera 3, nýjustu myndavél Hubblessjónaukans. Myndir teknar í gegnum græna síu voru litaðar bláar, myndir teknar í gegnum gula síu voru litaðar grænar og myndir sem teknar voru í gegnum síu sem einangrar ljós frá jónuðu nitri voru litaðar rauðar. Myndir sem teknar voru í gegnum síu sem einangrar ljós frá ein- og tvíjónuðum brennisteini voru líka litaðar rauðar. Heildarlýsingartími í gegnum hverja síu var um 9 mínútur. Sjónsviðið er um það bil 20 bogasekúndur af himinhvolfinu.

Tengt efni


Hvað hefur Hubblessjónaukinn kennt okkur um svarthol?

Eitt mikilvægasta markmið Hubble geimsjónaukans var að rannsaka svarthol og prófa kenningar um að risasvarthol leyndust í miðju margra vetrarbrauta. Tveimur áratugum síðar hefur Hubble hjálpað til við að leysa þessa ráðgátu og á sama tíma varpað fram nýjum spurningum sem stjörnufræðingar klóra sér í kollinum yfir. Í þessu vefvarpi Hubblecast fræðir Dr. J okkur um svarthol eins og þau hafa komið Hubble fyrir sjónir.

----

Akureyrarferð

Stjörnufræðivefurinn verður á Akureyri um helgina. Þar stöndum við fyrir kennaranámskeiði og fjölskyldunámskeiði í stjörnufræði og stjörnuskoðun ásamt Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness. Því miður er fullbókað á fjölskyldunámskeiðið — um 60 krakkar skráðir auk foreldri.

Klukkan 16:00 á laugardaginn fer fram fræðslufundur Stjörnu-Odda félagsins. Fundurinn er öllum opinn en þar mun undirritaður fjalla um halastjörnur og Sverrir Guðmundsson um loftsteina. Fundur fer fram í húsakynnum Menntaskólans á Akureyri. 

Verði veður hagstætt laugardagskvöldið 5. mars bjóðum við gestum og gangandi upp á stjörnuskoðun við Menntaskólann á Akureyri. 

---- 

Stjörnukort fyrir marsmánuð

Við minnum svo að sjálfsögðu á Stjörnukort fyrir mars. Í mars byrjar Satúrnus að skríða upp á kvöldhimininn. 

- Sævar


Falleg rykug vetrarbraut og dreifingu sjónauka lokið

eso1107a.jpg

Hárfín smáatriði í þyrilþokunni NGC 247 og ríkulegur bakgrunnur hennar sjást á þessari mynd sem tekin var með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í stjörnustöð ESO í La Silla í Chile. Vetrarbrautin hallar töluvert sem að sögn stjörnufræðinga skýrir hvers vegna fjarlægðin til hennar var lengi vel ofmetin.

Meira á vefsíðu ESO http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1107/

----

Allir skólar eiga nú stjörnusjónauka

Árið 2010 ákváðu Stjarnvísindafélag Íslands, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn að færa öllum skólum á Íslandi stjörnusjónauka að gjöf. Fyrstu sjónaukarnir voru afhentir með viðhöfn í Setbergsskóla í Hafnarfirði í september 2010 en síðan hafa umsjónarmenn Stjörnufræðivefsins heimsótt um 150 skóla og afhent sjónaukana persónulega eins víða og hægt var. Dreifingu sjónaukanna er nú formlega lokið og eiga því allir grunn- og framhaldsskólar á Íslandi stjörnusjónauka.

Meira á Stjörnufræðivefnum http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/351

----

Stjörnufræðivefurinn á samfélagsvefjum

Stjörnufræðivefurinn er á ýmsum samfélagsvefjum. Við viljum minna á okkur á:

Þið getið fylgst með okkur þarna og við að sjálfsögðu með ykkur á móti!

- Sævar


Stjörnukort fyrir marsmánuð

Við höfum útbúið stjörnukort fyrir mars ásamt leiðarvísi fyrir byrjendur í stjörnuskoðun. Í marsmánuði eru Tvíburarnir og Ljónið áberandi á kvöldin og reikistjarnan Satúrnus byrjar að sjást á kvöldhimninum.  

stjörnuskoðun í mars 

Við höfum ákveðið að gefa myndbandi um stjörnuskoðun mánaðarins frí þangað til í haust. Vonum nú að tíðin batni svo við förum að sjá til stjarna!

-Sverrir 


ALMA loftnetin hlið við hlið

alma_jfs_2011_feb.jpg

ALMA loftnetin þurfa að þola harðneskjulegt umhverfi Chajnantor hásléttunnar í Andesfjöllunum í Chile. Í 5.000 metra hæð verða loftnetin, sem í heild verða 66 talsins þegar upp er staðið, að standast öfluga vinda, sterkt sólarljós og umtalsverðar hitasveiflur. Hitastigið getur sveiflast um 40 gráður á Celsíus og farið langt undir frostmark. Stundum snjóar jafnvel eins og sést í rykugu eyðimerkurlandslaginu í bakgrunni.

Ysta lag lofnetanna er um 1,5 millímetra þykkt nikkellag húðað sérstakri ródíumhúð sem er aðeins 200 nm þykkt. Þessi ródíumhúð veitir mjög góða vörn gegn umhverfisaðstæðunum og dregur líka úr hitagleypni loftnetanna en það er nauðsynlegt því varmaþensla loftnetanna getur haft talsverð áhrif á nákvæmni mælinga.

Hægt er að lesa sér betur til um ALMA á íslensku á vefsíðu European Southern Observatory (ESO).

Mynd: ESO/José Francisco Salgado (josefrancisco.org)

- Sævar


Sviðsljósinu beint að óþekktari gasþoku í Óríon

mv1109 

Hubblessjónauki NASA og ESA tók þessa nærmynd af Messier 43, litla bróður Sverðþokunnar í Óríon [1]. Aðeins dökk rykslæða skilur milli Sverðþokunnar (Messier 42) og þessarar þoku sem stundum er nefnd þoka De Mairans, eftir þeim sem uppgötvaði hana. Báðar þokurnar eru hluti af sameindaskýinu í Óríon sem inniheldur nokkrar aðra gasþokur, t.d. Riddaraþokuna (Barnard 33) og Logaþokuna (NGC 2024).

Sameindaskýið í Óríon er í um 1.400 ljósára fjarlægð sem þýðir að hún er nálægasta stjörnumyndunarsvæðið við jörðina. Þetta svæði hefur þess vegna verið rannsakað gaumgæfilega með Hubblessjónaukanum síðustu tvo áratugi. Hubble hefur fylgst með því hvernig stjörnuvindar móta gasskýin, rannsakað ungar stjörnur og umhverfi þeirra og fundið fjölmörg forvitnileg fyrirbæri eins og brúna dverga.

Á þessari mynd sjást nokkrar heitar ungar stjörnur á svæði sem er tiltölulega lítt rannsakað. Hér fáum við svipmynd af umhverfinu í kringum enn yngri stjörnur sem enn eru huldar ryki.

Þessi mynd var búin til úr myndum sem teknar voru með Advanced Camera for Surveys á Hubblessjónaukanum. Myndum sem teknar voru í gegnum gula síu (litaðar bláar) og nær-innrauða síu (litaðar rauðar) var skeytt saman. Lýsingartíminn var 1000 sekúndur í gegnum hvora síu en myndin þekur 3,3 bogamínútna svæði af himinhvelfingunni.

Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble & NASA

Skýringar

[1] Í Messier-skráni eru 110 djúpfyrirbæri sem franski stjörnufræðingurinn Charles Messier skrásetti milli 1758 og 1782. Í dag nota stjörnuáhugamenn Messier-skrána fyrst og fremst í stjörnuskoðun enda samansafn margra fallegustu djúpfyrirbæra næturhiminsins.

Tengt efni:

 

 - Tryggvi Kristmar Tryggvason

Stjarnvísindi og list

José Francisco Salgado er bandarískur stjörnufræðingur sem starfar hjá Adler stjörnuverinu í Chicago. Hann er líka listamaður sem ferðast milli stjörnustöðva um heim allan og tekur glæsilegar ljósmyndir af sjónaukunum og næturhimninum í bakgrunni. Ég var svo heppinn að hitta Salgado í Suður-Afríku á síðasta ári og fékk að fylgjast með honum taka myndir. Þetta er hressilega vinna hjá honum en afraksturinn glæsilegur. 

Hann og tónlistarmaðurinn Tom Bailey hafa síðustu misseri útbúið listaverk af himinhvolfinu með tónlist Baileys og ljósmyndum Salgados. Í maí á þessu ári verður kvikmynd þeirra félaga sýnd í Adler Planetarium. Myndin heitir Sidereal Motion:

 

Markmið þeirra er að miðla vísindum í gegnum list og veita fólki innblástur til þess að fræðast meira um alheiminn.

Hér undir er annað myndskeið frá Salgado af ALMA loftnetinum sem var viðfangsefni síðustu bloggfærslu. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst þetta alveg ótrúlega flott.

 

Hægt er að lesa sér aðeins meira til um þetta verkefni hér.

----

Reikistjarna í mótun?

Með hjálp Very Large Telescope ESO hefur alþjóðlegum hópi stjarnfræðinga tekist að rannsaka skammlífa efnisskífu sem umlykur unga stjörnu og er á fyrstu stigum þess ferlis að mynda sólkerfi. Hugsanlegt er að í fyrsta sinn hafi mönnum tekist að greina lítinn fylgihnött sem gæti átt sök á stórri geil í skífunni. Frekari rannsóknir munu skera úr um hvort fylgihnötturinn er reikistjarna eða brúnn dvergur.

Sjá nánar hér http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1106/

- Sævar


ALMA undir Vetrarbrautarslæðunni

alma_jose_francisco_salgado.jpg

Hér sjást fjórir útvarpssjónaukar Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) stara upp í stjörnumprýddan næturhimininn og búa sig undir verkefnin sem eru framundan. Tunglskinið lýsir upp svæðið frá hægri og vetrarbrautarslæðan teygir sig þvert yfir myndina vinstra megin. Ef rýnt er í myndina sést Kolapokinn — dökkt rykský í Vetrarbrautinni okkar — í efra vinstra horninu og þar rétt hjá glittir bleikan ljósbjarma sem er stjörnumyndunarsvæðið Kjalarþokan.

Menn eru í óðaönn við að koma ALMA í gagnið í yfir 5000 metra hæð á Chajnantor sléttunni í Atacamaeyðimörkinni í Chile, einum þurrasta stað veraldar. Hæðin yfir sjávarmáli og þurrleiki loftsins gerir þennan stað kjörinn til að rannsaka alheiminn á millímetra og hálfsmillímetra bylgjulengdum. Á þessum löngu bylgjulengdum ljóss geta stjörnufræðingar skyggnst inn í þétt gas- og rykský í Vetrarbrautinni þar sem nýjar stjörnur verða til. Alheimurinn er enn sem komið er óplægður akur á þessum bylgjulengdum svo stjörnufræðingar eiga von á holskeflu nýrra uppgötvana um myndun stjarna, uppruna vetrarbrauta og sólkerfa þegar ALMA tekur til starfa.

Hægt er að lesa sér betur til um ALMA á íslensku á vefsíðu European Southern Observatory (ESO).

Mynd: ESO/José Francisco Salgado (josefrancisco.org)

- Sævar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband