Mynd vikunnar: Eitruð arfleifð deyjandi stjörnu

PK 166

Furðuleg og óregluleg ský á þessari forvitnilegu mynd frá Hubblessjónauka NASA og ESA eru afleiðing mikillar virkni stjörnu, seint á æviskeiði hennar. Þegar eldsneytið í kjarna hennar þrýtur, þeyta óstöðug ytri lög stjörnunnar út hnoðrum úr eitruðum gastegundum, til dæmis kolmónoxíði og blásýru.

Westbrook hringþokan — einnig þekkt sem PK166-06, CRL 618 og AFGL 618 — er frumhringþoka; ógegnsætt, dökkt og tiltölulega skammlíft gasský sem verður til þegar stjarna þeytir ytri lögum sínum frá sér þegar eldsneytið þrýtur í kjarna hennar. Stjarnan sjálf er falin í miðju skýsins en þegar hún þróast með tímanum kemur hún til með að mynda hvítan dverg umlukinn lýsandi hringþoku sem smám saman hverfur. Vegna þess hve hlutfallslega stutt frumhringþokuskeiðið er í þróun stjarna eru tiltölulega fáar slíkar þekktar í Vetrarbrautinni okkar.

Frumhringþokur eru kaldar og gefa því frá sér lítið sýnilegt ljós. Þær eru þess vegna mjög daufar sem gerir vísindamönnum mjög erfitt fyrir að rannsaka þær. Myndin að ofan sýnir því þær fjölmörgu brellur sem stjarneðlisfræðingar nota til að rýna inn í skýið og kanna hvað á sér stað í þessari sérkennilegu þoku. Þannig samanstendur þessi mynd af myndum sem teknar voru af sýnilegu ljósi sem endurvarpast af gasskýinu auk nær-innrauðra mynda sem sýna dauft ljós, ósýnilegt okkur, frá mismunandi frumefnum djúp í skýinu sjálfu.

Rekja má eitt af nöfnum hringþokunnar, AFGL 618, frá forvera Hubblessjónaukans sem fann hana: skammstöfunin stendur fyrir Air Force Geophysics Laboratory. Á áttunda áratug síðustu aldar sendi þessi bandaríska rannsóknastofnun á loft nokkrar eldflaugar búnar innrauðum sjónaukum. Hundruð fyrirbæra sem erfitt eða ómögulegt var að rannsaka af jörðu niðri voru skrásett í þessu verkefni. Þetta sýndi fram á mikilvægi þess að koma innrauðum geimsjónaukum á braut um jörðina, t.d. Hubblessjónaukanum og síðar Herschel sjónauka ESA.

Þessi mynd er sett saman úr mörgum mismunandi ljósmyndum sem teknar voru með Wide Field Camera 3, nýjustu myndavél Hubblessjónaukans. Myndir teknar í gegnum græna síu voru litaðar bláar, myndir teknar í gegnum gula síu voru litaðar grænar og myndir sem teknar voru í gegnum síu sem einangrar ljós frá jónuðu nitri voru litaðar rauðar. Myndir sem teknar voru í gegnum síu sem einangrar ljós frá ein- og tvíjónuðum brennisteini voru líka litaðar rauðar. Heildarlýsingartími í gegnum hverja síu var um 9 mínútur. Sjónsviðið er um það bil 20 bogasekúndur af himinhvolfinu.

Tengt efni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband