31.3.2011 | 11:09
Helsprengjan
Hafi fólk ekki áhuga á að hlusta á rifrildi í morgunsárið er kjörið að stilla útvarpið á Rás 1, bestu útvarpsstöð landsins. Á morgnana er þar mikill öndvegisþáttur, Vítt og breitt, sem ég er svo heppinn að leggja til pistil annan hvern mánudagsmorgun. Síðastliðinn mánudag flutti ég pistil um leitina að vitsmunalífi í geimnum og rakti í því sambandi sögu frá 1961 þegar gerð var tilraun til að leysa úr læðingi hrikalega krafta. Hægt er að hlýða á pistilinn hér en hann er einnig hér undir:
Októberlok árið 1961 er býsna áhugaverður tími í mannkynssögunni. Á sama tíma og íslendingar fylgdust grannt með eldgosi í Öskju í Dyngjufjöllum náði vígbúnaðarkapphlaup Bandaríkjanna og Sovétríkjanna hámarki þegar Sovétmenn sprengdu 50 megatonna vetnissprengju á Novaja Semlja eyjaklasanum í Barentshafi.
Sprengjan átti upphaflega að vera 100 megatonn en sem betur fer var horfið frá því. Það var víst tæknilega erfitt að tendra svo öflugt bál.
Engu að síður var þetta langöflugasta kjarnorkusprengja sögunnar, fjórtán hundruð sinnum öflugari en kjarnorkusprengjurnar tvær sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki í Japan árið 1945, tífalt öflugri en samanlagt afl allra sprengja sem sprengdar voru í Seinni heimsstyrjöldinni. Sannkölluð helsprengja.
Sprengjan var látin falla úr flugvél í 10 km hæð. Á henni var fallhlíf svo tími gæfist til að fljúga burt frá sprengingunni. Sprengjan sprakk í 4 km hæð yfir jörðinni. Sveppaskýið reis upp í heiðhvolfið og náði sjöfaldri hæð Everestfjalls eða um 64 km hæð. Ómönnuð viðarhús í nokkur hundruð km fjarlægð frá sprengingunni jöfnuðust við jörðu. Einn þátttakandi í tilrauninni fann ógnarhita sprengingarinnar á eigin skinni og sá skæran blossann í gegnum hlífðargleraugu sín, þótt hann væri 270 km í burtu. Gluggar brotnuðu meira að segja í norður Noregi og Finnlandi. Ég velti fyrir mér hversu mörg saklaus dýr drápust í þessu heimskulega brölti.
Það þarf ekki að spyrja að leikslokum hefði sprengjan sprungið á þéttbýlu svæði í alvöru styrjöld. Alger gereyðing. Tilræði við mannkynið einsog Bjarni Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, sagði.
Á sama tíma og þetta gerðist fór fram leynileg ráðstefna í Bandaríkjunum um leit að vitsmunalífi í geimnum. Leit að lífi í geimnum var ekki beinlínis vinsælt viðfangsefni meðal vísindamanna á þessum tíma og þess vegna var ekki sagt frá ráðstefnunni opinberlega. Þangað mættu einungis ellefu vísindamenn stjörnufræðingar, líffræðingar og verkfræðingar sem allir áttu sameiginlegt að vera nánst þeir einu sem höfðu áhuga á viðfangsefninu. Meðal þeirra sem sóttu ráðstefnuna voru Carl Sagan og Melvin Calvin, en sá síðarnefndi fékk þau tíðindi á meðan ráðstefnunni stóð að hann hefði hlotið Nóbelsverðlaunin í efnafærði.
Árið áður hóf bandaríski stjörnufræðingurinn Frank Drake fyrstu skipulögðu leitina að lífi utan jarðar. Hann bendi þá 25 metra breiðum útvarpssjónauka í Green Bank í Vestur-Virginíu að tveimur nálægum stjörnum sem svipar til sólarinnar og hlustaði eftir hvískri tæknivædds menningarsamfélags. Því miður skilaði leitin engum árangri en Drake var ekki af baki dottinn og blés til ráðstefnunnar.
Í aðdraganda hennar bjó Drake til einfalda jöfnu með sjö óþekktum stærðum sem nota má til að áætla gróflega hugsanlegan fjölda tæknivæddra menningarsamfélaga í Vetrarbrautinni okkar sem gætu haft samband við okkur. Með öðrum orðum sýnir lausn jöfnunnar fjölda annarra stjörnufræðinga með útvarpssjónauka innan um að minnsta kosti 100 milljarða stjarna. Drake hugsaði jöfnuna fyrst og fremst sem hjálpartæki. Stærðirnar í jöfnunni eru nefnilega allt stærðir sem við vitum að hafa áhrif á tilurð vitsmunalífs í Vetrarbrautinni.
Fyrsta óþekkta stærðin í Drake-jöfnunni segir til um fjölda stjarna á borð við sólina sem verða til í Vetrarbrautinni á hverju ári en önnur stærðin lýsir hlutfalli þeirra sem myndast og hafa sólkerfi. Menn hafa ágæta hugmynd um gildi þessara tveggja stærða. Með hjálp stjörnusjónauka höfum við fundið út að ár hvert verður til ein stjarna áþekk sólinni okkar í Vetrarbraut og nýleg gögn benda til þess að sólkerfi í kringum þær sé regla frekar en undantekning.
Næstu gildi snúa að lífi. Hversu margar lífvænlegar reikistjörnur eru í sólkerfum? Segja má að í sólkerfinu okkar séu jörðin og Mars lífvænlegar en við vitum ekki hvort líf hafi kviknað á þeirri síðarnefndu. Þótt líf kvikni á reikistjörnu er ekki sjálfgefið að vitsmunalíf þróist. Hve algengt er vitsmunalíf? Sé líf á Mars er það næsta örugglega ekki vitsmunalíf. Í sólkerfinu okkar er alla vega einn hnöttur sem býr yfir vitsmunalífi, jörðin.
Það er samt ekki nóg að líf sé vitsmunalíf. Kolkrabbar, háhyrningar og hvalir eru allt greindar skepnur en langt í frá tæknivæddar. Þess vegna gætu þær aldrei haft samband við aðrar utanaðkomandi verur. Næsta gildi lýsa einmitt hlutfalli reikistjarna með vitsmunalíf þar sem tæknivætt menningarsamfélag þróast og er nógu forvitið til þess að hlusta eftir lífi annars staðar í alheiminum.
Í seinustu stærð jöfnunnar er fólgin mesta óvissan. Hve lengi endist tæknivætt menningarsamfélag?
Náttúran er hættulegur staður og nokkrum sinnum hefur lífið nánast afmást af jörðinni. Þróunin getur sem sagt sveigt af leið af völdum utanaðkomandi áhrifa. Spyrjið bara risaeðlurnar.
En verum eins og okkur stafar líka hætta af sjálfum sér og þá erum við komin að tengingunni við upphafsorð pistilsins. Aðeins nokkrum árum eftir að mannkynið áttaði sig á kjarnorkunni hafði það smíðað sér ógurleg gereyðingarvopn og svo mörg að því stóð ógn af sjálfu sér. Vígbúnaðarkapphlaup kalda stríðsins sýnir glöggt hversu skammsýnt mannkynið getur verið, en þótt við höfum sloppið hingað til er það engin trygging fyrir því að við höldum velli í langan tíma. Mannkynið er jú með eindæmum duglegt að breyta jörðinni, oftar en ekki til hins verra. Við mengum höfin og lofthjúpinn án þess að velta því mikið fyrir okkur, eyðum jafnvel dýrategundum og drögum úr líffræðilegri fjölbreytni til þess eins að geta keypt okkur fánýta hluti og lifað hátt.
Varla fer vel fyrir sjálfhverfum verum eins og okkur en vonandi er það ekki algilt í alheiminum að tæknivædd menningarsamfélög tortími sér.
Mínir eigin útreikningar á Drake-jöfnunni segja að í Vetrarbrautinni okkar séu ekki nema 10 til 100 tæknivædd menningarsamfélög. Það er vissulega ekki mikið, sér í lagi þegar haft er í huga að í Vetrarbrautinni eru að minnsta kosti 100 milljarðar stjarna.
Hver veit, kannski eru þau miklu fleiri eða kannski er bara eitt tæknivætt menningarsamfélag, við sjálf. Ef við erum ein, þá erum við með eindæmum dýrmæt, eina lífið í allri þessari víðáttu sem veit hvaða undur leynast þarna úti.
- Sævar Helgi Bragason
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.3.2011 | 16:19
Enn um ofurmána - breytingar á forsíðu
Fólk fór ekki varhluta af æsifréttum um ofurmána (ekkert til sem heitir ofurmáni) og varð svo fyrir vonbrigðum þegar máninn var ekkert risastór laugardagskvöldið 19. mars síðastliðinn (hef heyrt í nokkrum). Sagt var í fjölmiðlum að þetta gerðist á 19 ára fresti (sem er rangt). Þorsteinn Sæmundsson, stjörnufræðingur, skrifar frábæra grein um þetta (bull) á vefsíðu sína, Almanak.hi.is. Í pistli sínum segir Þorsteinn meðal annars:
Í fyrsta lagi er engin 19 ára regla í ofurmánum. Við þurfum ekki að fara nema þrjú ár aftur í tímann til að finna dæmi um það að máninn hafi verið nær jörðu en nú, svo að munaði 9 kílómetrum. Það gerðist 12. desember 2008. Fellibylurinn Andrew gekk yfir í ágúst árið 1992, fyrir 19 árum. Máninn komst vissulega nálægt þetta ár ( í 356 550 km fjarlægð), en það var í janúarmánuði, ekki í ágúst. Máninn komst 22 km nær en þetta hinn 8. mars 1993, 18 árum og 11 dögum fyrr en ofurmáninn nú.
Síðar í pistlinum skammar Þorsteinn mig aðeins fyrir ónákvæmni. Það að sjálfsögðu í góðu lagi enda veit ég upp á mig skömmina. Í pistli sem ég skrifaði á bloggið (sem var svo birtur á Vísindavefnum) sagði ég:
Á sama tíma er tunglið líka eins nálægt jörðinni og það kemst. Verður því hér um að ræða stærsta fulla tungl ársins 2011, um það bil 14% breiðara og rétt yfir 30% bjartara en önnur full tungl á árinu.
Eins og Þorsteinn bendir á er þetta ekki allskostar rétt. Fyrsta setningin er röng því tunglið getur komist nær okkur. Þarna hefði orðið nánast átt að koma inn í. Í seinni setningunni hefði ég að sjálfsögðu átt að sleppa önnur full tungl... og segja í staðinn en þegar það er lengst frá jörðu eins og Þorsteinn bendir á í pistli sínum.
Ég þakka Þorsteini kærlega fyrir þessar leiðréttingar!
Hægt er að lesa pistilinn í heild hér http://almanak.hi.is/ofurmani.html og ég mæli með því að þið lesið hann.
---
Breytingar á forsíðu Stjörnufræðivefsins
Glöggir lesendur Stjörnufræðivefsins hafa eflaust tekið eftir að gerðar hafa verið örlitlar breytingar á forsíðunni. Þar sem áður var vísun á stjörnufræðimynd dagsins, sem var á ensku, er nú komin Mynd vikunnar (á íslensku). Mynd vikunnar hefur að undanförnu birst hér á blogginu en við teljum hana fremur eiga heima á forsíðu vefsins sjálfs. Ný og glæsileg mynd birtist á hverjum mánudegi.
Einnig hefur bæst við dálkur sem nefnist tilkynningar. Þangað ratar það efni sem ef til vill á ekki heima undir Fréttum en er samt vert að minna eða vekja athygli á.
Við vonum að þessar breytingar falli vel í kramið.
---
Rósrauður bjarmi stjörnumyndunar
Við dýrkum fallegar myndir af alheiminum. ESO birtir reglulega nýjar myndir sem teknar hafa verið með einhverjum af sjónaukum samtakanna. Í dag birtist þessi mynd af rauðglóandi vetnisskýi sem umlykur stjörnuþyrpingu í nágrannavetrarbraut okkar Litla-Magellanskýinu sem er í um 200.000 ljósára fjarlægð.
Hægt er að fræðast meira um hana hér http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1111/
- Sævar
29.3.2011 | 10:29
ALMA: Betri sem ein heild
Þegar smíði Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) lýkur verður loftnetunum 66 dreift yfir allt að 16 km breitt svæði á Chajnantor hásléttunni í Andesfjöllum Chile. Þar munu þau öll starfa sem ein heild og mynda það sem kallast víxlmælir. Þannig verður ALMA mjög öflugur risasjónauki, jafnstór svæðinu sem loftnetin dreifast um.
Loftnetin 66 eru ekki öll eins. Meginuppistaðan er fimmtíu 12 metra loftnet en tólf smærri 7 metra og fjögur önnur 12 metra stuðningsloftnet mynda aðra röð sem kallast Atacama Compact Array (ACA). ACA loftnetinu eru í smíðum hjá Mitsubishi fyrirtækinu í Japan (MELCO). Þrjú þeirra sjást á þessari mynd sem tekin var við stjórnstöð ALMA. Þarna, í 2.900 metra hæð, eru loftnetin sett saman í 2.900 metra hæð en síðan er þeim ekið 28 km vegalengd upp á hina 5.000 metra háu Chajnantor sléttuna.
Vinstra megin sést eitt 7 metra loftnetið augljóslega smærra en hin tvö sem bæði eru 12 metrar í þvermál. Eins og sjá má eru þau örlítið ólík. Hægra loftnetið var frumgerð sem notað var til prófana á fyrstu stigum verkefnisins en hefur síðan verið endursmíðað. Loftnetunum verður svo öllum komið fyrir á Chajnantor sléttunni þegar yfir lýkur.
Hægt er að lesa sér betur til um ALMA á íslensku á vefsíðu European Southern Observatory (ESO).
Mynd: ESO/José Francisco Salgado (josefrancisco.org)
- Sævar
28.3.2011 | 10:06
Mynd vikunnar: Kyrrlát þyrping með ofsafengna fortíð
Aragrúi stjarna í kúluþyrpingum líkt og Messier 12, sem hér sést á mynd frá Hubblessjónauka NASA og ESA, gerir þær einstaklega myndrænar. Þyrpingarnar eru þéttar og hýsa þess vegna mörg framandi tvístirni, t.d. stjörnur sem sjúga til sín efni frá förunautum sínum og gefa við það frá sér röntgengeislun í leiðinni. Vísindamenn telja að slík röntgentvístirni verði til þegar stjörnur á þéttum svæðum eins og í kúluþyrpingum gerast mjög nærgöngular. Þótt Messier 12 sé fremur strjál á mælikvarða kúluþyrpinga hafa þess háttar röntgentvístirni engu að síður fundist í henni.
Stjarneðlisfræðingar hafa einnig áttað sig á því að í Messier 12 eru mun færri lágmassastjörnur en áður var talið, sjá t.d. frétt ESO frá 2006. Í nýlegri rannsókn notuðu vísindamenn VLT sjónauka Stjörnustöðvar Evrópulanda á suðurhveli á Cerro Paranal í Chile til að mæla birtu og lit meira en 16.000 stjarna í þyrpingunni sem í heild telur um 200.000 stjörnur. Þeir álíta að nærri milljón lágmassastjörnur hafi horfið á brott úr Messier 12 á leið hennar í gegnum þéttustu svæði Vetrarbrautarinnar.
Það er því allt útlit fyrir að kyrrðin sem býr í þessari mynd Messier 12 sé misvísandi því augljóst er að þyrpingin á sér ansi ofsafengna fortíð.
Messier 12 er í um 23.000 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Naðurvalda. Myndin var tekin með Advanced Camera for Surveys myndavélinni á Hubble geimsjónaukanum. Myndin var sett saman úr myndum sem teknar voru í gegnum bláa síu (litaðar bláar), rauða síu (litaðar grænar) og nær-innrauða síu (litaðar rauðar). Heildarlýsingartíminn var um 32 mínútur. Myndin þekur um 3,2 x 3,1 bogamínútur af himinhvolfinu.
Mynd vikunnar kemur frá NASA og ESA
Tengt efni
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2011 | 11:00
Mynd vikunnar: Þyrillaga lykill að útþenslu alheimsins
Þessi mynd Hubblessjónauka NASA og ESA sýnir fallega þyrilvetrarbraut, NGC 5584. Þessi vetrarbraut hefur gegnt lykilhlutverki í nýrri rannsókn þar sem ætlunin er að mæla hversu hratt alheimurinn þenst út með meiri nákvæmni en áður hefur verið gert.
Árið 1881 sá Edward Emerson Barnard NGC 5584 fyrstur manna sem lítinn og daufan þokublett með aðeins 12,5 cm sjónauka. Með því að nýta greinigetu Hubblessjónaukans til hins ítrasta má greina sundur þúsundir stjarna í NGC 5584. Sumar þessara stjarna breyta birtu sinni lotubundið og eru nefndar sefítar. Sefítar búa yfir mjög sérkennilegum eiginleikum því nota má tímann sem líður milli þess að stjarnan nær hámarksbirtu sinni og þar til hún dofnar aftur til að reikna út hve björt stjarnan er í raun. Þegar sú birta er borin saman við hve björt stjarnan sýnist á himninum má reikna út hversu langt í burtu hún er. Þessi aðferð hefur reynst einna best til að meta fjarlægðir til nálægra vetrarbrauta.
Stjörnufræðingar, undir forystu Adams Riess við Space Telescope Science Institute, hafa nú beitt þessari brellu í veigamikilli rannsókn á útþensluhraða alheims. Með því að rannsaka marga sefíta í nokkrum vetrarbrautum hefur rannsóknarhópur Riess endurbætt þekkingu okkar á útþenslu alheims. Þeim hefur tekist að ákvarða svonefndan Hubblesfasta með aðeins 3,3 prósenta óvissu.
Í NGC 5584 varð nýlega sprengistjarna af gerð Ia. Þessar öflugu sprengingar hvítra dverga eru notaðir sem staðalkerti í kortlagningu á burthraða og -hröðun fjarlægustu vetrarbrauta alheims. Þessi vetrarbraut gegnir þess vegna lykilhlutverki í fjarlægðarkvörðun alheims. Hægt er að lesa sér nánar til um þessa rannsókn og mikilvægi hennar hvað hulduorkuna varðar í fréttatilkynningu NASA.
Þessi mynd var sett saman úr mörgum myndum sem teknar voru í gegnum þrjár mismunandi síur með Wide Field Camera 3 myndavél Hubblessjónaukans. Ljós sem barst í gegnum síu sem hleypir í gegn sýnilegu ljósi var litað hvítt, ljós sem bars í gegnum gula/græna síu var litað blátt og myndir sem teknar voru í gegnum nær-innrauða síu voru litaðar rauðar. Myndin nær yfir 2,4 bogamínútna breitt svæði á himinhvelfingunni. Heildarlýsingartími var 20,8 klukkustundir.
Mynd vikunnar kemur frá ESA/Hubble.
Tengt efni
- Hubblessjónaukinn
- Hubblessjónaukinn á Stjörnufræðivefnum
- Þyrilvetrarbrautir á Stjörnufræðivefnum
- Fjarlægðarstiginn á Stjörnufræðivefnum
Vísindi og fræði | Breytt 20.3.2011 kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2011 | 12:17
Merkilegur leiðangur
Við birtum blogg um þetta rétt áður en geimfarið komst á sporbraut. Birti hana bara aftur hér undir. Það er annars ein villa í mbl.is fréttinni sem vert er að benda á (búið að leiðrétta hana núna). Þar segir að geimfarið sé í 46 km fjarlægð (á auðvitað að vera í 46 milljón km fjarlægð) frá Merkúríusi. Minnsta fjarlægð Merkúríusar frá sólinni er 46 milljón km en mest rúmlega 69 milljón km. Meðalfjarlægðin er næstum 58 milljón km.
Rétt eftir miðnætti að íslenskum tíma, aðfaranótt 18. mars, kemst MESSENGER geimfar NASA á braut um Merkúríus. Þetta er í fyrsta sinn sem geimfar kemst á braut um þessa litlu og steiktu reikistjörnu sem er smærri en tvö stærstu tungl Sólkerfisins, Ganýmedes og Títan.
MESSENGER var skotið á loft í ágúst 2004 og var því næstum sex og hálft ár á leiðinni. Ástæðan er ekki sú að Merkúríus sé svo langt í burtu, heldur er reikistjarnan svo djúpt inni í þyngdarbrunni sólar að hægja þarf á ferð geimfarsins eins og frekast er unnt svo það komist á braut um hana. Að öðrum kosti þýtur geimfarið framhjá. Að lokum kemst MESSENGER á sporöskjulaga pólbraut með 12 klukkustunda umferðartíma. Fjarlægðin verður minnst 200 km en mest yfir 15.000 km.
MESSENGER ver heilum tveimur Merkúríusardögum á braut um Merkúríus. Tveir Merkúríusardagar eru reyndar fjögur Merkúríusarár eða eitt jarðarár. Merkúríus snýst nefnilega hægar um sjálfan sig en umhverfis sólina eins og lesa má um hér.
Merkúríus er mjög forvitnilegur hnöttur sem við vitum afskaplega lítið um. Við fyrstu sýn virðist hann ekki mjög ólíkur tunglinu okkar en ekki er allt sem sýnist. Hann er þéttasti hnöttur sólkerfisins á eftir jörðinni. Merkúríus er hnöttur öfganna, að minnsta kosti þegar kemur að yfirborðshitastigi. Lofthjúpur er af skornum skammti og því sveiflast hitastigið frá 430°C hita á daginn niður í -170°C frost á næturnar. MESSENGER vafalaust eftir að draga upp mjög áhugaverða mynd af þessum hnetti.
Endum þetta á einni glæsilegri mynd frá MESSENGER, sem er reyndar ekki af Merkúríusi heldur kunnuglegri hnöttum:
Já, þarna erum við. Þetta er heima. Þetta er jörðin og tunglið séð frá innstu reikistjörnu sólkerfisins.
Tengt efni
- MESSENGER á Stjörnufræðivefnum
- Merkúríus á Stjörnufræðivefnum
- Heimasíða MESSENGER
- NASA TV (Bein útsending frá brautarinnsetningunni)
Já, vissir þú að á Merkúríusi eru tveir gígar sem nefndir eru eftir Íslendingum
----
Tilþrifamikil stjörnumyndun
Á nýrri nærmynd sem tekin var með Very Large Telescope ESO sjást þau miklu áhrif sem nýmynduð stjarna hefur á gasið og rykið sem myndaði hana. Þótt stjarnan sjálf sjáist ekki á myndinni rekst efni sem hún varpar frá sér á gas- og rykský í kring og myndar undarlegt samspil glóandi hringboga, sletta og ráka.
Sjá nánar hér http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1109/
----
Hubble tekur nærmynd af Tarantúluþokunni
Hubblessjónauki NASA og ESA hefur beint sjónum sínum að hluta hinnar frægu Tarantúluþoku og birtist hún okkur á þessari glæsilegu mynd. Þokan er gríðarstórt stjörnumyndunarsvæði, ský gass og ryks í nágrannavetrarbraut okkar, Stóra Magellansskýinu. Myndin sýnir okkur miðsvæði Tarantúluþokunnar, glóandi rafað gas og ungar stjörnur.
Sjá nánar hér http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/358
- Sævar
![]() |
Á sporbraut um Merkúr í fyrsta sinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.3.2011 | 23:43
Geimfar á braut um Merkúríus í fyrsta sinn
Rétt eftir miðnætti að íslenskum tíma, aðfaranótt 18. mars, kemst MESSENGER geimfar NASA á braut um Merkúríus. Þetta er í fyrsta sinn sem geimfar kemst á braut um þessa litlu og steiktu reikistjörnu sem er smærri en tvö stærstu tungl Sólkerfisins, Ganýmedes og Títan.
MESSENGER var skotið á loft í ágúst 2004 og var því næstum sex og hálft ár á leiðinni. Ástæðan er ekki sú að Merkúríus sé svo langt í burtu, heldur er reikistjarnan svo djúpt inni í þyngdarbrunni sólar að hægja þarf á ferð geimfarsins eins og frekast er unnt svo það komist á braut um hana. Að öðrum kosti þýtur geimfarið framhjá. Að lokum kemst MESSENGER á sporöskjulaga pólbraut með 12 klukkustunda umferðartíma. Fjarlægðin verður minnst 200 km en mest yfir 15.000 km.
MESSENGER ver heilum tveimur Merkúríusardögum á braut um Merkúríus. Tveir Merkúríusardagar eru reyndar fjögur Merkúríusarár eða eitt jarðarár. Merkúríus snýst nefnilega hægar um sjálfan sig en umhverfis sólina eins og lesa má um hér.
Merkúríus er mjög forvitnilegur hnöttur sem við vitum afskaplega lítið um. Við fyrstu sýn virðist hann ekki mjög ólíkur tunglinu okkar en ekki er allt sem sýnist. Hann er þéttasti hnöttur sólkerfisins á eftir jörðinni. Merkúríus er hnöttur öfganna, að minnsta kosti þegar kemur að yfirborðshitastigi. Lofthjúpur er af skornum skammti og því sveiflast hitastigið frá 430°C hita á daginn niður í -170°C frost á næturnar. MESSENGER vafalaust eftir að draga upp mjög áhugaverða mynd af þessum hnetti.
Endum þetta á einni glæsilegri mynd frá MESSENGER, sem er reyndar ekki af Merkúríusi heldur kunnuglegri hnöttum:
Já, þarna erum við. Þetta er heima. Þetta er jörðin og tunglið séð frá innstu reikistjörnu sólkerfisins.
Tengt efni
- MESSENGER á Stjörnufræðivefnum
- Merkúríus á Stjörnufræðivefnum
- Heimasíða MESSENGER
- NASA TV (Bein útsending frá brautarinnsetningunni)
Já, vissir þú að á Merkúríusi eru tveir gígar sem nefndir eru eftir Íslendingum
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.3.2011 | 10:31
Konur og stjarnvísindi
Annan hvern mánudagsmorgun flyt ég pistil um stjarnvísindi eða tengdar greinar í þættinum Vítt og breitt á Rás 1, þeim notalega morgunþætti. Í gærmorgun flutti ég pistil um konur og stjarnvísindi:
Á þriðjudaginn í síðustu viku var alþjóðlegur baráttudagur kvenna haldinn hátíðlegur. Markmið dagsins var að vekja fólk til umhugsunar um stöðu kvenna í veröldinni og mikilvægi jafnréttis.
Í gegnum tíðina hafa konur oft átt erfitt uppdráttar í vísindum og mætt miklu misrétti. Karlremban hefur á tíðum verið slík að stundum hefur konum hreinlega ekki leyfst að glíma við leyndardóma alheimsins.
En sem betur fer er þetta smám saman að breytast. Tölur frá nemendaskrá Háskóla Íslands sýna að konur eru í meirihluta í öllum deildum nema verkfræðideild. Konur eru smám saman að láta meira að sér kveða í raunvísindum, einkum jarðfræði, líffræði og efnafræði en af einhverjum ástæðum hefur stærðfræðin og eðlisfræðin orðið útundan. Þegar unnusta mín brautskráðist frá Háskóla Íslands fyrir tæpu ári var hún eina konan í hópi átta nemenda sem lauk námi í eðlisfræði það ár. Á sama tíma luku sjö konur námi í lífefnafræði en aðeins einn karl.
Konur eru um það bil fjórðungur af öllum stjörnufræðingum í heiminum. Í sumum löndum, t.d. á Íslandi, eru engir kvenkyns stjörnufræðinsgar starfandi, en í öðrum löndum er hlutfallið betra, allt upp í helmingur allra stjörnufræðinga. Þessar tölur lækka eftir því sem ofar dregur í aldri sem bendir til að félagslegar- og menningarlegar ástæður búi að baki kynjahlutföllunum. Eitt mikilvægasta verkefni alþjóðlegs árs stjörnufræðinnar 2009 var að vekja athygli á þessari skiptingu og finna leiðir til að laða konur að þessari ótrúlega skemmtilegu vísindagrein.Konur hafa alla tíð lagt sitt af mörkum til stjarnvísinda en segja má að þeim hafi fyrst almennilega skotið upp á stjörnuhimininn seint á 19. öld og í upphafi þeirrar 20. þegar konur áttu einn stærsta þáttinn í að breyta stjarneðlisfræði í alvöru vísindagrein.
Síðar í pistlinum er sagt frá stjarnvísindakonu sem gerði eina mestu uppgötvun stjarneðlisfræðinnar aðeins 25 ára gömul. Þú getur hlustað á restina hér.
----
Hubble kannar Tarantúluþokuna
Í dag birtum við nýja stórglæsilega ljósmynd Hubble geimsjónaukans af Tarantúluþokunni í Stóra-Magellanskýinu, lítilli dvergvetrarbraut sem fylgir okkar Vetrarbraut. Tarantúluþokan er stærsta stjörnumyndunarsvæði sem við vitum um í nágrenni okkar í alheiminum. Þar finnast nokkrar massamestu stjörnur sem vitað er um í ofur-stjörnuþyrpingum sem lýsa upp þokuna og eiga sök á litadýrðinni þar.
Nánar hér http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/358
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt 14.3.2011 kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2011 | 10:47
Mynd vikunnar: Skilnaður stjörnufjölskyldu
Flestar kúluþyrpingar sem sveima umhverfis Vetrarbrautina okkar hafa kjarna sem eru þéttskipaðir stjörnum. NGC 288 er hins vegar ein fárra þar sem stjörnurnar eru ekki eins bundnar af þyngdarkrafti hver annarrar og þyrpingin því laus í sér. Þessi nýja mynd frá Advanced Camera for Surveys á Hubble geimsjónauka NASA og ESA sýnir fullkomlega stjörnurnar í kjarna NGC 288.
Litir og birta stjarnanna gefur okkur vísbendingar um hvernig þær hafa þróast í þyrpingunni. Litlu daufu ljóspunktarnir á myndinni eru venjulega lágmassastjörnur sem brenna enn vetni í kjörnum sínum líkt og sólin okkar gerir. Bjartari stjörnum má skipta í tvo hópa: gulleitar stjörnur eru rauðir risar á seinni hluta æviskeiðs síns og eru nú stærri og bjartari en kaldari. Björtu bláu stjörnurnar eru enn massameiri sem ekki eru lengur á rauða risaskeiði sínu og eru knúnar áfram af helíumsamruna í kjarna sínum.
Stjörnur í kúluþyrpingum verða til nánast samtímis úr sama gasskýinu. Því má segja að hér sé um að ræða eina stjörnufjölskyldu. Hins vegar telja stjarneðlisfræðingar að í þyrpingum sem eru ekki eins þéttskipaðar, líkt og NGC 288, geti stjörnurnar dreift sér og að lokum farið hver í sína áttina.
NGC 288 er að finna í tiltölulega lítt þekktu stjörnumerki á suðurhimni sem nefnist Myndhöggvarinn. Hún er í um 30.000 ljósára fjarlægð frá sólinni. Í Myndhöggvaranum er einnig að finna NGC 253 eða Myndhöggvaravetrarbrautina sem sést í sama sjónsviði með handsjónauka. Það var William Herschel sem uppgötvaði NGC 288 árið 1785 en hann áttaði sig líka á að um væri að ræða kúluþyrpingu sem í mætti greina stakar stjörnur.
Þessi mynd var búin til úr myndum sem teknar voru í gegnum mismunandi síur með Advanced Camera for Surveys á Hubble geimsjónaukanum. Myndir sem teknar voru í gegnum bláa síu voru litaðar bláar, appelsínugula síu grænar og nær-innrauða síu rauðar. Loks voru myndir sem sýna glóandi vetni litaðar appelsínugular. Heildarlýsingartími nam einni klukkustund.
Mynd vikunnar kemur frá NASA/ESA
Tengt efni
- Hubblessjónaukinn
- Hubblessjónaukinn á Stjörnufræðivefnum
- Stjörnuyrpingar á Stjörnufræðivefnum
- Messierskráin á Stjörnufræðivefnum
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2011 | 20:23
Nálægasta fulla tungl í 19 ár
Ég ætlaði ekki að birta þessa færslu fyrr en á morgun en fyrst búið er að skrifa frétt um þetta birti ég hana nú.
Næsta laugardag verður fullt tungl. Á sama tíma er tunglið líka eins nálægt jörðinni og það kemst. Verður því hér um að ræða stærsta fulla tungl ársins 2011, um 14% breiðara og rétt yfir 30% bjartara en önnur full tungl á árinu. Þetta laugardagskvöld mun tunglið sem sagt líta út fyrir að vera aðeins stærra og bjartara en venjulega.
Mynd: (©) Anthony Ayiomamitis. Sjá hér. Birt með leyfi myndhöfundar / Used with photographers permission
En hvernig stendur á því að tunglið er mislangt frá jörðinni? Jóhannes Kepler áttaði sig á því fyrir næstum 400 árum. Hann komst að því að braut tunglsins um jörðina (og annarra reikistjarna um sólina) er ekki hringur heldur sporaskja. Að þessu sinni verður fjarlægð tunglsins frá jörðinni 356.577 km en hún getur mest orðið rétt rúmlega 406.000 km. Þessi mismunur á jarðnánd (perigee) og jarðfirð (apogee) tunglsins veldur því að tunglið getur verið misstórt á himninum. Til gamans má geta þess að fyrir næstum 40 árum settu geimfarar fjarlægðarmet í geimnum. Þegar Apollo 13 flaug bak við tunglið í apríl 1970 var tunglið næstum eins langt frá jörðinni og mögulegt er, þá í 400.002 km fjarlægð.
Stórt tungl, aðeins minna tungl
Fullt tungl rís alltaf á sama tíma og sólin sest. Líttu austurátt við sólsetur á laugardagskvöldið. Þar skríður tunglið upp á himinninn, risastórt að því er virðist, og appelsínugult. Síðar um kvöldið, þegar tunglið er komið hærra á himinninn, virðist það hafa skroppið aðeins saman og gránað. Hvers vegna?
Það sem þú ert að upplifa er tunglskynvillan svonefnda. Tunglið virðist stærra við sjóndeildarhringinn en það í raun og veru er vegna þess hvernig við skynjum lögun himinhvelfingarinnar. Þú getur sannreynt skynvilluna sjálf(ur) með því að beygja þig og horfa á tunglið á hvolfi. Hvað gerist? Tunglið minnkar. Reistu þig við og tunglið stækkar! Magnað, ekki satt?
Tunglið er alveg jafn stórt við sjóndeildarhringinn og þegar það er hæst á lofti. En hvernig útskýrum við litamuninn? Hvers vegna er tunglið appelsínugult þegar það er lágt á lofti en grátt hátt á lofti? Tunglið endurvarpar því sólarljósi sem á það fellur. Þegar tunglið er lágt á lofti þarf ljósið að ferðast lengri vegalengd í gegnum lofthjúpinn. Við það verður rauði liturinn í ljósinu allsráðandi og tunglið tekur á sig rauðan eða appelsínugulan blæ. Ljósið ferðast skemmri leið þegar tunglið er hátt á lofti og þá er blái liturinn í ljósinu allsráðandi.
Tengsl við náttúruhamfarir?
Til er fólk sem vill tengja fullt tungl í jarðnánd við náttúruhamfarir, allt frá jarðskjálftum til flóða. Að sjálfsögðu hefur ekki orðið nein breyting þar á núna. Og með hjálp internetsins er auðvelt að kynda undir og dreifa þessari vitleysu.
Einhverjir hafa reynt að tengja þetta við jarðskjálftann mikla í Japan. Skjálftinn varð viku fyrir jarðnánd tunglsins, en það breytir auðvitað engu fyrir þá sem reyna að telja fólki trú um að tengsl séu þarna á milli.
Aldrei hefur tekist að tengja tungl í jarðnánd við náttúruhamfarir. Náttúruhamfarir eiga sér aðrar orsakir og tunglið kemur þar hvergi nærri. Jarðskjálftann í Japan má rekja til flekahreyfinga. Tunglið hafði þar ekki nokkur áhrif. Punktur!
Tunglið er í jarðnánd einu sinni í hverjum mánuði. Fjarlægðin sveiflast örlítið til og frá en munurinn nú og venjulega er ekki svo ýkja mikill (nokkur þúsund km) svo áhrifin eru hverfandi.
Árið 2006 var tunglið t.d. næst okkur í 357.210 km fjarlægð eða aðeins 633 km fjær okkur en nú. Með þyngdarlögmáli Newtons má reikna út kraftinn sem verkaði á okkur þá og bera saman við kraftinn sem verkaði á okkur nú. Í ljós kemur að munurinn á kröftunum aðeins 0,12%, sem sagt hverfandi lítill.
Þennan dag gerðist ekkert merkilegt. Eða skipta þessir 633 km kannski öllu máli?
- Sævar
![]() |
Ofurmáni á himni næstu helgi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 24.11.2020 kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)