8.12.2010 | 23:59
Gengur betur næst
Það er erfitt að senda geimfar til annarrar reikistjörnu. Þannig hefur tæplega helmingur allra geimfara sem senda hafa verið til Mars misheppnast á einhvern hátt. Enn erfiðara er að senda geimfar til reikistjarnanna sem eru nær sólinni en jörðin því þá þarf töluvert af eldsneyti til að hægja ferðina. Þetta er svona svipað og að renna niður rennibraut, hraðinn eykst eftir því sem neðar dregur nema í þessu tilviki eykst hraðinn eftir því sem maður nálgast þyngdarbrunn sólar. Eftir því sem rennibrautin er brattari, því meira eldsneyti þarf til að hægja ferðina.
Akatsuki var um 200 daga á leið til Venusar. Við komuna átti geimfarið að kveikja á eldflaugum til að hægja ferðina. Þessar eldflaugar áttu að loga í að minnsta kosti 9 mínútur og 20 sekúndur en virðast hafa stöðvast eftir aðeins tvær til þrjár mínútur. Það dugði augljóslega ekki til og því þaut geimfarið framhjá reikistjörnunni.
Japanska geimfarið er enn við hestaheilsu svo það er ekki öll nótt úti enn. Japanir munu reyna aftur síðar þegar Akatsuki flýgur aftur framhjá Venusi í desember árið 2016, að því gefnu að geimfarið verði enn starfhæft þá. Akatsuki er nú á braut um sólina með 80% af eldsneytinu eftir. Geimfarið er nær sólinni en Venus svo það ferðast umhverfis sólina örlítið hraðar en Venus. Frá Venusi séð mun geimfarið smám saman fjarlægast sig, ár eftir ár, uns þær mætast loks aftur sex árum síðar.
Við óskum Japönum góðs gengis og vonum svo innilega að eftir sex ár muni þeir hjálpa til við að leysa allar ráðgáturnar um Venus.
Fyrir áhugasama er hægt að sjá Venus á morgunhimninum þessa dagana. Hún er áberandi björt í suðaustri og boðar þar rísandi sól. Ég flutti svo pistil um reikistjörnuna í þættinum Vítt og breitt á Rás 1 í gærmorgun.
Tengt efni
![]() |
Geimfar nær ekki til Venusar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.12.2010 | 23:40
Laufléttur jólaleikur og loftsteinadrífan Geminítar
Stjörnufræðivefurinn er með laufléttan jólaleik á netinu þar sem hægt er að vinna bókina Alheimurinn og Galileósjónaukann eða annan glaðning frá vefnum og Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness.
Lesendur þurfa aðeins að svara einni spurningu (og svarið er að sjálfsögðu að finna á Stjörnufræðivefnum!). Þeir sem svara rétt geta skráð nafn sitt í pott sem dregið verður úr þann 20. desember.
Jólaleikur Stjörnufræðivefsins
Jólagjafalisti stjörnuáhugafólksins
Við höfum einnig sett saman lista með ýmsum hugmyndum að gjöfum fyrir þá sem hafa áhuga á stjörnunum.
Jólagjafir stjörnuáhugafólksins
Geminítar ættu að sjást um helgina
Upp úr næstu helgi nær loftsteinadrífan geminítar hámarki (13. og 14. des.) en stjörnuhröp frá þeim ættu einnig að sjást um helgina (sjást á milli 7. og 17. des.). Loftsteinadrífan virðist koma frá punkti í stjörnumerkinu Tvíburunum en nafnið geminítar er dregið af Gemini sem merkir tvíburar á latínu.
Hér til hliðar má sjá mynd af stjörnumerkinu Tvíburunum úr forritinu Stellarium.
Til þess að finna stjörnumerkið Tvíburana á himninum er best að nota stjörnukort mánaðarins fyrir kvöld eða morgna í desember.
Úti í sveit og ekkert tungl
Best er að skoða geminítana úti í sveit en björtustu loftsteinahröpin sjást samt úr bænum þar sem er þokkalega dimmt. Tunglið skemmir einnig fyrir. Það fer vaxandi sem þýðir að tunglið sest ekki fyrr en líður á kvöldið.
Hér að neðan er mynd úr forritinu AstroViewer sem sýnir hvenær reikistjörnurnar og tunglið sjást á himninum. Á myndinni sést að tunglið sest um kl. 23 á laugardagskvöldið 11. desember. Á sunnudagskvöldið sest það á milli tólf og eitt.
Bæði er hægt að skoða gagnvirkt stjörnukort á vefsíðu AstroViewer eða hlaða því niður í ókeypis, íslenskri útgáfu (neðst til vinstri á niðurhals-vefsíðunni).
Ekki verra að fara út snemma á morgnana!
Það er ekkert síðra að fara út að morgni dags til þess að kíkja eftir geminítunum. Mesta myrkrið er fyrir kl. 8 á morgnana. Venus skín skært í suðaustri á morgnana og á sama svæði á himninum er einnig að finna reikistjörnuna Satúrnus (sjá morgun-stjörnukortið á vefnum okkar).
Gangi ykkur vel!
-Sverrir
Vísindi og fræði | Breytt 9.12.2010 kl. 11:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2010 | 11:52
Hvað ætlar NASA að tilkynna?
Við blogguðum um málið í gær. Best ég birti bara færsluna aftur hér undir:
Fyrir tveimur dögum barst mér þessi tilkynning frá NASA. Hún vakti að sjálfsögðu forvitni mína, enda orðuð þannig að um sé að ræða nokkuð merkilega uppgötvun í stjörnulíffræði (íslenska orðið yfir astrobiology) sem á eftir að hafa áhrif á leit að vísbendingum um líf utan jarðar. Sama dag verður rannsóknin birt í tímaritinu Science. Nú þegar hafa að minnsta kosti tveiríslenskir vefmiðlar birt frétt þar sem sagt er frá fundinum og kynnt undir vangaveltur sem eiga kannski ekki alveg við rök að styðjast.
Ég hef ekki hugmynd um hverju skýrt verður frá á morgun klukkan 19 að íslenskum tíma. Miðað við þá vísindamenn sem taka þátt í fundinum býst ég við því að það hafi eitthvað að gera með lífvænlegar aðstæður á hnetti í sólkerfinu okkar og lífræn efnasambönd. Ég ætla þess vegna að skjóta á að fundist hafi merkileg lífræn efnasambönd í lofthjúpi Títans, fylgitungli Satúrnusar, án þess að ég hafi nokkuð sérstakt fyrir mér í því. Kannski hefur þetta eitthvað að gera með hlutverk arseniks og/eða fosfórs í lífi utan jarðar.
Eitt þykir mér nokkuð ljóst og það er að ekki verður tilkynnt um að líf hafi uppgötvast utan jarðar. Það má einfaldlega lesa út úr tilkynningunni. Því miður hafa margir túlkað tilkynninguna sem svo að greint verðir frá sönnunargögnum um líf utan jarðar. En vonandi hef ég rangt fyrir mér!
Ég er hræddur um að með þessari tilkynningu hafi blaðafulltrúar NASA skapað óþarfa spennu og vangaveltur meðal almennings. Ekki misskilja mig, ég efast ekki um að fréttin verður vísindalega mjög merkileg, en ég er hræddur um að fréttin valdi fólki, sem á von á einhverju stórkostlegu eins og sönnunum fyrir lífi í alheimi, dálitlum vonbrigðum.
Hvað svo sem verður ætla ég að fylgjast vel með fundinum á morgun, en leyfi mér að efast um að eitthvað stórbrotið líti dagsins ljós, því stórbrotnar staðhæfingar krefjast stórbrotinna sönnunargagna eins og Carl Sagan orðaði það.
Uppfært 2. desember kl. 11:30
Samkvæmt nokkuð áreiðanlegum heimildum hefur þessi tilkynning með hlutverk arseniks í lífi að gera. Það ku vera býsna spennandi því það snertir uppruna lífs á jörðinni og annars staðar í alheiminum. Þetta hefur þá þýðingu að líf gæti verið miklu algengara en okkur hafði áður órað fyrir. Líf eins og við þekkjum það endurskilgreint! Spennandi!
Þetta hlýtur að tengjast þessari grein hér. Þessi grein fjallar um lífefnafræði arseniks og hvaða ályktanir má draga af því fyrir uppruna lífs á jörðinni. Líf gæti hafa kviknað oftar en einu sinni á jörðinni og það hefur vitaskuld áhrif á uppruna lífs annars staðar í alheiminum.
Viðbót kl. 14:00
Í athugasemd við fyrra blogg var bent á að þetta tengdist Monovatni í Kaliforníu. Um árabil hefur einn vísindamannanna, Dr. Felisa Wolfe-Simon, rannsakað vatnið í leit að lífverum sem nota arsenik úr vatninu fyrir efnaskipti. Monovatn er gífurlega salt og inniheldur einni lítri vatnsins um 70 grömm salts. Til samanburðar má nefna að í höfum jarðar eru um 31,5 grömm af salti í hverjum lítra.
Í okkur og öllum öðrum lífverum sem við þekkjum er fosfór lykilefni og myndar t.d. hryggjarsúluna í DNA (líffræðingar, endilega leiðréttið mig ef þetta er rangt). Auk fosfórs reiða öll þekkt lífsform á jörðinni sig á aðra sameind sem kallast ATP eða adenósín þrífosfat. ATP er lífrænt efnasamband sem geymir í sér mikla orku og er því nokkurs konar lífræn rafhlaða ef svo má segja.
Arsenik er beint undir fosfóri í lotukerfinu svo þessi efni hafa svipaða efniseiginleika, þótt efnafræði þeirra sé of ólík til þess að arsenik geti leyst fosfór af hólmi í lífverum. Arsenik er því eitrað en arsenik og fosfór eru nógu lík til þess að lífverur reyni að taka það upp í staðinn.
Það er þess vegna mjög spennandi að finna lífverur í arsenikríku umhverf. Ef þessar lífverur nota arsenat í stað fosfats sýnir það að til eru önnur lífsform, ólik þeim sem við þekkjum, þ.e.a.s. ólíkt lífi eins og við þekkjum það.
Líf hefur þá væntanlega orðið til á jörðinni oftar en einu sinni, jafnvel mörgum sinnum. Arsenik lífið er því líklega ekki af sama meiði og við þótt þær deili sama hýbýli í geimnum.
Það er því stórmerkilegt og bendir til þess að líf gæti verið miklu algengara en við teljum.
(ATH! Þarna hætti ég mér inn á svið lífefnafræði sem ég er enginn sérfræðingur í. Takið þessu sem ég skrifa því með þeim fyrirvara. Auk þess eru þetta bara vangaveltur enn sem komið er.)
===
Í dag greindi ESO frá merkilegri uppgötvun. Í fyrsta sinn hafa vísindamenn skyggnst inn í lofthjúp risajarðar. Sjá nánar hérhttp://www.eso.org/public/iceland/news/eso1047/
- Sævar
![]() |
Ný stjarnlíffræðileg uppgötvun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
1.12.2010 | 20:00
Hvað ætlar NASA að tilkynna?
Fyrir tveimur dögum barst mér þessi tilkynning frá NASA. Hún vakti að sjálfsögðu forvitni mína, enda orðuð þannig að um sé að ræða nokkuð merkilega uppgötvun í stjörnulíffræði (íslenska orðið yfir astrobiology) sem á eftir að hafa áhrif á leit að vísbendingum um líf utan jarðar. Sama dag verður rannsóknin birt í tímaritinu Science. Nú þegar hafa að minnsta kosti tveir íslenskir vefmiðlar birt frétt þar sem sagt er frá fundinum og kynnt undir vangaveltur sem eiga kannski ekki alveg við rök að styðjast.
Ég hef ekki hugmynd um hverju skýrt verður frá á morgun klukkan 19 að íslenskum tíma. Miðað við þá vísindamenn sem taka þátt í fundinum býst ég við því að það hafi eitthvað að gera með lífvænlegar aðstæður á hnetti í sólkerfinu okkar og lífræn efnasambönd. Ég ætla þess vegna að skjóta á að fundist hafi merkileg lífræn efnasambönd í lofthjúpi Títans, fylgitungli Satúrnusar, án þess að ég hafi nokkuð sérstakt fyrir mér í því. Kannski hefur þetta eitthvað að gera með hlutverk arseniks og/eða fosfórs í lífi utan jarðar.
Eitt þykir mér nokkuð ljóst og það er að ekki verður tilkynnt um að líf hafi uppgötvast utan jarðar. Það má einfaldlega lesa út úr tilkynningunni. Því miður hafa margir túlkað tilkynninguna sem svo að greint verðir frá sönnunargögnum um líf utan jarðar. En vonandi hef ég rangt fyrir mér!
Ég er hræddur um að með þessari tilkynningu hafi blaðafulltrúar NASA skapað óþarfa spennu og vangaveltur meðal almennings. Ekki misskilja mig, ég efast ekki um að fréttin verður vísindalega mjög merkileg, en ég er hræddur um að fréttin valdi fólki, sem á von á einhverju stórkostlegu eins og sönnunum fyrir lífi í alheimi, dálitlum vonbrigðum.
Hvað svo sem verður ætla ég að fylgjast vel með fundinum á morgun, en leyfi mér að efast um að eitthvað stórbrotið líti dagsins ljós, því stórbrotnar staðhæfingar krefjast stórbrotinna sönnunargagna eins og Carl Sagan orðaði það.
Uppfært 2. desember kl. 11:30
Samkvæmt nokkuð áreiðanlegum heimildum hefur þessi tilkynning með hlutverk arseniks í lífi að gera. Það ku vera býsna spennandi því það snertir uppruna lífs á jörðinni og annars staðar í alheiminum. Þetta hefur þá þýðingu að líf gæti verið miklu algengara en okkur hafði áður órað fyrir. Líf eins og við þekkjum það endurskilgreint!
===
Í dag greindi ESO frá merkilegri uppgötvun. Í fyrsta sinn hafa vísindamenn skyggnst inn í lofthjúp risajarðar. Sjá nánar hér http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1047/
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt 2.12.2010 kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
26.11.2010 | 12:17
Pistlar á Rás 1, sefítar, rauði bletturinn og jólagjafir
Hanna G. Sigurðardóttir, útvarpskona á Rás 1, var svo indæl að bjóða mér að flytja pistla aðra hverja viku í þættinum sínum Vítt og breitt. Pistlarnir eru teknir upp og leiknir á miðvikudagsmorgnum.
Í pistlunum hef ég fjallað um ýmislegt, allt frá vetrarbrautum til halastjarna. Í pistli síðasta miðvikudags sagði ég frá fullu tungli og því helsta sem fyrir augum ber á kvöldhimninum þessa dagana. Ég er enn að læra að flytja svona pistla, það er hægara sagt en gert að gera það vel en vonandi skánar maður með tímanum. Hægt er að hlusta á seinasta pistil hér http://dagskra.ruv.is/ras1/4552174/2010/11/24/
---
Á miðvikudaginn birtist ný frétt frá ESO þar sem skýrt er frá niðurstöðum mælinga stjarnvísindamanna á óvenjulegu tvístirnakerfi. Í þessu tvístirnakerfi er sefíti, sem er mikilvæg tegund sveiflustjörnu, og önnur minni stjarna sem ganga fyrir hvor aðra á víxl. Er þar því um að ræða myrkvatvístirni og þau eru harla sjaldgæf enn sjaldgæfara er að þau innihaldi sefíta.
Þetta myrkvatvístirnakerfi gerði vísindamönnum kleift að mæla massa sefítsins með meiri nákvæmni en nokkru sinni fyrr. Mikilvægt er að massi sefíta sé þekktur eins nákvæmlega og unnt er því þessar stjörnur eru notaðar til að mæla vegalengdir í geimnum. Edwin Hubble notaði einmitt sefíta til að bylta heimsmynd okkar því þegar hann fann slíkar stjörnur í Andrómeduvetrarbrautinni tókst honum að mæla vegalengdina til hennar. Þá fyrst áttuðu menn sig á því að alheimurinn var miklu stærri en þá óraði fyrir og innihélt milljarða vetrarbrauta.
Hægt er að lesa sig betur til hér http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1046/
---
Í gær birtum við alveg hreint stórkostlegar myndir sem Björn Jónsson, stjörnuáhugamaður og geimlistamaður, útbjó af Stóra rauða blettinum á Júpíter. Björn tók gömul gögn frá Voyager 2. og vann upp á nýtt. Blanda af nútíma tölvutækni og hugbúnaði auk slatta af hæfileikum gerir áhugamönnum eins og Birni færi á að útbúa þessi listaverk.
Þetta eru bestu myndir sem gerðar hafa verið af rauða blettinum á Júpíter. Sjón er sögu ríkari. Myndirnar má nálgast hér http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/300
---
Við höfum tekið saman lista yfir góða stjörnusjónauka og góðar bækur sem eru tilvaldar jólagjafir. Þetta eru allt hlutir sem við mælum óhikað með.
Listann má nálgast hér http://www.stjornuskodun.is/frettir/nr/301
- Sævar
15.11.2010 | 12:11
Ræman
Þessi magnaða mynd var tekin með Hubble geimsjónaukanum. Hér sérðu hundruð milljarða stjarna frá óvenjulegu sjónarhorni. Þetta er vetrarbrautin NGC 4452 sem liggur nánast fullkomlega á rönd frá okkur séð. Í miðri skífunni glittir í bjartan kjarna vetrarbrautarinnar en umhverfis ræmuna svífa fleiri milljarðar stjarna og mynda hjúp. En ekki er allt sem sýnist. Þarna er líka hellingur af hulduefni sem heldur vetrarbrautinni saman, þótt við sjáum það ekki beint.
Vetrarbrautir koma í ýmsum stærðum og gerðum. Þær eru yfirleitt aldrei stakar í geimnum heldur mynda þær hópa og þyrpingar. Þessi tiltekna vetrarbraut tilheyrir þyrpingu tæplega 2000 vetrarbrauta sem kennd er við stjörnumerkið Meyjuna. Fjarlægðamælingar á sefítum benda til þess að Meyjarþyrpingin sé í um 60 milljón ljósára fjarlægð. Grenndarhópurinn sem Vetrarbrautin okkar tilheyrir er við ytri mörk Meyjarþyrpingarinnar og mun dag einn, eftir einhverja milljarða ára, sameinast henni.
Vetrarbrautir innihalda marga milljarða stjarna, sumar trilljónir. Árið 1923 sannaði Edwin Hubble að til voru aðrar vetrarbrautir handan okkar eigin Vetrarbrautar þegar hann mældi vegalengdirnar til þeirra. Sú uppgötvun gjörbreytti sýn okkar á alheiminn. Hann varð skyndilega stærri en nokkurn óraði fyrir. Geimsjónaukinn frægi var síðan nefndur eftir honum.
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.11.2010 | 12:58
FRESTAÐ - Krakkanámskeið í stjörnufræði á Akureyri
VIÐ HÖFUM ÁKVEÐIÐ AÐ FRESTA NÁMSKEIÐINU FRAM YFIR ÁRAMÓT.
Laugardaginn 13. nóvember næstkomandi standa Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn fyrir krakkanámskeiði í stjörnufræði og stjörnuskoðun. Námskeiðið hefst klukkan 11:30 og stendur til 13:50.
Fyrri hluti námskeiðsins snýst um mannaðar og ómannaðar geimferðir. Þar verður meðal annars velt upp spurningum á borð við: Hafa menn í alvöru stigið fæti á tunglið? Hvernig fara geimfarar á klósettið? Sofa geimfarar í rúmi og hvað borða þeir í geimnum? Hversu langt út í geiminn hefur maðurinn farið? Hvaða geimskip hefur farið lengst út í geiminn og hvað fór það langt? Þetta eru meðal þeirra spurninga sem ætlunin er að svara á námskeiðinu.
Seinni hluti námskeiðsins snýst aftur á móti um undur alheimsins. Þar er t.d. ætlunin að skoða hvernig stjörnur springa og hvað gerist ef ólánsamur geimfari dytti ofan í svarthol.
Verði heiðskírt um kvöldið bjóðum við öllum þátttakendum og raunar öllum Norðlendingum að skoða stjörnurnar með okkur.
Hvetjum sem flesta til að láta sjá sig!
Hér eru nánari upplýsingar og skráning í námskeiðið.
Vísindi og fræði | Breytt 12.11.2010 kl. 11:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.11.2010 | 15:16
Til hamingju með daginn!
9. nóvember er afmælisdagur Carl Sagan. Hann hefði orðið 76 ára í dag, hefði hann lifað. Í fyrra skrifaði ég bloggfærslu í tilefni dagsins og lýsti því þá yfir að fáir hafa haft jafn mikil áhrif á mitt líf og þessi merki maður.
Ég ætla ekki að skrifa neitt sérstakt í tilefni dagsins, heldur má ég til með að vísa á tvö góð myndskeið með þessum meistara. Hið fyrra fjallar um hvernig stjörnuryk þróaðist í lífverur og þróun lífsins. Myndskeiðið er úr Cosmos-þáttunum frábæru:
Hitt myndskeiðið er það fallegasta og áhrifamesta sem Carl Sagan skrifaði. Vangaveltur hans um jörðina og hversu dýrmæt hún og lífið á henni er:
Fæ alltaf gæsahúð þegar ég hlusta á þetta. Mér finnst að það ætti að vera skylda í skólum að horfa á þetta.
Við eigum að fara vel með jörðina og lífið á henni, hætta þessari græðgi og halda svo út til stjarnanna!
Til hamingju með daginn Carl Sagan. Þín er sárt saknað.
- Sævar
1.11.2010 | 13:13
Deep Impact nálgast halastjörnuna Hartley 2
Á fimmtudaginn flýgur Deep Impact geimfarið framhjá halastjörnunni Hartley 2 úr aðeins 700 km hæð. Er þetta fimmta halastjarnan sem við sjáum í návígi en jafnframt sú minnsta.
Árið 2005 heimsótti Deep Impact halastjörnuna Tempel 1. Í júlí það ár losnaði lítið koparskeyti frá geimfarinu og rakst á halastjörnuna. Við það myndaðist gígur á yfirborðinu og talsvert magn íss og ryks þeyttist út í geiminn. Útsýnið var vægast sagt stórfenglegt:
Árekstur! Deep Impact ljósmyndar árekstur koparskeytis við halastjörnuna Tempel 1 þann 4. júlí 2005.
En núna verður enginn árekstur. Eftir frægðarförina til Tempel 1 var geimfarið, sem er á stærð við lítinn fólksbíl, enn við hestaheilsu og nóg eftir af eldsneyti. Því ákvað NASA að endurnýta geimfarið og setja stefnuna á aðra halastjörnu. Því miður var ekki fýsilegt fyrir Deep Impact að heimsækja Tempel 1 aftur. Það fellur aftur á móti í skaut Stardust geimfarsins að skoða ummerki árekstursins þann 14. janúar á næst ári.
Halastjarnan sem Deep Impact flýgur nú framhjá er sú sama og prýtt hefur kvöldhiminninn síðustu vikur, íslensku stjörnuáhugafólk til mikillar ánægju. Sú halastjarna heitir Hartley 2 og sést sem grænn hnoðri á myndinni hér undir sem Jón Örn Sigurðsson tók nýverið.
Halastjarnan var næst jörðinni 20. október síðastliðinn, þá í aðeins 17,7 milljón km fjarlægð. Nokkrum dögum síðar nýttu stjörnufræðingar við útvarpssjónaukann í Arecibo tækifærið og tóku ratsjármyndir af kjarna halastjörnunnar. Á myndunum sést að kjarni halastjörnunnar er ílangur, um 2 km langur.
Hvernig ætli yfirborð hennar sé? Við eigum von á miklu betri myndum á fimmtudaginn frá Deep Impact sem sýna okkur það vonandi.
Sjá nánar
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.10.2010 | 16:32
Stóra alþjóðlega stjörnutalningin 29. okt. - 11. nóv. 2010
Í dag hefst alþjóðleg stjörnutalning sem nefnist Great World Wide Star Count á frummálinu. Hún felst í því að áhugafólk úti um allan heim fer út með stjörnukort, athugar hversu daufar stjörnur er hægt að sjá á himninum og sendir inn niðurstöðurnar á sameiginlegri vefsíðu fyrir allan heiminn.
Hér er hluti af niðurstöðunum frá síðasta ári (2009). Eins og sjá má tók stjörnuáhugamaður á Þingeyri þátt í verkefninu en vonandi berast fleiri mælingar frá Íslandi þetta haust.
Það þarf enga sérkunnáttu í stjörnufræði til þess að taka þátt. Leiðbeiningarnar gera ekki ráð fyrir neinni þekkingu á næturhimninum heldur eru þátttakendur leiddir í gegnum ferlið í nokkrum einföldum skrefum.
Búið er að setja upp sérstaka vefsíðu um stjörnutalningar á Stjörnufræðivefnum. Um miðbik síðunnar er að finna leiðbeiningar fyrir Stóru alþjóðlegu stjörnutalninguna 2010. Ég tók þátt í talningunni þar sem ég bjó í Edmonton í Kanada í fyrra og ætla að taka aftur þátt í talningunni á Íslandi í ár.
-Sverrir
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)