27.10.2010 | 14:57
Fagrar vetrarbrautir, kynæxlun og bók
ESO birtir í dag innrauðar ljósmyndir sem teknar voru með VLT sjónaukunum af sex þyrilvetrarbrautum, hver annarri fegurri. Mér finnst þessi fallegust:
Þessi heitir NGC 1232 og er í um 65 milljón ljósára fjarlægð. Svona leit hún þá út þegar jörðin varð fyrir risaárekstri sem olli útdauða risaeðlanna!
Hægt er að lesa sér frekar til og sjá aðrar glæsilegar ljósmyndir á vef ESO.
===
Hvers vegna æxlast sumar tegundir kynlaust en aðrar eingöngu með kynæxlun? Við veltum þessari spurningu meðal annars fyrir okkur með gesti okkar, Snæbirni Pálssyni líffræðingi, í Vísindaþætti gærdagsins. Þátturinn er kominn á vefinn hjá okkur og hægt að hlusta hér á. Snæbjörn skrifar grein um sama efni í bókinni Arfleið Darwsins sem komin er út og ætti að vera til sölu í öllum helstu bókabúðum.
===
Út er komin stórglæsileg bók, Alheimurinn. Þessi frábæra bók er úr sama bókaflokki og Jörðin, Maðurinn, Dýrin og Sagan. Hún er þess vegna ríkulega myndskreytt og uppfull af fróðleik. Bók sem á heima á öllum heimilum.
Við mælum hiklaust með henni. Bókin fæst í öllum bókabúðum landsins og kostar 12.900 kr til áramóta.
Innan skamms ætlum við svo að vera með léttan leik þar sem þú getur unnið eintak af bókinni. Nánar um það síðar.
- Sævar
22.10.2010 | 15:04
Tilraunaglasið á Rás 1
Mér til mikillar ánægju heyrði ég nýjan vísindaþátt, Tilraunaglasið í umsjá Péturs Halldórssonar, á Rás 1 í dag. Í fyrsta þættinum fjallaði Pétur um íslenska rannsókn á húsasveppum, framleiðslu á eldsneyti úr dýrafitu og vísindauppgötvanir á yfirvegaðan og skemmtilegan hátt. Hægt er að hlusta á þáttinn á rúv.is en hann er líka endurfluttur á sunnudagskvöld klukkan 21:10.
Það er mikill fengur í svona þætti og það gleður mig mikið að hann sé á Rás 1 því þá næst hann um allt land. Sem betur fer virðast fjölmiðlar, að minnsta kosti útvarpsmiðlar, farnir að sýna vísindum aðeins meiri áhuga en oft áður. Fyrir utan þennan nýja þátt er vikulega (á miðvikudagsmorgnum) stutt en laggóð umfjöllun um stjarnvísindi í Íslandi í bítið. Í Útvarpi Sögu er Vísindaþátturinn okkar alla þriðjudaga milli 17 og 18 og svo eru vikulegir pistlar um vísindi í Víðu og breiðu í umsjá Hönnu G. Sigurðardóttur (undirritaður er með pistil aðra hverja viku).
Prentmiðlar mættu hins vegar alveg taka sig verulega á. Mánaðarleg umfjöllun um vísindi í prentmiðlunum eru teljandi á fingrum annarrar handar. Ekki einu sinni nýjasti prentmiðillinn, Fréttatíminn, hefur séð ástæðu til að birta vísindafréttir, sem mér þykir mjög dapurt. Ég sem hélt þeir vildu skera sig aðeins úr. En vonandi bæta prentmiðlarnir úr þessu.
- Sævar
20.10.2010 | 17:20
Tvær stórmerkar fréttir
Vetrarbrautir eru risavaxin söfn stjarna og sólkerfa og stundum gass og ryks á víð og dreif um alheiminn. Það hefur löngum verið stjörnufræðingum mikil ráðgáta hvenær þessar stærstu byggingareiningar alheimsins mynduðust fyrst eftir Miklahvell og hvernig þær síðan uxu og þróuðust.
Nú hafa stjörnufræðingar komist skrefi nær því að leysa þessar ráðgátur.
Í dag birtist merkileg frétt frá ESO um fjarlægustu vetrarbraut sem sést hefur í alheiminum hingað til. Ljósið frá henni lagði af stað fyrir rúmlega 13 milljörðum ára, nánar tiltekið aðeins rétt um 600 milljón árum eftir Miklahvell. Þótt það sé vissulega áhugavert að finna fjarlægasta fyrirbærið eru þær ályktanir sem draga má af uppgötvuninni þó sínu merkilegri. Uppgötvunin sýnir að stjörnur og vetrarbrautir mynduðust tiltölulega stuttu eftir Miklahvell þegar alheimurinn var enn á barnsaldri.
Á þessari mynd sést vetrarbrautin UDFy-38135539, fjarlægasta vetrarbraut sem sést hefur í alheiminum hingað til. Vetrarbrautin sást fyrst á innrauðri ljósmynd sem Hubble geimsjónaukinn tók árið 2009. Gríðarlega erfitt er að mæla fjarlægðina til svo daufrar ljósuppsprettu en það tókst evrópskum stjörnufræðingum engu að síður með hjálp Very Large Telescope. Litróf ljóssins frá vetrarbrautinni var grannskoðað og út frá litrófslínum í því var hægt að reikna út fjarlægðina: Næstum 13,2 milljarðar ljósára! Það þýðir að ljósið frá þessari vetrarbraut lagði af stað þegar alheimurinn var aðeins um 600 milljón ára gamall. Þegar ljósið lagði af stað voru enn næstum 8.000.000.000 ár þangað til jörðin byrjaði að myndast. Mynd: NASA, ESA, G. Illingworth (UCO/Lick Observatory og University of California, Santa Cruz) og HUDF09 hópurinn.
Segja má að þessi fyrirbæri hafi myndast þegar fósturfitan var enn á alheiminum því vetrarbrautirnar á þessum tíma voru umluktar vetnisgasi sem gerði alheiminn að mestu ógegnsæjan. Ungu og heitu stjörnurnar í vetrarbrautunum sviptu svo smám saman hulunni af alheiminum með ljósi sínu þær brutust út úr þokunni.
Í árdaga var alheimurinn minni en í dag enda hefur hann þanist út síðan þá. Gasið sem umlék vetrarbrautirnar í árdaga alheims var því þéttara en í dag og virðist hafa leikið lykilhlutverk í vexti vetrarbrautanna, ef marka má niðurstöður nýlegra rannsókna og greint var frá í síðustu viku. Evrópskir vísindamenn hafa nefnilega komist að því að ungar vetrarbrautir gátu vaxið með því að soga til sín vetnisgasið sem umlék þær og notað það sem eldsneyti í myndun nýrra stjarna. Þessar vetrarbrautir sjást um það bil tveimur milljörðum ára eftir Miklahvell.
Gaman er að segja frá því að báðar þessar uppgötvanir voru gerðar með Very Large Telescope og litrófsritanum SINFONI sem er eitt helsta mælitæki sjónaukans. VLT eru fjórir risaspegilsjónaukar, staðsettir við bestu mögulegu aðstæður í Atacamaeyðimörkinni í Chile, starfræktir af European Southern Observatory (ESO) sem er stærsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og ein öflugasta stjörnustöð heims. Íslenskir stjarneðlisfræðingar hafa notið góðs af sjónaukum ESO þrátt fyrir að vera ekki formlegur þátttakandi í samstarfinu. Í fyrra notaði t.a.m. Páll Jakobsson, stjarneðlisfræðingur við Háskóla Íslands, Very Large Telescope til að greina daufar glæður fjarlægasta gammablossa sem sést hefur í alheiminum hinga til. Sá blossi var allt þar til nú, fjarlægasta fyrirbæri sem sést hafði í alheiminum.
Allar þessar rannsóknir eru liður í því að skilja hvernig í ósköpunum alheimurinn ól okkur af sér. Mér finnst það ótrúlega spennandi viðfangsefni. Ég get ekki beðið eftir því að vísindamenn haldi áfram að svipta hulunni af alheiminum. Hvað stórfenglegu uppgötvanir leynast handan við hornið?
Sjá nánar:
- Brotist út úr þokunni Fjarlægasta vetrarbraut sem mælst hefur
- Hæglátur vöxtur vetrarbrauta
- Vetrarbrautir
- European Southern Observatory
- Sævar
8.10.2010 | 22:13
Hvað í veröldinni?
Rakst á þessa óvenjulegu ljósmynd. Hvað í veröldinni er þetta? (Smelltu til að stækka myndina.)
Þessa óvenjulegu ljósmynd tók Solar Dynamics Observatory með 16 megapixla myndavél sinni af stjörnunni okkar. Rafgasið á sólinni er gífurlega heitt, um og yfir 1.000.000°C heitt.
Í forgrunni sést tunglið og fjöll sem gnæfa upp af yfirborði þess. Þetta sjónarhorn er ekki algengt og myndin þar af leiðandi svo sérstök.
Tengt efni:
6.10.2010 | 10:22
Leyndardómur Einhyrningsins
Í dag birtir ESO spánnýja ljósmynd frá VISTA af leyndardómi Einhyrningsins:
Vááááá! Mér finnst þetta alveg mögnuð mynd. Stærri útgáfan er stórglæsileg.
Meira um þetta á íslensku á vef ESO!
- Sævar
4.10.2010 | 17:00
Halastjarna og fyrirlestur um kortlagningu Vetrarbrautarinnar
Á himninum nú um stundir og næstu daga er halastjarnan Hartley 2. Halastjarnan er ansi dauf og því erfitt að sjá en það er nú samt hægt með hjálp stjörnukorts og dimms næturhimins. Kjarni halastjörnunnar er lítil, aðeins rúmur km í þvermál en haddurinn eða hjúpurinn er 150.000 km í þvermál, álíka stór og Júpíter. Halastjarnan verður næst jörðu 20. október, þá björtust og sennilega mest áberandi.
Við settum upp frétt um halastjörnuna á vefinn okkar. Þar er einnig kort sem hægt er að notfæra sér til að finna hana. Fréttin er hér.
Við fórum tveir saman í Kaldársel í Hafnarfirði í gær til að berja halastjörnuna augum. Við sáum hana útundan okkur með berum augum og leit út eins og óljós þokublettur. Hún lítur ágætlega út í stjörnusjónauka og handsjónauka. Sökum þess hve hún er dauf er nauðsynlegt að nota kort til að finna hana. Á henni er enginn eiginlegur hali sjáanlegur svo hún lítur ekki beinlínis út eins og tignarleg halastjarna. Það er samt alltaf gaman að sjá þessi fyrirbæri.
Íslenskir stjörnuáhugamenn eru þegar farnir að gera tilraunir til að taka mynd af halastjörnunni.
Snemma í nóvember fær halastjarnan heimsókn frá Deep Impact geimfarinu.
====
Þriðjudagskvöldið 5. október (annað kvöld) klukkan 20:00 fer fram fyrirlestur Guðlaugs Jóhannessonar um Fermi gervitunglið og kortlagningu á Vetrarbrautinni okkar. Guðlaugur er nýkominn til landsins aftur eftir nokkurra ára dvöl í Stanford í Bandaríkjunum. Um er að ræða samvinnuverkefni milli Háskóla Íslands, Stanford háskóla og NASA sem greiðir fyrir rannsóknirnar. Sjá nánar fréttatilkynningu frá okkur.
Það er mikil lyftistöng fyrir rannsóknir í stjarnvísindum á Íslandi að fá þetta verkefni hingað til lands.
Fyrirlestur Guðlaugs fer fram í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.
Þess má svo geta að Guðlaugur verður gestur í Vísindaþættinum á morgun milli 17:10 og 18:00.
Við verðum með Galíleósjónaukana á staðnum hafi einhver áhuga á!
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.10.2010 | 14:44
Námskeið í stjörnufræði og stjörnuskoðun
Stjörnufræðivefurinn og Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness standa fyrir byrjendanámskeiði 12. og 13. október næstkomandi. Dagskrá námskeiðsins miðast talsvert við þá sem eiga sjónauka eða hafa hug á að kaupa sér slíkan grip, en allt áhugafólk ætti að geta lært heilmikið á því að mæta og læra um það sem sést á himninum.
Námskeiðið fer fram í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Hér er upplýsinga- og skráningarsíða fyrir námskeiðið.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2010 | 22:22
Lífvænleg reikistjarna loks fundin?
Í dag, í nýjasta hefti Astrophysical Journal, tilkynnti hópur bandarískra stjarnvísindamanna um uppgötvun á reikistjörnu á stærð við jörðina umhverfis nálæga stjörnu. Það sem er athyglisverðast við þessa uppgötvun er að reikistjarnan er í miðju lífbeltis sólstjörnunnar. Lífbelti er sá staður í sólkerfi þar sem fljótandi vatn gæti verið til staðar á yfirborði reikistjörnu. Verði uppgötvunin staðfest er því hér um að ræða fyrstu lífvænlegu reikistjörnuna sem finnst utan okkar sólkerfis.
Í greininni er sagt frá því að tvær reikistjörnur hafi fundist umhverfis stjörnuna Gliese 581. Þessi stjarna er rauður dvergur, mun minni en sólin og töluvert kaldari (3.400°C á móti 5.600°C). Hún er í um 20 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Voginni.
Þetta er ekki fyrsta sinn sem reikistjörnur finnast umhverfis Gliese 581. Áður vissu menn um fjórar aðrar. Sólkerfið sem hér um ræðir inniheldur því að minnsta kosti sex reikistjörnur. Aðeins stjarnan HD 10180 hefur líklega fleiri reikistjörnur. Allar eru þessar reikistjörnur á því sem næst hringlaga brautum, líkt og reikistjörnurnar í sólkerfinu okkar.
Reikistjarnan sem hér um ræðir nefnist Gliese 581 g (g þýðir að hún er sjötta reikistjarnan sem vitað er um í sólkerfinu, hinar nefnast b, c, d, e og f). Hún er sennilega þrefalt massameiri en jörðin og 1,2 til 1,4 sinnum breiðari. Massinn og stærðin benda því til þess að um bergreikistjörnu með fast yfirborð sé að ræða. Hún hefur líklega álíka sterkan þyngdarkraft og jörðin sem er meira en nóg til þess að viðhalda þykkum lífvænum lofthjúpi.
Árið á reikistjörnunni er næstum 10 sinnum styttra en á jörðinni eða aðeins um 37 dagar. Reikistjarnan snýr alltaf sömu hliðinni að stjörnunni, rétt eins og tunglið okkar snýr alltaf sömu hlið að jörðinni. Munurinn er hins vegar sá að aðeins önnur hlið þessarar reikistjörnu nýtur sólarljóss, hin ekki (á tunglinu njóta allar hliðar sólarljóss á einhverjum tíma).
Reikistjarnan fannst með óbeinum hætti með svonefndum sjónstefnumælingum. Með öflugum litrófsrita sem nefnist HIRES á Keck I sjónaukanum á Mauna Kea á Hawaii (einum stærsta sjónauka heims) tókst stjörnufræðingum að mæla hve mikið móðurstjarnan færðist fram og aftur af völdum þyngdartogsins frá reikistjörnunni.
Hægt er að sjá þetta fyrir sér með því að ímynda sér sleggjukastara. Þegar kastarinn sveiflar sleggjunni vaggar hann örlítið vegna þess að massi sleggjunnar togar í hann. Vaggið í tilviki stjörnunnar er rétt rúmlega 1 metri á sekúndu sem er hægara en gönguhraði! Það er því gífurlega vandasamt verk að finna reikistjörnur með þessum hætti og í þessu tilviki voru 238 mælingar gerðar yfir 11 ár!
Sólkerfið Gliese 581 er heldur betur áhugavert. Á sitthvorum enda lífbeltisins eru tvær aðrar reikistjörnur, báðar næstum tífalt massameiri en jörðin. Á heitari endanum (þar sem Venus væri hjá okkur) er Gliese 581 c en á kaldari endanum (þar sem Mars er hjá okkur) er Gliese 581 d. Einhverjir stjarnvísindamenn hafa haldið því fram að ef Gliese 581 d hefur þykkan lofthjúp og öflug gróðurhúsaáhrif gæti hún líka verið lífvænleg. Flestir stjörnufræðingar draga það þó mjög í efa. Aftur á móti er nýja reikistjarnan í miðju lífbeltinu - á Gullbrár-svæðinu þar sem hvorki er of heitt né of kalt.
Skýringarmynd af lífbelti Gliese 581. Reikistjarnan Gliese 581 g er í miðju lífbeltisins. Mynd: ESO/Stjörnufræðivefurinn
Þessi uppgötvun er frekar merkileg og hefur áhugaverða þýðingu í för með sér. Hún bendir til þess að lífvænlegar reikistjörnur gætu verið tiltölulega algengar í Vetrarbrautinni okkar. Ef lífvænlegar reikistjörnur væru sjaldgæfar hefðum við ekki fundið þær svona snemma og svona nálægt. Það gætu því verið milljarðar af lífvænlegum reikistjörnum í Vetrarbrautinni okkar.
Við lifum á mögnuðum tímum. Kannski leynist eitthvað stórfenglegt á yfirborði þessarar reikistjörnu? Hver veit?
Heimild: Fréttatilkynning
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
23.9.2010 | 15:11
Kannski ekki móðir allra hamfara
Mér þykir þetta full djúpt í árinni tekið hjá frænda okkar í Noregi þótt vissulega sé alltaf hætta á öflugum sólgosum þegar sólblettasveiflan nær hámarki á 11 ára fresti eða því sem næst. Það eina sem við getum gert að fylgjast náið með stjörnunni sem glæðir jörðina lífi.
Ýmislegt verra gæti hent okkur en sólgos og segulstormar, t.d. gæti árekstur smástirna valdið miklu manntjóni. Og við gætum alveg staðið okkur betur í að finna þau. Það væri líka miklu miklu verra ef gammablossi ætti sér stað nálægt okkur. Þá fyrst gætum við farið að tala um hamfarir.
Fólk getur alveg sofið rótt og hætt að hafa áhyggjur í bili. Árið 2013 verða alveg örugglega þó nokkrir misöflugir sólblossar og segulstormar sem valda engu tjóni. En það er auðvitað aldrei hægt að segja aldrei. Hins vegar er óþarfi að hræða fólk. Ég hlakka bara til að sjá falleg norðurljós á himni næstu árin.
Mig langar að lokum til að benda fólki á að hægt er að nálgast ágætar upplýsingar um þessi málefni á vefnum okkar.
Já, og við settum inn nýja frétt á vefinn í morgun.
![]() |
Jörðin er í hættu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
23.9.2010 | 08:14
Haustmáni á haustjafndægrum
Í dag eru haustjafndægur sem marka sumarlok og upphaf haustsins á norðurhveli en vorsins á suðurhveli. Dagur og nótt eru jafn löng alls staðar á jörðinni. Á vefnum okkar er eftirfarandi útskýring á jafndægrum:
Sólbaugurinn og miðbaugur himins skerast þar af leiðandi á tveimur stöðum. Þessir staðir eða punktar eru nákvæmlega andspænis hvor öðrum og kallast jafndægrapunktar. Þegar sólin er í öðrum hvorum jafndægrapunkti eru dagur og nótt um 12 klukkustundir alls staðar á jörðinni; dagurinn er þá jafnlagur nóttinni. Hugtakið jafndægur (equinox) er notað fyrir þá daga þegar sólin sker þessa punkta.
Þann 21. mars ár hvert sker sólin vorjafndægrapunktinn. Sólin stefnir þá í norðurátt yfir miðbaug himins og fer hækkandi á himninum. Þessi dagsetning markar þar af leiðandi upphaf vors á norðurhveli jarðar. Hálfu ári síðar eða 22. september sker sólin haustjafndægrapunktinn. Sólin stefnir þá í suðurátt undir miðbaug himins og fer lækkandi á himninum. Þessi dagsetning markar upphaf hausts á norðurhvelinu jarðar. Þar sem árstíðir eru gagnstæðar á norður- og suðurhvelinu markar vorjafndægur hjá okkur komu hausts hjá íbúum í Suður-Ameríku, Ástralíu og sunnanverðri Afríku.
Á sama tíma í yfir 20 ár fellur fullt tungl á haustjafndægur. Það fulla tungl sem fellur næst haustjafndægrum kallast haustmáni eða uppskerumáni.
Haustmáni rís. Björn Jónsson tók þessa fallegu ljósmynd í gærkvöldi (22. september) ofan af Helgafelli í Hafnarfirði. Sjá má endurvarp vegstika á myndinni. Mynd: Björn Jónsson.
Horfðu í austurátt um kvöldmatarleytið í kvöld. Máninn klifrar hægt og rólega yfir sjóndeildarhringinn. Þér gæti virst tunglið óvenju stórt. Í raun er það ekkert stærra en þegar það er hátt á himni. Þetta er tunglskynvillan sem menn klóra sér enn í hausnum yfir. Heilinn skynjar tunglið stærra þegar það er við sjóndeildarhringinn vegna þess hvernig við skynjum himininn. Þú getur prófað sjálf(ur) að staðfesta að um skynvillu er að ræða. Prófaðu að horfa á tunglið á hvolfi. Þá minnkar tunglið. Um leið og þú reisir þig við aftur stækkar tunglið.
Myndavélar hafa ekki heila eins og við og sjá því ekki þessa skynvillu. Ef þú tekur ljósmynd af tunglinu, þá birtist það alveg jafn stórt við sjóndeildarhringinn eins og hátt á himni. Dálítið furðulegt ekki satt?
Skammt frá tunglinu er Júpíter eins og við sögðum frá í bloggfærslu á mánudag og í frétt á mbl.is á þriðjudag. Hér er því gott ljósmyndatækifæri!
- Sævar