22.9.2010 | 10:06
Vísindavaka, tignarleg vetrarbraut og annað stjörnuskoðunarblogg
Stjörnuskoðunarfélagið tekur þátt í Vísindavöku Rannís föstudagskvöldið 24. september næstkomandi. Á Vísindavöku gefst öllum kostur á að kynna sér viðfangsefni íslenskra vísindamanna á lifandi og skemmtilegan hátt.
Í ár ætlum við að leyfa gestum og gangandi að handleika elsta berg sem til er á jörðinni; 4.500 milljón ára loftsteina sem hafa fallið til jarðar. Við ætlum að stilla Galíleósjónaukanum upp, gefa myndir af undrum alheimsins og margt margt fleira skemmtilegt.
Aðalheiður Jónsdóttir hjá Rannís var gestur okkar í Vísindaþættinum í gær. Við ræddum meðal annars um Vísindavökuna við hana og er spjallið nú aðgengilegt á vefnum okkar.
===
Bloggið okkar er ekki hið eina hér á landi sem fjallar um stjörnuskoðun. Á Þingeyri býr vinur okkar Jón Sigurðsson og heldur hann úti fínu bloggi um stjörnuskoðun. Okkur finnst einmitt sérstaklega skemmtilegt að lesa um það sem annað áhugafólk er að gera í áhugamálinu og Jón stendur sig ákaflega vel í því. Hann hefur smíðað sér stjörnuturn og er að gera tilraunir í stjörnuljósmyndun.
===
ESO birti í dag innrauða ljósmynd af einstaklega tignarlegri vetrarbraut sem heitir NGC 1365. Myndin var tekin með Very Large Telescope í Chile. NGC 1365 er sérstaklega formfögur bjálkaþyrilvetrarbraut í 60 milljón ljósára fjarlægð. Hún er hluti af vetrarbrautaþyrpingu sem kennd er við stjörnumerkið Ofninn.
Það sem mér finnst svo magnað við þessa mynd er að ekki sést ein einasta stök stjarna í vetrarbrautinni. Allir ljósu kekkirnir eru þyrpingar stjarna sem innihalda hundruð, ef ekki þúsundir stjarna.
Meira um það á vef ESO... á íslensku!
- Sævar
20.9.2010 | 11:36
Júpíter og Úranus á himni
Þið sem hafið horft til himins undanfarna daga hafið eflaust tekið eftir áberandi bjartri stjörnu á austurhimni skömmu eftir sólsetur. Þið sem hafið líka sótt ykkur stjörnukort mánaðarins á Stjörnufræðivefnum vitið að þetta er Júpíter, stærsta reikistjarna sólkerfisins.
Í nótt (21. september) verður Júpíter í gagnstöðu við jörð sem þýðir að hann er gegnt sólu frá jörðu séð. Þá rís hann yfir sjóndeildarhringinn við sólsetur og er hátt í suðri á miðnætti; bjartur og fagur á himninum alla nóttina.

Tunglið, Júpíter og norðurljósin yfir Breiðafirði séð frá Barðaströnd. Mynd: Sævar Helgi Bragason
Á 13 mánaða fresti mætast jörðin og Júpíter, þ.e. eru gegnt hvort öðru og mynda beina línu við sól. Þá tekur jörðin framúr Júpíter á leið sinni í kringum sólina. Jörðin og Júpíter eru ekki á fullkomlega hringalaga brautum eins og Jóhannes Kepler sýndi fram svo vegalengdin milli þeirra, þegar jörðin geysist fram úr, er ekki alltaf sú sama. Við gagnstöðuna nú er Júpíter 75 milljón km nær jörðu en oft áður og verður raunar ekki eins nálægt aftur fyrr en árið 2022. Þrátt fyrir það er Júpíter í næstum 600 milljón km fjarlægð frá jörðinni. Seinast var hann svona nálægt árið 1963. Ljósið er rúmlega 30 mínútur að ferðast þessa vegalengd en geimfar næstum því eitt ár.
Nú er þess vegna kjörið tækifæri að berja Júpíter augum í gegnum stjörnusjónauka, til dæmis Galíleósjónaukann. Í síbreytilegum lofthjúpi reikistjörnunnar sjást fjölmörg smáatriði eins og skýjabelti og jafnvel rauði bletturinn. Í gegnum handsjónauka og stjörnusjónauka sjást tunglin fjögur sem Galíleó sá fyrstur manna fyrir 400 árum síðan. Tunglin eru einstaklega áhugaverð. Íó er næst Júpíter og eldvirkasti hnöttur sólkerfisins. Evrópa kemur næst og hefur kannski að geyma stórfengleg leyndarmál í hafinu undir ísskorpunni. Þar á eftir er Ganýmedes, stærsta tungl sólkerfisins, og svo loks Kallistó. Tunglin eru á fleygiferð um Júpíter svo stundum sérðu þrjú tungl en stundum öll fjögur.
Prófaðu að beina handsjónauka að Júpíter! Reyndu að halda honum eins stöðugum og kostur er, t.d. með því að leggja hann á bílþak. Í sjónsviði sjónaukans sérðu Júpíter sem skæra stjörnu og litla punkta út frá sitt hvorri hlið hans. Þetta eru Galíleótunglin.
Rétt fyrir ofan Júpíter er önnur reikistjarna, Úranus. Úranus er gegnt sólu á sama tíma og Júpíter. Þá er kjörinn tími til að líta á hann í stjörnusjónauka. Maður sér ekki eins mikið og á Júpíter en greinir samt fölbláa skífu.
Á miðvikudaginn er tunglið næstum fullt, þá rétt fyrir ofan reikistjörnurnar tvær á miðnætti í suðri. Á fimmtudaginn eru haustjafndægur og á sama tíma fullt tungl. Það fulla tungl sem fellur næst haustjafndægrum kallast haustmáni eða uppskerumáni. Þá er tunglið líka í gagnstöðu við jörðina og rís á sama tíma og sólin sest, alveg eins og þegar reikistjörnurnar eru í gagnstöðu.
Hér undir er kort úr Stellarium sem er ókeypis stjörnufræðihugbúnaður á íslensku (hægt er að smella til að sjá hana stærri).
Það er svo margt að sjá á þessum stóra og síbreytilega himni. Allir út með sjónaukana!
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2010 | 14:38
Vísindaþátturinn aftur á dagskrá og stórkostleg mynd
Vísindaþátturinn er aftur kominn á dagskrá í Útvarpi Sögu eftir dágott sumarfrí. Við snerum aftur á þriðjudaginn síðastliðinn og röbbuðum þar á léttu nótunum um nýja vefinn okkar, sjónaukaverkefnið og veltum vöngum yfir örlögum alheimsins. Þátturinn er kominn á vefinn.
Nú geta líka áhugasamir gerst áskrifendur að þættinum í gegnum iTunes. Á forsíðunni er hægt að smella á hnapp sem á stendur "Þátturinn í áskrift". Þá opnast iTunes og sækir nýjasta þáttinn.
Í næstu viku mætir Aðalheiður Jónsdóttir frá Rannís í spjall til okkar um Vísindavökuna sem fram fer föstudaginn 24. september næstkomandi. Við verðum að sjálfsögðu þátttakendur í Vísindavökunni og segjum nánar frá því sem við bjóðum upp á þegar nær dregur. Vikuna þar á eftir kemur Steindór Erlingsson vísindasagnfræðingur í viðtal. Ætlum við að ræða við hann um bókina Arfleið Darwins sem kemur út um svipað leyti og Arnar Pálsson plöggar á fullu blogginu sínu þessa dagana. Að sjálfsögðu mun allt áhugafólk um vísindi kaupa bókina. Hver veit, kannski getum við gefið eintak í beinni útsendingu.
Við erum sem sagt aftur komnir í loftið og höldum áfram að spjalla um vísindi á mannamáli í vetur alla þriðjudaga milli 17 og 18 í Útvarpi Sögu.
===
Í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness er tölvugúrú og listamaður sem heitir Björn Jónsson. Hann er í alvöru talað einhver færasti myndvinnslumaður sem við vitum um þegar kemur að vinnslu mynda frá gervitunglum. Í tölvunni hans leynast allar ljósmyndir sem flestir ef ekki allir leiðangrar út í sólkerfið hafa tekið hingað til. Björn tekur stundum gamlar ljósmyndir og vinnur þær upp á nýtt. Niðurstaðan er alla jafna alveg stórfengleg. Ég missti nánast andlitið þegar ég rakst á þessa mynd frá honum:

Myndin er skeytt saman úr 24 ljósmyndum sem Voyager 1 tók í gegnum appelsínugula og fjólubláa síu úr um það bil 1,85 milljón km fjarlægð. Þetta er án nokkurs vafa besta mynd sem gerð hefur verið af rauða blettinum á Júpíter. Hana er hægt að skoða stærri hér. Björn sagði mér að myndvinnslan hefði tekið milli 30 og 40 klukkustundir! Á myndinni sjást ótrúleg smáatriði í lofthjúpi Júpíters.
Til hamingju Björn með þessa mögnuðu mynd! Það væri ekki úr vegi að íslenskir fjölmiðlar birtu hana á síðum sínum í stað endalausra mynda af einhverjum smástirnum í Hollywood.
- Sævar
13.9.2010 | 10:58
Stór dagur hjá okkur
Í dag er stór dagur hjá okkur. Við höfum opnað nýjan og glæsilegan Stjörnufræðivef og um leið hafið eitt stærsta átak sem miðar að eflingu raunvísindakennslu á Íslandi.
Hugsmiðjan útbjó nýja vefinn okkar og eiga þau hrós skilið fyrir algjörlega frábært starf. Við sáum fyrstu drög af vefnum í maí og satt að segja fór brosið varla af okkur næstu daga á eftir. Við stöndum í mikilli þakkarskuld við Hugsmiðjuna. Í dag opnaði svo Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra vefinn við athöfn í Setbergsskóla í Hafnarfirði.
Nýja vefnum fylgja þó nokkrar nýjungar. Fyrir utan nýtt útlit eru fjölmargar nýjar greinar á vefnum, t.d. um stjörnur, vetrarbrautir og heimsfræði. Næstu vikur bætast svo enn fleiri greinar í sarpinn enda ætlunin að gera vefinn að öflugum þekkingarbrunni sem allir, ekki síst nemendur og kennarar, geta sótt í. Allar greinar eru settar upp á svipaðan hátt og gert er á Wikipedia. Sumar greinar, eins og til að mynda sú sem fjallar um jörðina, eru mjög yfirgripsmiklar.
Í hverri viku birtist ný frétt um niðurstöður rannsókna í stjarnvísindum. Við fáum fréttir frá ESO og Hubble fyrirfam og getum birt þær á sama tíma á íslensku og þær birtast erlendis. Hægt er að skrifa ummæli við fréttir í gegnum Facebook athugasemdakerfi.
Ýmsar nýjungar eru líka í þeim hluta vefsins sem snýr að stjörnuskoðun. Þar finna byrjendur og lengra komnir ýmislegt við sitt hæfi, svo sem stjörnukort, upplýsingar um búnað, stjörnumerki og margt fleira.
Við erum hvergi nærri hættir að þróa vefinn. Næsta verkefni sem bíður okkar er líka stórt. Nánar um það síðar í vetur.
Sjónauki í alla skóla landsins
Aðalatriðið er þó að sjálfsögðu það átak sem við hófum í Setbergsskóla í dag. Í fyrra, á alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar, pöntuðum við 300 stjörnusjónauka með aðstoð góðra aðila sem við ætlum að gefa öllum grunn- og framhaldsskólum á Íslandi. Tilgangurinn er að efla áhuga íslenskra nemenda á raunvísindum og gera þeim kleift að sjá undur alheimsins með eigin augum, líkt og segir í fréttatilkynningu sem við sendum fjölmiðlum af þessu tilefni. Katrín afhenti fyrsta sjónaukann á sama tíma og vefurinn var opnaður.
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.9.2010 | 10:30
Glæsileg þyrilvetrarbraut og ókeypis bók
ESO hefur birt nýja og glæsilega ljósmynd af þyrilvetrarbrautinni NGC 300. Hún líkist Vetrarbrautinni okkar og tilheyrir hópi vetrarbrauta sem kenndur er við stjörnumerkið Myndhöggvarinn. Myndin var tekin á næstum 50 klukkustundum með Wide Field Imager (WFI) í stjörnustöð ESO á La Silla í Chile. Á henni sjást hárfín smáatriði í vetrarbrautinni sem er í um sex milljón ljósára fjarlægð og þekur álíka stórt svæði á himninum og fullt tungl.
Meira á vef ESO... á íslensku!
============
Í gær kynnti ESO og Alþjóðasamband stjarnfræðinga nýja bók: Postcards from the Edge of the Universe. Í bókinni skýra 24 stjörnufræðingar frá rannsóknum sínum á aðgengilegan hátt. Bókin er mjög falleg og hægt að sækja ókeypis á pdf formi hér.
7.9.2010 | 16:35
Leysigeisla skotið að miðju Vetrarbrautarinnar
Sumar myndir eru virkilega tilkomumiklar, eins og þessi hér:
Mynd: ESO/Yuri Beletski
Hér sést leysigeisla skotið upp með einum af Very Large Telescope ESO á Paranal. Í 90 km hæð örvar leysigeislin natríumatóm efst í lofthjúpi jarðar. Þetta natríum er talið leifar loftsteina sem brenna upp í lofthjúpnum. Við örvunina byrja natríumatómin að glóa og mynda lítinn ljósblett. Sjónaukinn getur fylgst með hvernig ljósbletturinn bjagast vegna ókyrrðar í lofthjúpi jarðar.
Speglar sjónaukanna eru örþunnir og á þá eru festir þrýstihreyfiliðir sem geta breitt lögun speglanna í samræmi við bjögunina. Þessi breyting nemur broti úr míkrómetra. Bylgjunemi sendir þessar upplýsingar í öflugar tölvur sem reikna út hversu mikið breyta á lögun spegilsins út frá mældri ókyrrð lofthjúpsins. Ferlið í heild frá því að ljósið berst inn í nemann og þar til lögun speglanna hefur verið breytt má ekki taka lengri tíma en 0,5 til 1 millisekúndu, þar sem lofthjúpurinn er á örri hreyfingu.
Þessi tækni nefnist aðlögunarsjóntækni og er eitt mikilvægasta töfrabragð nútíma stjarnvísinda. Með aðlögunarsjóntækni má draga úr áhrifum lofthjúpsins á gæði athugana. Aðlögunarsjóntæknin er ein mikilvægasta tækniþróunin í stjarnvísindum á síðustu árum og er raunar ómissandi fyrir stærstu sjónauka jarðar.
Án aðlögunarsjóntækninnar væri lítið vit í að reisa risasjónauka. Án hennar sæjum við alheiminn í móðu. Með henni er mynd okkar af alheiminum hnífskörp.
- Sævar
31.8.2010 | 11:05
Stjörnukort fyrir september 2010
Við erum búnir að setja stjörnukort fyrir september 2010 inn á vefsíðu um stjörnuskoðun í kvöld. Stjörnukort mánaðarins hefur fengið heilmikla yfirhalningu í sumar. Búið er að bæta við leiðbeiningum um hvernig á að nota kortið og uppsetning textans aftan á kortinu er mun skýrari. Loks er búið að lagfæra útlitið á stjörnuskífunni og setja allar línur og tákn á vektor-snið sem þýðir að gæðin eru enn meiri þegar kortið er prentað út.
Reyndar eru tvær útgáfur af stjörnukorti mánaðarins núna í haust. Önnur sýnir stjörnumerkin og reikistjörnurnar á kvöldhimni á hefðbundinn hátt. Á hinni er hins vegar búið að bæta inn halastjörnunni Hartley 2. Hún á að geta sést í stjörnusjónauka í september en jafnvel með berum augum við góðar aðstæður í október.
-Sverrir
26.8.2010 | 22:50
Tunglið og Júpíter á himninum
Þegar þetta er skrifað (rétt fyrir kl. 23 á fimmtudagskvöldi) er einkar falleg samstaða tunglsins og Júpíters á himninum. Við hvetjum alla til að fara út og kíkja. Ef þú átt handsjónauka, prófaðu þá að skoða bæði fyrirbæri með honum. Á tunglinu sérðu gígótt landslag tunglsins og við Júpíter, stærstu reikistjörnu sólkerfisins, gætir þú komið auga á tunglin sem Galíleó sá fyrstur manna fyrir 400 árum. Enn betra er að nota stjörnusjónauka, ef þú býrð svo vel að eiga einn slíkan. Annars er alltaf hægt að kaupa eitt stykki.
Fyrir þremur dögum var ég staddur á Barðaströnd á Vestfjörðum, sá glæsilegan himinn og tók þá þessa ljósmynd:
Þú getur smellt á hana (tvisvar) til að sjá hana stærri. Á myndinni lýsir fullt tungl upp Breiðafjörð. Birtan frá tunglinu endurvarpast líka svona fallega í fjörunni. Norðurljósin dansa á dökkbláum næturhimninum. Í suðaustri glittir í Júpíter (vinstra meginn við tunglið). Þessi mynd var forsíðumyndin á SpaceWeather.com á þriðjudaginn.
Mikið getur næturhimininn verið óskaplega fallegur.
- Sævar
24.8.2010 | 08:57
Stjörnufræðingar finna allt að sjö reikistjörnur á braut um stjörnu sem líkist sólinni
Stjörnufræðingar hafa með hjálp HARPS litrófsrita ESO fundið sólkerfi að minnsta kosti fimm reikistjarna á braut um stjörnuna HD 10180. Sú stjarna líkist sólinni okkar. Stjörnufræðingarnir fundu að auki vísbendingar um tvær aðrar reikistjörnur. Verði tilvist annarrar þeirrar staðfest yrði hún sú massaminnsta sem fundist hefur hingað til. Þetta sólkerfi geymir því svipaðan fjölda reikistjarna og sólkerfið okkar (sjö reikistjörnur í samanburði við átta í sólkerfinu okkar). Auk þess fann rannsóknahópurinn vísbendingar um að fjarlægðir reikistjarnanna frá móðurstjörnunni fylgi ákveðinni reglu, nokkuð sem einnig sést í sólkerfinu okkar.
Meira um þetta á vef ESO... á íslensku!
- Sævar
22.8.2010 | 12:06
Stellarium - ókeypis stjörnufræðiforrit á íslensku
Stellarium er stjörnufræðiforrit sem er til á fjölmörgum tungumálum, þar á meðal íslensku. Í forritinu er hægt að stilla inn tíma og skoða stjörnuhimininn hvaðan sem er frá jörðinni (og öðrum reikistjörnum í sólkerfinu!). Forritið er ókeypis og virkar á öllum helstu stýrikerfum: Windows, Mac og Linux.
Við erum búnir að setja upp vefsíðu með íslenskum innsetningu fyrir Stellarium, ásamt leiðbeiningum og fleiri myndum úr forritinu: http://stellarium.astro.is
Með Stellarium kemur ein íslensk panorama-landslagsmynd úr Vonarskarði sem Sveinn í Felli setti saman fyrir forritið. Við hvetjum áhugasama til þess að setja saman panorama-myndir fyrir íslensku útgáfuna og senda okkur. Nánari upplýsingar er að finna á íslensku Stellarium vefsíðunni.
Íslensk landslagsmynd úr Vonarskarði.