Sólskoðun á Austurvelli á Menningarnótt

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn standa fyrir sólskoðun á Menningarnótt 21. ágúst fyrir framan styttuna af Jóni Sigurðssyni. Sólskoðunin verður frá 13 til 17. Nú vonum við bara að sú gula sýni sig!

Sólskoðun á Austurvelli 2008 


Stjörnufræðivefurinn færir út kvíarnar

eso-logo-p3005rgb_thumb.jpgÍ sumar höfum við unnið hörðum höndum að nýjum Stjörnufræðivef. Hann verður opnaður snemma í september og er algjör bylting frá því sem fyrir er. Við hlökkum mikið til að kynna hann.

Það er okkur aftur sönn ánægja að kynna einn anga af nýja vefnum núna strax. Við höfum nefnilega tekið upp samstarf við ESO, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, sem starfrækir marga stærstu og afkastamestu stjörnusjónauka heims, meðal annars Very Large Telescope sem eru fullkomnustu sjónaukar á jörðinni í dag. 

Nú er til íslenskur ESO vefur og gegnir undirritaður hlutverki tengiliðs Íslands við ESO. Það þýðir að ég þýði fréttatilkynningar ESO svo þær birtast alltaf á sama tíma á íslensku og þær eru gerðar opinberar hjá ESO. Þetta er okkur mikil lyftistöng og viðurkenning á okkar starfi því ESO hleypir ekki hverjum sem er að hjá sér. Tilkynning þess efnis birtist á vef ESO í dag.

Fyrstu fjórar fréttatilkynningarnar eru þegar aðgengilegar á vef ESO. Sú nýjasta fjallar um ljósmyndina hér undir.

eso1033a.jpg

En hver er tilgangurinn með þessu öllu saman? Tilgangurinn er fyrst og síðast að auka umfjöllun íslenskra fjölmiðla um nýjustu niðurstöður rannsókna í stjarnvísindum. Þar sem allt efni er á íslensku ætti nú að vera auðveldara að birta fréttir af alheiminum á sama tíma og þær birtast í erlendum fjölmiðlum. Ég ætla að vona að íslenskir fjölmiðlar nýti sér það til hins ýtrasta. Á Stjörnufræðivefnum verður svo ítarefni sem tengist fréttunum.

Það er mér ljúft og skylt að minnast á þátt Ottós Elíassonar, eðlisfræðinema og nýjasta penna Stjörnufræðivefsins. Hann prófarkales allt efni sem birtist á íslenska ESO vefnum.

Já og meðan ég man, við erum komnir með nýtt lógó.

- Sævar Helgi Bragason


Stormurinn í desember 2006

Ég bý svo vel að vinna hjá stjörnufræðingunum hér í háskólanum og má því til með að koma á framfæri línuriti af segulstorminum í desember 2006. Gunnlaugur Björnsson, stjarneðlisfræðingur, segulmælingamaður og yfirmaður minn, sendi mér línuritin í gær:

Hér undir er fyrst línuritið frá 14. desember 2006:

leirv_06348.png

Og svo frá 15. desember:

leirv_06349.png

Skoðum þá næst uppsprettu þessa segulstorms. Hér sést hvernig sólin leit út þann 13. desember:

midi512_blank_1015445.gif

Sólblossinn sem olli segulstorminum í desember 2006 mátti rekja til sólblettsins sem sést á myndinni hér fyrir ofan. Þessi blettur er á að giska tífalt stærri en jörðin að þvermáli. Sólbletturinn er virkt svæði á sólinni. Þar var segulsviðið sérstaklega sterkt og þegar orka þess losnaði úr læðingi varð þessi sólblossi til þann 13. desember:

eit_narrow.gif

Þetta er X3-blossi. Hann var miklu öflugri en sá sem olli nýliðnum segulstormi sem var C3-blossi. Útskýring á styrkleika blossanna er hér.

Næturnar á eftir prýddu falleg norðurljós himininn. Áreiðanlega eiga einhverjir íslenskir ljósmyndarar myndir af þeim. Gaman væri ef einhver fyndi þær í sínum fórum og deildi með okkur.

Já, stjarnan okkar er fjári mögnuð!

Minni svo í lokin á fyrri bloggfærslu um þá staðreynd að Mars verður EKKI jafn stór tunglinu í ágúst.

- Sævar


mbl.is Stærsti segulstormur frá 2006
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mars verður EKKI jafnstór og tunglið í ágúst!

Þessari færslu er aðallega ætlað að leiðrétta þann misskilning sem fer á kreik í tölvupósti á hverju einasta sumri um að Mars verði jafnstór og tunglið. Sem betur fer spyrja margir okkur út í þetta og við fáum tækifæri til þess að leiðrétta misskilninginn. Svo má maður ekki vera of neikvæður því svona „fréttir“ fá fólk til þess að hugsa upp á við til stjarnanna.

Í tölvupóstinum sem gengur á milli manna er því haldið fram að Mars komi svo nærri jörðu í ágúst að hann verði jafnstór og tunglið á himninum. Misskilningurinn á rætur sínar að rekja til frétta frá árinu 2003. Þar var talað um að Mars hefði ekki orðið stærri á himninum í um 60 þúsund ár (síðan árið 57.537 f. Kr.!) en það fór öllu minna fyrir þeirri staðreynd að hann yrði næst álíka stór eftir tæp 200 ár í ágúst árið 2287.

Þrátt fyrir að Mars kæmi óvenju nærri jörðinni árið 2003 og væri bjartasta stjarnan á næturhimninum, var tunglið okkar samt meira en 60 sinnum breiðara en rauða reikistjarnan og um 10.000 sinnum bjartara.

marsmoon030717a

Þessa mynd tók Jerry Xiaojin Zhu (myndasíða hans) af tunglinu og Mars þann 2. ágúst 2003, tæpum fjórum vikum áður en Mars komst næst jörðu (27. ágúst). ©Jerry Xiaojin Zhu  

Annað mikilvægt atriði í þessu samhengi er að Mars sést ekki að nóttu til frá Íslandi í ágúst 2010. Hann sést reyndar á kvöldin sunnar á hnettinum (t.d. frá Mexíkó) en er þar aðeins í 25. sæti yfir björtustu stjörnurnar á kvöldhimni sumarið 2010, enda má segja að hann sé hinum megin við sólina og lengra í burtu en hún.

Mars er tæplega tvö ár að fara einn hring umhverfis sólina. Hann sést því best frá jörðu annað hvert ár (þegar hann fer framhjá jörðinni á braut sinni um sólu). Þótt Mars sjáist ekki frá Íslandi í vetur mun hann sjást vel eftir eitt ár (veturinn 2011-2012).

Hvað ef...?

Það væri mjög áhugavert að velta fyrir sér hvað myndi gerast ef Mars kæmi það nærri jörðu að hann yrði jafnstór og tunglið. Þar sem Mars er um tvöfalt breiðari en tunglið þá þyrfti hann að vera tvisvar sinnum lengra frá jörðu til þess að virðast jafnstór og tunglið á himninum (u.þ.b. 800 þúsund km í burtu í stað þeirra 56 milljón km sem skildu reikistjörnurnar að í ágúst 2003).

Ef Mars kæmi svona nálægt í raun og veru myndi það hafa mikil áhrif, til dæmis á flóð og fjöru. Jafnframt væri hætt við að braut tunglsins okkar myndi raskast verulega og við jarðarbúar jafnvel missa það út í geim. Það yrði mikill missir fyrir okkur sem höfum áhuga á stjörnuskoðun!

Fleiri myndir af Mars og tunglinu

Hér eru fleiri myndir af tunglinu og Mars frá 2003:

MarsNearOccultation_20031007_0238_Gary_10in

Þessa mynd tók Gary Ayton (myndasíða hans) af því þegar Mars gekk á bak við tunglið þann 7. október 2003, u.þ.b. sex vikum eftir að Mars komst næst jörðu (27. ágúst). Smellið tvisvar sinnum á myndina til þess að fá hana upp í réttri stærð. ©Gary Ayton

mlw-mars-moon0812033

Þessa mynd tók Michael L. Weasner (myndasíða hans) af tunglinu og Mars þann 12. ágúst 2003, u.þ.b. tveimur vikum áður að Mars komst næst jörðu (27. ágúst). Myndavélin ýkir stærð Mars sem var mun minni í raun og veru. ©Michael L. Weasner

-Sverrir


Möguleiki á norðurljósum í kvöld

Nýlegar fréttir af segulstormum á sólinni hafa væntanlega ekki farið framhjá dyggum lesendum mbl.is og Stjörnufræðibloggsins. Það ánægjulega við þessar annars vafasömu fréttir er að þær vekja áhuga á stjörnufræði og stjörnuskoðun og beina athyglinni að áhrifum sólarinnar á gervitungl og norðurljósin.

Þrátt fyrir að sumarnæturnar séu ennþá frekar bjartar þá gætu sést norðurljós í kringum miðnætti í kvöld. Spá frá Jarðvísindastofnun Háskólans í Alaska hljóðar upp á meðalvirkni (sem sagt sæmilega öflugri) fyrir kvöldið í kvöld miðvikudaginn 4. ágúst 2010:

styrkur-nordurljosa-4-agust-2010

nordurljos-4-agust-2010 

Hér er síðan Skýjahuluspá fyrir miðnætti í kvöld (miðvikudaginn 4. ágúst), fengin kl. 12 á hádegi af vef Veðurstofu Íslands (byggir á líkani Dönsku veðurstofunnar). Það sama gildir um þessa skýjahuluspá eins og aðrar veðurspár að hún batnar eftir því sem nær dregur (hér getið þið séð nýjustu útgáfuna).

skyjahuluspa-midnaetti-4-agust-2010

Hér er loks mynd sem uppfærist sjálfkrafa og sýnir hvernig norðurljósavirkni breytist í rauntíma skv. upplýsingum frá NOAA POES gervitunglinu. Annars er hægt að lesa sér betur til um „geimveðrið“ og virkni sólar á Stjörnufræðivefnum.

Norðurljósavirkni í rauntíma


Sprengistjarna í þrívídd

heic0704a.jpgÞann 23. febrúar 1987 jók stjarna í Stóra-Magellanskýinu, rétt hjá Tarantúluþokunni, skyndilega birtu sína margfalt. Þetta var fyrsta sinn sem sprengistjarna sást með berum augum í 383 ár og jafnframt sú nálægasta, ekki í nema rétt rúmlega 160.000 ljósára fjarlægð. Stjarnan sprakk sem sagt 160.000 árum áður en við urðum vör við hana.

Vegna nálægðar sinnar skipar hún sérstakan sess í huga stjörnufræðinga. Hún gerði þeim kleift að rannsaka sprengistjörnur nánar en nokkru sinni fyrr. Sennilega hafa fáir atburðir reynst stjörnufræðingum jafn lærdómsríkir. Í sprengingunni mynduðust nær öll frumefni þyngri en járn, t.d. gull, sem dreifðust út í umhverfið í kring.

Í dag birtist frétt frá ESO, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, þar sem skýrt er frá nýjum athugunum á leifum sprengistjörnunnar. Niðurstöðurnar sýna að sprengingin var öflugri og hraðari í tiltekna stefnu svo sumir angar efnisskýsins teygja sig lengra út í geiminn en aðrir. 

Fyrsta efnið sem þeyttist út í geiminn af völdum sprengingarinnar ferðaðist á um 100 milljón km hraða á klukkustund, um tíunda hluta úr ljóshraða eða 100.000 sinnum hraðar en farþegaþota. Áður en stjarnan sprakk sendi hún frá sér mikið gas- og ryk. Fyrsta efnið sem stjarnan sendi frá sér var um 10 ár að ná til þessa gass og ryks. Myndirnar sýna aðra efnisbylgju, tífalt hægari, sem glóir vegna geislavirku efnanna sem mynduðust í sprengingunni.

eso1032a.jpg

Sýn listamanns á leifar sprengistjörnunnar 1987A. Eins og sjá má teygir sprengingin sig lengra út í aðra áttina. Mynd: ESO/L. Calçada.

Stjarnan sem sprakk var áður björt blá breytistjarna, svipaðs eðlis og stjarnan Eta Carinae í Kjalarþokunni sem kom við sögu í fyrri bloggfærslu. Sú stjarna mun dag einn springa. Hún er þegar á síðustu stigum ævi sinnar. Eta Carinae er sennilega í kringum 150 sólmassar, ein massamesta stjarna sem þekkist.

Ef ég ætti að veðja á hvaða stjörnu við sjáum springa næst myndi ég veðja á Eta Carinae

eso0817a.jpg

Mynd: ESO

Bjarta bláa breytistjarnan Eta Carinae er í þann mund að springa. Það gætu þó verið þúsundir ára þar til við sjáum hana springa. Bíðum spennt. Það verður töluvert meiri flugeldasýning en nýliðinn segulstormur.

- Sævar


Nánari upplýsingar um sólblossa

Vonandi sést í heiðan himinn einhvers staðar á landinu þessa stundina og eitthvað fram eftir nóttu. Það er áreiðanlega hægt að sjá fallega norðurljósasýningu. Ef einhver er svo heppin(n) að sjá eitthvað, látið þá endilega vita hvort þetta er ekki óhemju fallegt.

Mig langar einungis til að vísa á fyrri umfjöllun okkar um þetta sólgos hér og benda áhugasömum á ítarefni um sólin, sólblossa og kórónuskvettur.

Minni svo áhugasama á að á Menningarnótt munum við, ef veður leyfir, bjóða gestum og gangandi að skoða sólina með sérstökum sólarsjónaukum. Þessir sjónaukar sýna vel virku svæðin á sólinni og jafnvel fleiri fyrirbæri sem sýna glögglega hversu virk sólin er. Við verðum fyrir framan styttuna af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli eftir hádegi 21. ágúst næstkomandi.


mbl.is Segulstormur skollinn á
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþarfa áhyggjur

c3events_strip.jpgÍ stuttu máli er ekkert að fara að gerast annað en að von er á fallegri norðurljósasýningu. 

Öflugustu sprengingarnar á sólinni nefnast kórónuskvettur. Þegar þær stærstu eiga sér stað getur það valdið truflunum á samgöngum og slegið út gervihnetti. 

Blossinn sem hér um ræðir var af C-gerð sem þýðir að hann er í meðallagi. Orkuríkustu blossarnir eru af X-gerð. Einn slíkur átti sér stað í nóvember 2003 og sjá má mynd af honum hér.

Engin ástæða er til að hafa áhyggjur af blossanum sem fjallað er um í fréttinni. Hann er ekki nálægt því að vera nógu öflugur til að valda nokkrum skakkaföllum svo fólk getur sofið rótt. Ég mæli samt með því að fólk kynni sér þetta efni betur til að sjá í gegnum æsifréttir af þessu tagi í slóðunum hér undir. Það er óskaplega fallegt og tignarlegt að sjá stjörnuna okkar birsta sig svona.

Að lokum langar mig að vísa svo á alveg magnað myndskeið frá SDO af sólinni og blossanum (gæti tekið smá tíma að hlaðast inn).

Sólin er alveg ótrúlega dýnamísk og mögnuð.

Viðbót 3. ágúst. Hér er hægt að fylgjast með segulmælinum í Leirvogi sem mælir styrk segulsviðsins. Þegar svona atburðir verða sjáum við frávik í línuritinu, stundum mjög mikil eins og t.d. frá því í desember 2006 þegar nokkuð öflugur segulstormur varð.

Viðbót 3. ágúst kl. 21:50. Það eru greinilega fín norðurljós yfir landinu núna ef marka má þessa mynd sem sýnir norðurljósakragann. Myndin uppfærist í rauntíma og ef kraginn er eldrauður er góð virkni í norðurljósunum. Vinur okkar Ágúst H. Bjarnason hefur líka sett upp flott blogg þar sem hann gerir þessu góð skil.

pmapN

- Sævar


mbl.is Varað við öflugu sólgosi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frétt um líf á Mars á Vísir.is

Á vef Vísir.is er nú eftirfarandi frétt

visiris_lif_a_mars.jpg

Upphaflega fréttin er sennilega héðan

Þessi frétt er heldur snubbótt. Hér er fullyrt að líf hafi fundist á Mars sem er vægast sagt orðum aukið. Menn hafa fundið fjölda staða sem gætu hafa verið lífvænlegir í fyrndinni þegar fljótandi vatn var á Mars og lofthjúpurinn hlýrri og þykkari. Menn hafa ekki fundið neinar óyggjandi sannanir um líf á Mars, enn sem komið er.

Hér er líka talað um "dökku hlið Mars". Eitthvað er fréttamaður að rugla þarna. Sólarhringurinn á Mars er aðeins 40 mínútum lengri en á jörðinni svo allir hlutar Mars njóta sólarinnar örlítið lengur en jörðin. Það er ekki til neitt sem heitir "dökka hlið Mars". 

Svæðið sem fréttin vísar til heitir Nili Fossae. Þar fundust fyrir nokkrum árum merki um leir og karbónöt á yfirborðinu. Var það gert með litrófsgreiningu. Efni sem draga í sig ljós gefa frá sér innrauða geislun. Þess vegna er yfirleitt alltaf innrauður-litrófsgreinir um borð í geimförum sem send eru til reikistjarnanna. Í litrófi mismunandi efna eru litrófslínur sem einkenna efnin, nokkurn veginn eins og fingraför. Þess vegna vitum við að á Nili Fossae eru karbónöt.

192041main_pia10070-516.jpg 

Mynd Mars Reconnaissance Orbiter af Nili Fossae. 

En hvers vegna eru karbónöt mikilvæg? Á jörðinni eru lífrænar leifar karbónöt, t.d. kalklög. Skeljar lindýra og kóralla eru oft úr kalsíti, sem er karbónat. Almennt er talið að tilvist karbónata í bergi séu merki þess að þeir hafi komist í snertingu við fljótandi vatn. 

Það að á sama stað finnist leir eru býsna sterk merki um að þar hafi eitt sinn verið fljótandi vatn. En hvort líf hafi leynst þar er ótímabært að fullyrða um. Hvað sem því líður er þetta mjög spennandi staður til að kanna nánar.

- Sævar 


Skær stjarna í litríku umhverfi

Ný og glæsileg ljósmynd úr Wide Field Imager myndavél ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile sýnir stjörnuna WR 22 og litríkt umhverfi hennar. WR 22 er mjög heit og björt en óvenjuleg stjarna sem þeytir frá sér efni út í geiminn mörgum milljón sinnum hraðar en sólin okkar. Stjarnan er í útjaðri Kjalarþokunnar, þar sem hún myndaðist.

eso1031a_1013103.jpg
Mjög massamiklar stjörnur lifa hratt og deyja ungar. Frá sumum berst svo sterk geislun gegnum þykka lofthjúpa þeirra, að seint á æviskeiði sínu þeyta þær frá sér efni út í geiminn, mörgum milljón sinnum hraðar en stjörnur eins og sólin okkar sem eru hæglátar í samanburðinum. Þessar sjaldgæfu, mjög heitu og massamiklu stjörnur nefnast Wolf-Rayet stjörnur, eftir tveimur frönskum stjörnufræðingum sem fyrstir manna báru kennsl á þær um miðja nítjándu öld. WR 22 er ein massamesta Wolf-Rayet stjarna sem þekkt er. Hún er fyrir miðju ljósmyndarinnar sem tekin var í gegnum rauða, bláa og græna litsíu Wide Field Imager myndavélar með hjálp 2,2 metra MPG/ESO sjónaukans í stjörnustöð ESO á La Silla í Chile. WR 22 er hluti af tvístirnakerfi og er að minnsta kosti 70 sinnum massameiri en sólin.


WR 22 er í Kjalarmerkinu sem nefnt er eftir kili fleysins Argó sem Jason sigldi í einni grískri goðsögn. Stjarnan er í yfir 5.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni en er svo björt að hana má greina með berum augum við góðar aðstæður. Hún er ein bjartasta stjarnan í Kjalarþokunni (NGC 3372) glæsilegu. Þetta risavaxna stjörnumyndunarsvæði er litríkur bakgrunnur myndarinnar.

Litadýrðina má rekja til orkuríkrar útfjólublárrar geislunar, sem heitar og massamiklar stjörnur á borð við WR 22 gefa frá sér. Geislunin rafar risastór vetnisskýin sem stjörnurnar mynduðust úr. Á þessu svæði er meðal annars risastjarnan Eta Carinae.

eso1031b.jpg

- Sævar


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband