Færsluflokkur: Vísindi og fræði
3.11.2009 | 10:47
Magnað - myndir
Nú ætla ég að beita Vísir.is - Myndir aðferðinni til að draga fólk hingað inn og hafa titil þessarar færslu í samræmi við það.
Í gær flaug Cassini geimfarið framhjá Enkeladusi, fylgitungli Satúrnusar. Enkeladus er fremur lítið tungl, ekki ósvipað Íslandi að stærð, en alveg einstaklega heillandi. Á suðurpóli tunglsins eru sprungusvæði þaðan sem vatn gýs út úr tunglinu og út í geiminn. Við það kristallast vatnið og myndar einn af hringum Satúrnusar, E-hringinn.
Þegar Cassini farið nálgaðist Enkeladus í gær, tók það þessa mögnuðu mynd, sem ég fékk að láni frá Juramike á UnmannedSpaceflight.com:
Þetta er augljóslega hnöttur með heillandi jarðsögu. Ég get ekki annað en velt fyrir mér hvernig í ósköpunum þessar hrukkur á yfirborðinu hafa orðið til? Hér leikur ís sama hlutverk og berg á yfirborði jarðar. Ísinn færist til og frá, líkt og flekarnir á jörðinni.
Það er eiginlega alveg ótrúlegt að hugsa til þess að við getum skoðað myndir frá hnöttum í órafjarlægð, nánast í rauntíma.
Fleiri myndir í stærri upplausn má nálgast hér.
Alheimurinn er magnaður staður.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
31.10.2009 | 21:19
Ógnarstærð stjarnanna
Sólin er langstærsti hnötturinn í sólkerfinu og hefur að geyma um 99,9% massa þess. Í huga okkar er sólin sannkallaður risi og máttarstólpi alls lífs. En hversu stór er Sólin miðað við aðrar systur hennar? Þetta myndband sýnir innbyrðis stærðarhlutföll ýmissa stjarna (og reikistjarna). Myndbandið talar fyrir sig sjálft en sýnir vel hversu ægileg skrímsli stjörnur geta orðið. Sólin er sandkorn við hliðina á þeim!
Þess ber þó að geta að stjörnur á borð við sólina eru mun algengari. Því stærri sem stjörnur verða, þeim mun sjaldgæfari eru þær. Stjörnunum Rígel og Betelgás bregður fyrir í myndbandinu en það eru tvær björtustu stjörnurnar í stjörnumerkinu Óríon (á mynd: Betelgás uppi vinsta megin, Rígel niðri hægra megin). Rígel er gríðarheit blá stjarna u.þ.b. 80 sinnum stærri en sólin. Betelgás er svokallaður rauður risi að enda æviskeið sitt. u.þ.b. 940 sinnum stærri en sólin. Í Óríon er gullfalleg stjörnuþoka, Sverðþokan, sem allir ættu að skoða með stjörnusjónauka.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
31.10.2009 | 18:08
Íslenskt stjörnukort fyrir nóvember
Við höfum sett upp stjörnukort sem sýnir næturhimininn yfir Íslandi á milli kl. níu og tíu á kvöldin í nóvember (á íslensku að sjálfsögðu!). Á kortinu má finna reikistjörnurnar sem sjást á kvöldin, stjörnumerkin og áhugaverð fyrirbæri. Þessu til viðbótar fylgir leiðarvísir um stjörnuhimininn fyrir byrjendur í stjörnuskoðun.
Hér er stjörnukortið ásamt leiðarvísi á Stjörnufræðivefnum
Margt er að sjá á næturhimninum í nóvember á alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar. Hátt á himni er lítið en bjart stjörnumerki sem nefnist Kassíópeia. Það er auðþekkt á því að skærustu stjörnurnar raðast upp í mynstur sem lítur út eins og bókstafurinn W.
Sjöstirnið sést á austurhimni en það er án nokkurs vafa auðþekktasta stjörnuþyrpingin á næturhimninum. Það er stórt og bjart og lítur út eins og glitrandi stjörnuský. Með berum augum má sjá um 6-8 stjörnur en í handsjónauka og stjörnusjónauka koma í ljós margfalt fleiri stjörnur í þyrpingunni.
Þegar líður á kvöldið rís stjörnumerkið Óríon upp á næturhimininn. Óríon var veiðimaður í grískum goðsögum og er auðþekktur á þremur björtum stjörnum í belti hans sem oft eru nefndar Fjósakonurnar. Fyrir neðan Fjósakonurnar er sverð Óríons. Í miðju þess er Sverðþokan sem sést með berum augum og er auðvelt að skoða í handsjónauka eða stjörnusjónauka.
30.10.2009 | 10:32
Hvað gerist þegar vetrarbrautir rekast saman?
Einhverjar mestu hamfarir náttúrunnar verða eftir rúma þrjá milljarða ára, þegar Vetrarbrautin okkar rekst á Andrómeduvetrarbrautina.
Eða ekki. Það gerist nefnilega ósköp fátt þegar vetrarbrautir rekast saman. Stjörnurnar stíga dans sem þyngdarkrafturinn stjórnar. Engar stjörnur rekast á. Það verður aftur hrina stjörnumyndunar þegar gasið og rykið í báðum vetrarbrautunum rekst saman. Séð utanfrá verður þetta mikið sjónarspil í nokkra milljarða ára.
Ég rakst á þetta flotta myndskeið á vef hins innrauða Spitzer geimsjónauka. Þetta er mjög skemmtilegt myndskeið og fróðlegt. Ekki skemmir fyrir hvað leikkonan, Felicia Day, er sæt. Þetta kveikir alla vega í nördi eins og mér.
Sætar stelpur að tala um vísindi og sexý viðfangsefni eins og árekstur vetrarbrauta. Það gerist einfaldlega ekki betra.
28.10.2009 | 09:19
Málstofa um Galíleó Galilei
Málstofa um Galíleó Galilei verður haldin í Þjóðminjasafninu laugardaginn 31. október kl. 13. Málstofan er haldin í tengslum við árlega viku ítölskunnar sem er haldin víða um heim. Þar mun yours truly segja frá Galíleósjónaukanum og þátttöku Íslands í Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009.
Í ár eru 400 ár liðin frá því að Galíleó Galilei gerði merkar uppgötvanir á sviði stjörnufræði en árið 1609 frétti Galíleó af furðulegu ljósfræðitæki í Hollandi, og skömmu síðar tókst honum að smíða sjónauka.
Fyrirlestrar verða fluttir á ensku. Dagskrána er að finna hér.
----
Í Vísindaþætti gærdagsins kom Ari Trausti Guðmundsson í heimsókn. Við ræddum vítt og breitt við hann um vísindamiðlun og þættina hans um nýsköpun og íslensk vísindi sem sýndir eru í Ríkissjónvarpinu.
Hægt er að hlusta á þáttinn hér.
Þess má geta að Ari mun halda fyrirlestur í kvöld (miðvikudagskvöld) um vísindamiðlun á vegum Vísindafélags Íslands. Fyrirlesturinn hefst klukkan 20 og fer fram í Norræna húsinu. Sjá nánar tilkynningu hér.
26.10.2009 | 23:07
Reyndumst hafa rétt fyrir okkur
Við blogguðum við fyrri fréttina í dag og lýstum yfir efasemdum varðandi gíginn. Reyndar kom í ljós stuttu seinna að um gabb var að ræða. Nokkur atriði fengu okkur til að efast stórlega um að um loftsteinagíg væri að ræða:
- Engar efnisskvettur út frá gígnum.
- Logandi hlutur á botni gígsins. Loftsteinar eru ekki heitir þegar þeir falla til jarðar.
Við höfðum gaman af umfjöllun kvöldfrétta Ríkissjónvarpsins um þetta. Það var auðheyrt að fréttamennirnir lásu bloggið okkar því í fréttinni var sagt frá þessum tilteknu atriðum sem fengu okkur til að efast. Það er gleðiefni.
Það er líka gleðiefni að Mbl.is hafi birt aðra frétt sem skýrir frá gabbinu. Það gerist nefnilega ekki alltaf. Vísir.is hafa t.d. ekki birt frétt þess efnis. Hrós til mbl.is. **Uppfært** Eins og Arnar bendir á í athugasemdum hefur Vísir.is nú líka birt frétt þar sem fjallað er um gabbið. Hrós til þeirra líka.
Loftsteinar eru annars afar áhugaverð fyrirbæri. Loftsteinar geyma nefnilega upplýsingar um þær aðstæður sem ríktu við myndun sólkerfisins.
Lesa má nánar um loftsteina á Stjörnufræðivefnum.
![]() |
Gígur í Lettlandi var gabb |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 27.10.2009 kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
26.10.2009 | 13:15
Loftsteinn?
**Uppfært kl. 14:50** Eins og Stefán Ingason bendir á í athugasemd hér fyrir neðan segja sérfræðingar í Lettlandi að um gabb sé að ræða. Það fór þá eins og ég átti von á. Fann svo þessa frétt Associated Press um gabbið.
Þegar ég skoða myndirnar af þessu, er ég fullur efasemda um að þarna hafi verið um loftstein að ræða. Í fyrsta lagi sjást engar efnisskvettur frá gígnum, eins og sjá má á þessari mynd. Efnið sem var í gígnum hefði átt að þeytast burt frá honum, líkt og við sjáum í ferskum nýmynduðum gígum á tunglinu eða Mars til dæmis. Þess í stað hefur það bara hlaðist upp á brúnina.
Að eitthvað hafi brunnið á botni gígsins er mjög sérkennilegt. Það er nefnilega algengur misskilningur að loftsteinar séu heitir, hvað þá logandi, þegar þeir falla til jarðar, eins og lesa má um hér. Grípum niður í greininni þar sem segir:
Ofurheitt loftið fyrir framan steininn, snertir hann í raun ekki þegar steinninn ferðast í gegnum lofthjúpinn. Hröð hreyfing loftsteinsins myndar höggbylgju í loftinu, líkt og hljóðfrá flugvél gerir þegar hún klýfur hljóðmúrinn. Höggbylgjan fyrir framan loftsteininn er þannig nokkra sentímetra frá honum.
Yfirborð loftsteinsins bráðnar vegna hita samanþjappaða gassins fyrir framan hann, og loftið sem streymir um hann blæs bráðinni utan af steininum, það er hann gufar upp. Orkan til að hita steinninn verður að koma einhvers staðar frá og því hægist á steininum eftir því sem meira af hreyfiorku hans breytist í ljós og varma. Hrapsteinninn fellur þannig einungis til jarðar á nokkur hundruð kílómetra hraða á klukkustund.
Þegar þarna er komið við sögu er hrapsteinninn enn frekar hátt í lofthjúpnum og það tekur hann nokkrar mínútur að falla til jarðar. Steinninn er búinn að vera lengi í lofttæmi geimsins og því er kjarni hans mjög kaldur. Þeir hlutar sem hitnuðu mest á ferðinni um lofthjúpinn hafa bráðnað og þeyst í burtu en einnig er loftið hátt í lofthjúpnum mjög kalt og hitar því ekki steininn. Loftsteinar sem ná til jarðar eru því ekki mjög heitir heldur allt frá því að vera volgir og niður í það að vera mjög kaldir (þaktir hélu).
En við bíðum bara spennt eftir því hvað kemur í ljós. Hér er ég einungis að túlka það sem ég hef séð og lesið. Kannski hef ég kolrangt fyrir mér. Kannski var þetta loftsteinn, en þá er þetta mjög sérkennilegur gígur ef svo er. Steinn sem myndar svona stóran gíg þarf að vera um eins metra breiður. Og þá er ættu líka að vera talsverðar efnisskvettur langt út frá gígnum og jafnvel brot úr honum. Að minnsta kosti er útilokað að steinninn hafi brunnið á botni gígsins.
Og aðeins til að bæta við fréttina. Stærsti steinninn sem fundist hefur á jörðinni er Hoba steinninn í Namibíu. Hann var úr málmum, aðallega járni og nikkel, og sjá má mynd af honum hér.
![]() |
Loftsteinn féll til jarðar í Lettlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.10.2009 | 22:51
Baráttan fyrir bættri lýsingu heldur áfram
Baráttan fyrir bættri lýsingu hérna í Edmonton er loksins að skila árangri! Þau Bruce og Sherriliyn sem ég vann með í stjörnustöðinni í sumar fengu um daginn tækifæri til þess að hitta borgarstjórnirnar í Edmonton og Sherwood Park (sem er grannborg Edmonton). Málflutningur fjallaði lítið um stjörnuhimininn en þeim mun meira um þann sparnað sem má ná fram með bættri lýsingu. Þau náðu þeim árangri að í framtíðinni verður sérstaklega haft í huga að vanda frágang lýsingar á nýjum byggingarsvæðum og þegar gömlum búnaði er skipt út fyrir nýjan.
Áætlað hefur verið að um 30% af orkunni sem fer til götulýsingar í Bandaríkjunum berist upp í næturhimininn. Slakur frágangur á götulýsingu hér í Edmonton bendir til þess að hlutfallið sé síst lægra en sunnan megin landamæranna. Það er því til mikils að vinna! Sem fyrr þá hef ég ekki sambærilegar tölur fyrir Reykjavík en myndir Grétars Arnar Ómarssonar frá borgarmyrkvanum í Reykjavík haustið 2006 segja þó sína sögu um orkusóunina sem viðgengst á höfuðborgarsvæðinu:
Samsett ljósmynd af Reykjavík á meðan á borgarmyrkvanum stóð 28. september 2006. Megnið af birtunni sem berst til himins er frá iðnaðar- og verslunarhúsnæði. Ljósmynd: Grétar Örn Ómarsson (Hér er slóð á myndasíðu Grétars hjá Stjörnuskoðunarfélaginu)
Samsett ljósmynd af Reykjavík eftir að kveikt hafði verið á götulýsingunni. Ljósmynd: Grétar Örn Ómarsson (Hér er slóð á myndasíðu Grétars hjá Stjörnuskoðunarfélaginu)
Það er eitt sem þau hafa hérna í Edmonton sem við höfum ekki á Íslandi (ekki enn að minnsta kosti) en það er griðasvæði fyrir náttmyrkur (e. dark sky preserve) sem sett hefur verið á fót í Elk Island þjóðgarðinum í nágrenni við Edmonton. Ég hef áður á þessu bloggi sagt frá stjörnuteiti sem er haldið árlega í garðinum til þess að fagna stofnun griðasvæðisins árið 2006. Nú hefur verið sótt um að Elk Island þjóðgarðurinn verði alþjóðlegt griðasvæði fyrir náttmyrkur (e. international dark sky reserve) þar sem fylgt er ströngum stöðlum frá Alþjóðasamtökum um náttmyrkur (International Dark Sky Association - IDA). Að þessu tilefni kom framkvæmdastjóri IDA, Peter Strasser, til Edmonton í afmælisfögnuðinn. Hann flutti þar fyrirlestur um hvernig megi ganga betur frá lýsingu og spara þannig rafmagn, bæta öryggi, minnka röskun fyrir lífríkið og endurheimta næturhimininn. Daginn áður flutti hann tvo fyrirlestra fyrir borgarstjórnina í Sherwood Park sem á land að garðinum og var gerður góður rómur að þeim. Það tekur sinn tíma að breyta viðhorfi fólks til lýsingar en hann gerði sitt til þess að sannfæra áheyrendur um að sterk lýsing sé ekki það sama og góð lýsing! Ég mun fjalla betur um þetta mikilvæga atriði við tækifæri.
Peter Strasser flytur fyrirlestur um ljósmengun fyrir borgarstjórnina í Sherwood Park. Ljósmynd: Sverrir Guðmundsson
Það er von mín að í náinni framtíð verði hægt að setja upp verndarsvæði fyrir náttmyrkur í Krísuvík þar sem eru bestu skilyrði til stjörnuskoðunar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness hefur uppi áform um að reisa stjörnustöð í Krísuvík og hefur fengið vilyrði fyrir lóð við Grænavatn. Það er eitt af verkefnum næstu missera að sannfæra bæjaryfirvöld í Hafnarfirði og nágrannasveitarfélögunum Grindavík og Ölfusi um nauðsyn þess að vernda þessa gersemi í túnfætinum. Ef menn sofna á verðinum gæti verið búið að setja upp flóðlýsingu í kringum orkuver á svæðinu eða lýsingu við þjóðvegina sem rýra gildi svæðisins til stjörnuskoðunar.
Kort af ljósmengun á suðvesturhorninu byggt á gögnum úr Google Earth forritinu. Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness áformar að reisa stjörnustöð í Krísuvík. Þar er ljósmengun í lágmarki og óskert útsýni til suðurs. Mynd: Adam Thor Murtomaa
Ég held að það sé við hæfi að enda þessa bloggfærslu á mynd frá Grétari Erni Ómarssyni af stjörnuhimninum í Krísuvík. Vil einnig hvetja lesendur til þess að fara þangað á fallegu vetrarkvöldi og njóta náttúrufegurðarinnar. Við förum reglulega þangað í stjörnuskoðunarferðir og oft er sagt frá þeim á spjallsvæði Stjörnuskoðunarfélagsins: korkur.astro.is. Það er því um að gera að kíkja þangað ef veðurútlit er gott fyrir helgina!
Mynd af stjörnumerkjum á næturhimninum yfir Krísuvík. Stjarnan Vega í Hörpunni er bjarta stjarnan á efri hluta myndarinnar. Neðst á myndinni sést í samstirni sem nefnist Herðatréð. Ljósmynd: Grétar Örn Ómarsson (Hér er slóð á myndasíðu Grétars hjá Stjörnuskoðunarfélaginu)
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2009 | 16:32
Í hvaða stjörnumerki ert þú?
Í hvaða stjörnumerki ert þú? Af einhverjum ástæðum vita allir hvaða stjörnumerki þeir "tilheyra". Ég er ekki viss um að jafnmargir geti fundið stjörnumerkið "sitt" á næturhimninum, en það er önnur og sorglegri saga. Samt trúa margir að stjörnumerkin hafi áhrif á líf þeirra.
Himinhvelfingunni er skipt í 88 einingar sem við köllum stjörnumerki. Af þeim sjást 56 að hluta eða í heild frá Íslandi.
Á himninum reikar sólin og reikistjörnunar í gegnum þrettán stjörnumerki og mynda tólf þeirra dýrahringinn.
Taflan er fengin héðan. Ef þú vilt setja hana á bloggið þitt, eða eitthvert annað, vinsamlegast gefðu upp hvaðan hún er og hafðu tengil með.
Skoðaðu töfluna vel. Það er líklegt að þú sért í allt öðru merki en þú hélst. Og konan þín eða maðurinn þinn. Ég vona að þú hafir ekki valið maka út frá stjörnumerkjunum. Ég vona líka að þú hafir ekki húðflúrað stjörnumerkið "þitt" á líkamann. Ef þú tilheyrir þrettánda merki dýrahringsins, Naðurvalda, áttu enga stjörnuspá!
Eins og sést hér að ofan er sólin mislengi í stjörnumerkjunum þrettán. Það væri nú nokkuð sérkennileg tilviljun ef sólin væri nákvæmlega mánuð í hverju þeirra og færði sig alltaf á milli á miðnætti.
Frá þeim tíma þegar stjörnuspekikerfið var í mótun fyrir nokkur þúsund árum var það miklu nær raunverulegum dagsetningum en nú er. Það er pólvelta jarðar sem veldur því að staðsetning sólar á himninum hefur færst um u.þ.b. mánuð frá þeim tíma. Stjörnuspekingar ættu samt ekki að örvænta þar sem sveiflan vegna pólveltunnar tekur um 26.000 ár. Dýrahringurinn kemst því aftur nálægt því að passa eftir rúmlega 20.000 ár (ef litið er framhjá því að sólin dvelur mislangan tíma í merkjunum!).
p.s. Eina marktæka stjörnuspáin er auðvitað stjörnuspá Lauksins. Hún er snilld og á alveg ótrúlega vel við mig... og þig... og reyndar bara alla eins og allar hinar stjörnuspárnar.
Vísindi og fræði | Breytt 25.10.2009 kl. 04:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.10.2009 | 21:50
Galíleónætur og steingervingar
Á fimmtudaginn hefjast Galíleónætur. Að því tilefni munu hundruð þúsundir manna um heim allan horfa til himins með stjörnusjónauka og skoða það sem Galíleó Galílei sá í fyrsta sinn fyrir 400 árum.
Galíleónætur er eitt mikilvægasta verkefni alþjóðlegs árs stjörnufræðinnar 2009. Það stendur til laugardagsins 24. október og er tilgangurinn að gefa sem flestum kost á að kíkja í gegnum sjónauka á það sem Galíleó sá fyrir 400 árum. Yfir 800 viðburðir í rúmlega 50 löndum hafa verið skipulagðir.
Hér á Íslandi er Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness þátttakandi í Galíleónóttum. Áhersla er lögð á stjörnuskoðun og verður opið hús í Valhúsaskóla af þessu tilefni. Ef veður leyfir býðst þér og þínum tækifæri til að kíkja í gegnum stærsta stjörnusjónauka landsins.
Dagskrá Galíleónátta er að finna hér.
----
Í Vísindaþættinum var fjallað um steingervinga og þróun lífsins. Þetta var mjög skemmtilegt spjall og ég vildi óska þess að við hefðum haft meiri tíma, þetta er svo óskaplega áhugavert efni. Gestur þáttarins var Ólafur Ingólfsson, prófessor í jarðfræði við HÍ, en hann mun halda fyrirlestur ásamt Ingibjörgu Svölu Jónsdóttur, konu sinni og prófessor í vistfræði við HÍ, um þetta efni næstkomandi laugardag. Fyrirlestur þeirra hjónakorna hefst klukkan 13:00 í stofu 132 í Ösku, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.
Ég hvet alla til að mæta því bæði er Ólafur skemmtilegur fyrirlesari og svo er viðfangsefnið alveg ótrúlega heillandi. Ég hef aldrei setið fyrirlestur hjá Ingibjörgu en ég hef enga trú á öðru en að hún sé líka góður fyrirlesari.
Já, svo úthúðuðum við sköpunarsinnum... sem er náttúrulega allt í besta lagi.
Viðtalið við Ólaf er að finna hér.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)