Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Stjörnufræðiferð út fyrir Edmonton (og seinna meir á Íslandi!)

Var að koma úr stjörnufræðiferð sem stóð frá seinnipartinum á föstudag fram til hádegis á sunnudegi. Það var Edmonton deild RASC (Konunglega kanadíska stjörnufræðifélagsins) sem stóð fyrir viðburðinum sem nefnist George Moore's workshop og hefur verið haldin árlega síðustu 25 ár. Þau leigðu sumarbúðir við Pigeon Lake þar sem þátttakendur gistu báðar næturnar.

Ég hef aldrei tekið þátt í svona ferð áður svo þetta var algerlega ný lífsreynsla fyrir mig. Ég var orðinn gríðarlega spenntur á fimmudagskvöldið, daginn fyrir ferðina, og komst að þeirri niðurstöðu að Stjörnuskoðunarfélagið yrði að standa fyrir ferð af þessu tagi næsta vetur! Var í símasambandi við formann Stjörnuskoðunarfélagsins (Sævar) sem var algerlega sammála! Ef fleiri félagsmenn eru til í þetta þá höfum við eitt ár eða rúmlega það til þess að undirbúa svona stjörnufræðihelgi á Íslandi fyrir félagsmenn og alla sem hafa áhuga. Ég tók slatta af myndum sem ég set inn á myndasvæði Stjörnuskoðunarfélagsins þegar ég hef tíma (væntanlega eftir að ég kem heim til Íslands). Auk þess spjallaði ég við nokkra félagsmenn sem hafa tekið þátt í þessu áður og komið nálægt skipulagningunni. Er kominn með fullt af punktum sem munu vonandi gagnast okkur við skipulagningu á svipuðum viðburði á Íslandi.

Tilbúinn í stjörnuteitið!

Fólk var beðið um að slökkva á bílljósum eða dempa þau til þess að spilla ekki aðlögun augna stjörnuskoðara í stjörnuteitunum. Þessi er algerlega til fyrirmyndar!

Dagskráin var blanda af stjörnuskoðun og fyrirlestrum. Spáin var ekki góð en við vorum heppin og fengum heiðan himinn á föstudagskvöldið (rigning í gær). Staðurinn þar sem smiðjan var er í um 60-90 mín. akstursfjarlægð frá borginni og himinninn er þar þokkalega dimmur (birtumark yfir +5,67 þótt stjörnuskyggni væri slæmt vegna veðurkerfa sem voru að ganga yfir - held að himinninn sé vanalega mun betri). Þrátt fyrir að við værum í um 100 km fjarlægð frá borginni þá læddist ljósmengunin upp á himininn í norðaustri.

Stjörnuskoðunin á föstudaginn var hreint út sagt frábær! Fáeinir 10-13 tommu sjónaukar og nokkrir minni til viðbótar. Það var mjög gaman að skoða Kúluþyrpinguna miklu í Herkúlesi (M13), Dymbilþokuna (M27), Tvíklasann (Double Cluster) í Perseifi og vetrarbrautirnar M81 og M82 í Stórabirni. Þarna voru bæði stjörnuskoðendur með áratuga reynslu og byrjendur sem var mjög skemmtileg blanda. Einn þátttakenda var að sjá þessi fyrirbæri í fyrsta skipti en þeir sem reyndastir voru notuðu tímann til þess að eltast við daufar hringþokur (+15). Ég náði ekki að sjá allt sem þeir höfðu upp á að bjóða en með tímanum mun ég vonandi öðlast reynslu í því að sjá daufar þokur.

Í gærdag voru fyrirlestrar eftir hádegi (gert ráð fyrir að fólk gæti sofið aðeins fram eftir stjörnuskoðunina daginn áður). Aðalfyrirlesarinn, Stephen James O'Meara, var ekki af verra taginu en hann hefur skrifað reglulega pistla í Sky&Telescope og Astronomy um árabil. Einhverjir ættu að kannast við kappann sem hefur sent frá sér margar bækur um stjörnufræði, sögu stjörnufræðinnar og er einnig þekktur fyrir athuganir sínar á eldfjöllum. Hann býr á Stóru eyjunni í Hawaii eyjaklasanum sem er náttúrlega paradís á jörð fyrir stjörnuskoðara og áhugamenn um jarðfræði!

Fyrirlestrurinn hjá Stephen fjallaði um nornaveiðar og galdrabrennur á 17. öld og hvernig þær tengdust halastjörnum sem voru boðberar skrattans (skv. kenningum þess tíma áttu þær uppruna sinn í öskumekkinum frá eldgosum sem voru smá sýnishorn af glóðum vítis). Hann tengdi nornafárið á 17. öld á fimlegan hátt við þá hjátrú sem nú tíðkast m.a. í tengslum við heimsendaspárnar fyrir árið 2012.

Stephen er einstaklega mikill ljúflingur. Hann var hérna alla ferðina og gaf sér tíma til þess að spjalla við alla á svæðinu. Ég hafði (eins og alltaf!) það m.a. mér til ágætis að vera frá Íslandi og fékk því ýmsar spurningar frá honum og fleirum um aðstæður og hvernig við stundum stjörnuskoðun heima á Fróni. Hann var mjög forvitinn um það hvort ég væri að fylgjast með fyrirbærum í lofthjúpnum og yfir hafinu að degi til og við sólsetur. Ég er alltaf á vaktinni og kíki reglulega upp í himininn, sérstaklega fyrir sólsetur. Mun í framhaldinu fylgjast enn betur með og leita eftir grænum blossum og þess háttar þegar sólin gengur til viðar. Stephen er alltaf opinn fyrir því að heyra um athuganir fólks um allan heim og gefur upp netfangið sitt undir föstum dálki í Astronomy tímaritinu.

Annað dæmi um jákvætt viðmót Stephens var þegar hann gekk á milli fólks í stjörnuteitinu til þess að spjalla. Hann reyndi sitt ítrasta til þess að sýna mér þoku sem nefnist Norður-Ameríkuþokan í stjörnumerkinu Svaninum. Ég skannaði yfir svæðið en var ekki um að ég sæi hana því ég hafði ekki hugmynd um hvernig hún liti út í sjónauka (á myndum lítur hún út eins og Norður-Ameríka!). Loksins tókst reyndum stjörnufræðigarpi við hliðina á okkur að sýna mér hana.

Það voru ýmis fyrirbæri til viðbótar sem ég sá í fyrsta sinn. Það sem ég átti ekki von á var þegar einhver benti mér á nokkra gervihnetti í sjónauka. Ólíkt gervihnöttunum sem sveima yfir Íslandi á pólbrautum þá héldu þessir sig á sama svæði. Þeir eru nefnilega á staðbrautum sem þýðir að þeir eru alltaf yfir sama svæði á jörðinni (til dæmis hnettir sem taka veðurmyndir af N-Ameríku)! Stórmerkilegt að sjá þessa gervihnetti sem eru of sunnarlega á himinhvelfingunni til þess að sjást frá Íslandi.

Kvöldstund með Stephen James O'Meara

Kvöldstund í gærkvöldi með Stephen James O'Meara (í ljósgráu peysunni).

Í lokin þá ætlaði ég að afhenda honum stjörnukortið sem ég útbý fyrir hvern mánuð og sýnir himininn yfir Íslandi. Ég fann það ekki en sýndi honum það í staðinn í tölvunni. Ætla að senda honum það í tölvupósti ásamt smá umfjöllun um stjörnuskoðun á Íslandi. Ég verð með fyrirlestur annað kvöld sem nefnist „64° N - An Astronomical Journey“ á fundi Edmontondeildar RASC í stjörnuverinu á vísindasafninu. Sendi honum e.t.v. glærurnar úr þeim fyrirlestri.

Að sjálfsögðu notaði ég tækifæri til þess að spyrja hann í lokin hvort hann gæti hugsað sér að fara í smá stjörnufræði- og jarðfræðiferð til Íslands næsta vetur.  Í byrjun ferðarinnar sagðist hann hafa mikinn áhuga á því að heimsækja landið en væri enn að bíða eftir eldgosi. Einnig spurði hann út í hvenær væri besti tíminn til þess að koma í heimsókn til þess að kíkja á norðurljósin því konan hans hefði mikinn áhuga á því. Ég mælti með september því þá er orðið nógu dimmt og hægt að fá góðar vikur inni á milli. Hann var jákvæður fyrir því að koma í heimsókn en auðvitað tekur þarf að taka frá 10 daga til þess að fljúga til Íslands, vera þar og fljúga aftur heim til Hawaii.

Ég sagði að hann væri náttúrlega augljós fyrsti kostur fyrir stjörnufræðihelgi á Íslandi en ef hann getur það ekki þá finnum við einhvern annan. Það er nóg til af virtum stjörnuskoðurum, hvort sem er í Norður-Ameríku eða Evrópu. Veit um nokkra hérna í Kanada sem eru einnig reyndir fyrirlesarar og því fengur fyrir íslenska áhugamenn um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Það voru samt engir Evrópumenn sem komu strax upp í hugann. Það helgast væntanlega af því að tímaritin sem ég les eru frá N-Ameríku. Man núna samt eftir mönnum t.d. frá Bretlandi sem væru sannkölluð himnasending fyrir okkur.

Það voru þrír fyrirlestrar á eftir Stephen og var erfitt að velja á milli þeirra. Ég ákvað samt að láta slag standa og fara á fyrirlestur sem nefndist „You can do better than clear sky chart“. Heiti fyrirlestrarins vísar til upplýsingaskiltis sem er á mörgum vefsíðum hér um slóðir og byggir á upplýsingum um veður og skýjafar frá Kanadísku veðurstofunni (sem gagnast fyrir alla Norður-Ameríku). Ég hef hugsað mér að búa til eitthvað svipað fyrir Ísland og kannski verður af því á næsta eða þarnæsta ári. Það var annar af veðurfræðingunum í ferðinni sem flutti fyrirlesturinn. Hann heitir Alister Ling og er lesendum Astronomy tímaritins að góðu kunnur því hann sér um stjörnuskoðun mánaðarins í blaðinu. Það er mikill fengur af því að hafa veðurfræðing í stjörnuteitum sem býr yfir upplýsingum og reynslu sem kemur ekki fram á veðurkortum!

Larry kennir spegilstillingu

Larry kennir áhugasömum að stilla spegilsjónauka. Greinilegt að það mætti færa til aukaspegilinn á þessum sjónauka!

Eftir þessa tvo fyrirlestra var reyndur stjörnuskoðar sem nefnist Larry með smiðju þar sem hann fór í gegnum það hvernig á að stilla spegilsjónauka til þess að ná sem mestu út úr tækjunum. Ég er nýbúinn að eignast spegilsjónauka sem var vel stilltur fyrir og hafði því aldrei farið áður í gegnum ferlið. Náði samt heilmiklu af því sem hann sýndi. Larry skutlaði mér heim frá Pigeon Lake og það var gaman að spjalla við hann. Við höfum haft nokkur tækifæri til þess að spjalla saman um stjörnuskoðun og raunar alls konar aðra hluti. Sem dæmi um það hve hann er almennilegur náungi þá bauðst hann til þess að lána mér tjald sem hann átti svo ég gæti komið með honum í stjörnuteiti í september! Aðalkvöldin í því stjörnuteiti voru á föstudegi og laugardegi en margir voru komnir þangað fyrr og tjölduðu á svæðinu. Ég hafði samt ekki tækifæri til þess að þiggja þetta góða boð en mætti á laugardeginum þegar ég var með fyrirlestur um stjörnufræði á Íslandi (svipaðan þeim sem ég verð með á morgun). Það var skýjað í þessu stjörnusteiti og veðrið því ekki eins og best var á kosið (rétt eins og í stjörnuteitinu í Elk Island Park sem ég bloggaði um í september).

Það reynsla mín af fólki hér um slóðir að það er mjög almennilegt og vill allt fyrir mann gera.

Næsta skref þegar ég kem heim er að reyna að mynda smá hóp af fólki sem vill taka þátt í undirbúningi fyrir svona stjörnuskoðunarferð eins og ég tók þátt í um helgina.

Heiðan himinn!


Carl Sagan syngur (eða rappar?)

Fékk þetta sent um daginn. Carl Sagan að syngja eða rappa kannski frekar texta úr Cosmos þáttunum. Stephen Hawking á þarna góða innkomu. Góður dúett.

Þetta er kannski ekki besta lag í heimi en textinn sem vitnað er í er tímalaus snilld.

Enda var Carl Sagan algjör meistari.

Hér er einkennislag Cosmos þáttanna, Heaven and Hell eftir gríska tónskáldið Vangelis. Fæ alltaf gæsahúð þegar ég hlusta á þetta vegna þess að lagið er fallegt og kalla fram góðar minningar um þessa frábæru þætti. 

 


Baráttan fyrir bættri lýsingu

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fylgjast með baráttunni fyrir bættri lýsingu hérna í Alberta í Kanada. Í borginni Edmonton (þar sem ég bý í augnablikinu) og í nágrannasveitarfélögunum býr um ein milljón manna. Borgin er miðstöð fyrir olíuiðnaðinn í Alberta og það þarf því ekki að koma á óvart að hér hafi hingað til lítið verið hugað að orkusparnaði, ekki frekar en heima á gamla, góða Íslandi.

ljósmengun á jörðinni
Samsett heimskort sem sýnir jörðuna að nóttu til. Örvarnar benda á Edmonton í Kanada og á Reykjavík á Íslandi en báðar borgirnar sjást greinilega á kortinu. (Hér er slóð á upphaflegu myndina.)

Ein af birtingarmyndum þessarar orkusóunar er illa hönnuð lýsing úti um alla borg. Sem dæmi má nefna bílasölu sem er við sömu götu og ég bý við. Ljósastaurarnir og auglýsingaskiltið lýsa upp hálft hverfið, m.a. gluggana okkar sem búum á 9. hæð í blokk í nokkur hundruð metra fjarlægð! Þetta ástand minnir ískyggilega á íþróttavellina á höfuðborgarsvæðinu sem lýsa upp heilu og hálfu hverfin að kvöldlagi.

Íþróttasvæði Stjörnunnar í Garðabænum
Íþróttasvæði Stjörnunnar í Garðabænum. Myndin er tekin á bílastæði langt fyrir utan sjálfan fótboltavöllinn! Ljósmynd: Sævar Helgi Bragason

Fjölmargar bílasölur, verslana- og iðnaðarsvæði, olíuhreinsistöðvar og illa hönnuð götulýsingu eiga stærstan þátt í því að appelsínugulur ljósahjálmur myndast yfir Edmonton að kvöld- og næturlagi. Ég fór í smá könnunarleiðangur um daginn til þess að áætla fjölda stjarna á himninum yfir útivistarsvæði nálægt miðborg Edmonton. Út frá daufustu stjörnunum sem ég sá (birtustig +4,45) má áætla að alls sé hægt að sjá um 250 stjörnur á himinum. Það er talsvert minna en þær 1600 stjörnur sem sjást á heiðskírum himni þar sem ekki gætir ljósmengungar! Sömu niðurstöður fást frá stjörnustöðinni við Vísindasafnið (birtustig +4,5).

Athuganir sem ég hef gert í grennd við miðborg Reykjavíkur benda til þess að ástandið þar sé lítið skárra en í Edmonton þótt íbúar séu miklu færri. Ég þarf samt fleiri athuganir áður en ég get farið út í nákvæmari samanburð.

Í lokin má ég til með að benda á stutta grein um ljósmengun á Stjörnufræðivefnum. Einnig höfum við sett saman stuttan bækling um ljósmengun á Íslandi (pdf-skjal 850 kb) sem greinir frá vandanum og leiðum til úrbóta.

Listaverk á Mars

Í síðustu færslu fjallaði ég pínulítið um HiRISE, sjónaukann öfluga um borð í Mars Reconnaissance Orbiter geimfarinu. HiRISE hefur tekið margar af glæsilegustu ljósmyndunum sem við eigum af yfirborði Mars. Þegar ég fór inn á vef HiRISE í dag, rakst ég á þessa listrænu mynd:

esp_014426_2070.jpg

Hér er hægt að finna myndina í betri upplausn, það er algjörlega þess virði að sækja hana í góðri upplausn. Ég sá að Slæmi stjörnufræðingurinn heillaðist líka af þessari ótrúlegu mynd og bloggaði um hana. Líkt og hann stóðst ég ekki mátið að birta myndina hér og skýra örstutt frá henni.

Myndin er augljóslega ekki í réttum "Mars-litum". Litirnir eru vísvitandi falskir svo unnt sé að draga fram smáatriði á yfirborðinu sem annars sæjust illa eða alls ekki.

En hvað er hér í gangi?

Hér sést stór sandalda þakin dökkum rákum. Rákirnar myndast þegar sandstrókar verða til á svæðinu og þyrla upp hinu örfína ryðrauða ryklagi sem þekur Mars. Sandstrókarnir verða til þar sem kröftugt en staðbundið hitauppstreymi er, en strókarnir ekki nógu öflugir til að þyrla upp öðrum kornastærðum en fínasta rykinu. Undir rauða ryklaginu er dökkur basaltsandur sem kemur í ljós undan rykinu.

Sandöldur eru heillandi fyrirbæri. Þessi mynd, sem HiRISE tók af stað sem heitir Noctis Labyrinthus í Marinergljúfrinu, er mögnuð:

esp_014353_1685.jpg

Hér er hún í betri upplausn.

Mér finnst við ættum að drífa okkur að heimsækja þessa ótrúlega heillandi reikistjörnu!


Hvernig líta jörðin og tunglið út í sjónauka séð frá Mars?

Jörðin er ýmist kvöld eða morgunstjarna á Mars, rétt eins og Merkúríus og Venus á jörðinni. Frá Mars séð líkist jörðin mest Venusi þegar ástarstjarnan prýðir himininn frá jörðinni, björt og fögur fölblá stjarna. Sendiherrar jarðarbúa á Mars hafa ljósmyndað jörðina frá Mars, eins og sést á þessari mynd, sem Marsjeppinn Spirit tók:

jordin_fra_mars.jpg

Það væri gaman að vera geimfari með sjónauka á Mars og horfa til jarðar.

Það vita ef til vill ekki margir að á braut um Mars er mjög öflugur sjónauki sem heitir HiRISE um borð í Mars Reconnaissance Orbiter. Venjulega er þessum sjónauka reyndar beint niður á yfirborð reikistjörnunnar. Stundum er honum beint eitthvert annað eins og á reikistjörnur sólkerfisins.

Það var gert þann 3. október 2007.

psp_005558_9040.jpg

Þessi glæsilega ljósmynd var tekin úr 142 milljón km fjarlægð frá jörðinni. Á myndinni sést vesturströnd Suður-Ameríku vel þótt skýin séu mest áberandi.

HiRISE hefur líka beint sjónum sínum að konungi reikistjarnanna, Júpíter. Þessi mynd var tekin 11. janúar 2007.

psp_002162_9030.jpg

----

Nýjasti Vísindaþátturinn er kominn á vefinn.


Nóbelsverðlaunin 2009 í Vísindaþættinum

Í Vísindaþættinum í dag verður fjallað um Nóbelsverðlaunin 2009. Okkur þykir heldur mikið látið með bæði bókmennta- og friðarverðlaunin og viljum því auka umfjöllun um vísindaverðlaunin sjálf. Að minnsta kosti höfum við ekki orðið mikið varir við mikla fjölmiðlaumfjöllun um eðlisfræði-, læknisfræði- og efnafræðiverðlaunin.

Nú ber svo undir að bæði læknisfræði- og efnafræðiverðlaunin tengjast talsvert eins og bloggvinur okkar, meistari Arnar Pálsson, hefur bent á. Þess vegna ætlar eini fastagestur þáttarins, Dr. Martin Ingi Sigurðsson, að fræða okkur um bæði þessi verðlaun. Sjálfur ætla ég svo að fjalla um eðlisfræðiverðlaunin þar sem þau tengjast jú heldur betur rannsóknum í stjarnvísindum

Einnig verður fjallað um árekstur LCROSS við tunglið. Sumir segja að áreksturinn hafi misheppnast en það er ekki alveg svo. Áreksturinn varð ekki eins mikið sjónarspil og menn áttu von á en því fer fjarri að hann hafi misheppnast. Gögnin þykja góð og það er það sem máli skiptir. Er þetta ekki annars skilgreining á árangursríkri tilraun? Hún kom á óvart og kennir okkur því eitthvað nýtt.

Og já, það hefur einn Nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði verið í viðtali í Vísindaþættinum. 

----

PBS Nova er búið að gera sjónvarpsþátt um viðgerðarleiðangurinn til Hubble. Hann var að sjálfsögðu tekinn upp í HD og hlakka ég mikið til að sjá hann. Vonandi ratar hann í íslenskt sjónvarp.


Að gefnu tilefni

Rakst á frétt á Vísi.is um ekki-heimsendinn árið 2012. Mér sýnist nú fréttin skrifuð í kaldhæðni og gríni þannig að ég hef lítið hana að athuga, utan eitt atriði. Í fréttinni er vitnað í Maja indíána sem segir:

Sannleikurinn sé ósköp einfaldur, þeir sem gerðu dagatalið á 6. öld fyrir Krists burð vissu einfaldlega að á 25.800 ára fresti lentu jörðin, sólin og miðja vetrarbrautarinnar í beinni línu. Það myndi gerast þennan dag árið 2012 og því upplagt að láta dagatalinu lokið á þeim tímapunkti, segir Pixtun pirraður og frábiður sér meira rugl frá nýaldarsinnum, sjálfskipuðum Nostradamusar-spekingum og fólki sem hefur horft of mikið á History Channel-sjónvarpsstöðina.

Miðja Vetrarbrautarinnar er í stjörnumerkinu bogmanninum. Af því leiðir að sólin, jörðin og miðja Vetrarbrautarinnar eru í beinni línu á hálfs árs fresti. Þegar sólin er í bogmanni, seinni hluta desember og fram í miðjan í janúar, eru jörðin, sólin og miðja Vetrarbrautarinnar í beinni línu. Sex mánuðum seinna, þegar sólin er í tvíburunum, raðast sólin, jörðin og miðja Vetrarbrautarinnar aftur í beina línu. 

En ég er sáttur með þessa frétt. Þetta 2012 rugl er með eindæmum vitlaust... svona álíka vitlaust og tungllendingarsamsærisbullið... og geimveruheimsóknir

Endum þetta á frábæru lagi með bestu hljómsveit í heimi.


Horft til stjarna frá Hvíta húsinu

Við sögðum frá því um daginn að bandarísku forsetahjónin buðu börnum, kennurum og stjörnuáhugafólki í stjörnuskoðun á lóð Hvíta hússins. Þarna var margt góðra manna að horfa upp í himinninn í tilefni af Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009. Obama horfir í gegnum Celestron sjónauka. Það gleður mig. Þarna hefði verið gaman að vera.


Ræða hans er frábær, eins og svo oft áður. Ég mæli með því að þið hlustið á hana. Obama segir meðal annars:

NASA’s equipment is some pretty powerful stuff. But astronomy also depends on the curiosity and contribution of amateur astronomers. [...] If they can discover something great, so can any of you other students who are here tonight. All you need is a passion for science.

Sama dag afhenti Obama bandarísku vísindaverðlaunin og sagði meðal annars af því tilefni:

there are those who say we can’t afford to invest in science, that it’s a luxury at a moment defined by necessities. I could not disagree more. Science is more essential for our prosperity, our security, and our health, and our way of life than it has ever been. And the winners we are recognizing only underscore that point, with achievements in physics and medicine, computer science and cognitive science, energy technology and biotechnology. We need to ensure that we are encouraging the next generation of discoveries — and the next generation of discoverers. 

Mikið er nú hressandi að hafa forseta í Hvíta húsinu sem er annt um vísindin.

"Galíleó breytti heiminum þegar hann beindi sjónaukanum sínum til himna. Nú er komið að þér!"

----

Nokkrir hlutir hafa verið gerðir að opinberum vörum alþjóðlegs árs stjörnufræðinnar. Meðal þess er ótrúlegur sjónauki sem heitir Celestron FirstScope. Þetta er pínulítill sjónauki sem er samt nógu stór til þess að maður sjái eitthvað með honum. Ég fór út með hann um daginn, skoðaði gígana á tunglinu, Júpíter, Sjöstirnið, Andrómeduvetrarbrautina og meira að segja Hringþokuna í Hörpunni. Þrátt fyrir ljósmengunin sást þetta allt vel, eiginlega miklu betur en ég átti von á.

Ef þú vilt kaupa lítinn en góðan og ódýran stjörnusjónauka, þá mælum við heilshugar með Celestron FirstScope. Ef þú kaupir hann frá Sjónaukar.is færðu tímaritið Undur alheimsins í kaupbæti ásamt fræðslumyndinni Horft til himins. Horft til himins er einmitt önnur opinber vara stjörnufræðiársins. Tímaritið Undur alheimsins var svo sérstaklega gefið út í tilefni af ári stjörnufræðinnar hér á landi. Ekkert smá góður díll!

Á næstu vikum verður íslenskur leiðarvísir útbúinn og góðar upplýsingar um hvað skemmtilegt er að skoða með honum.

Já, við á Stjörnufræðivefnum erum hrifnir af þessum smáa en knáa stjörnusjónauka.


Dálítil vonbrigði en gögnin gleðja

Fyrir okkur sem áttum von á nokkru sjónarspili varð áreksturinn nokkur vonbrigði. Því miður sást fátt markvert í beinu útsendingunni sem NASA stóð fyrir. Mér fannst engu að síður mjög gaman að fylgjast með þessu enda ekki á hverjum degi sem svona flott og skemmtileg tilraun er framkvæmd. Þetta var jú tilraun og þegar tilraunir eru annars vegar er ómögulegt að segja til um niðurstöðuna. Menn geta getið sér til um hvað gerist, en náttúran hefur tilhneigingu til að koma okkur á óvart. Og það gerði hún svo sannarlega nú í morgun. 

Það sem öllu máli skiptir eru hins vegar gögnin sjálf sem aflað var. Vísindamennirnir sem starfa við leiðangurinn eru í skýjunum með hvernig til tókst. Dýrmætum og góðum gögnum var aflað sem vitaskuld á eftir að taka einhvern tíma að vinna úr. Þeirra mikilvægust eru litrófsgögnin því þau gera mönnum kleift að efnagreina það sem þeyttist upp af tunglinu. Hubblessjónaukinn var meðal annars notaður til þess sem og nokkrir aðrir gervihnettir á braut um jörðina. LRO fylgdist með gangi mál af braut um tunglið og staðfest hefur verið að hann greindi efnisskvettu eða mökk.

Mikilvægt er að hafa í huga að enn á eftir að vinna úr nánast öllum gögnunum. Og gögnin lofa mjög góðu.

Hér er mynd sem náðist í innrauðu ljósi af blossanum sem myndaðist við áreksturinn. Myndin var tekin úr 600 km fjarlægð.

lcross_blossi.jpg

Við reynum að birta nýjustu upplýsingar hér um leið og þær berast.


mbl.is Tvö geimför lenda á tunglinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áreksturinn á eftir

Uppfært! Áreksturinn hefur átt sér stað. Því miður varð enginn efnismökkur greinilegur á myndunum í beinu útsendingunni, sem eru talsverð vonbrigði satt að segja, en var vissulega möguleiki. Við bíðum bara spennt eftir myndum frá sjónaukum um heim allan. Mökkurinn hefur þar af leiðandi örugglega ekki sést í áhugamannasjónaukum, en við skulum bíða og sjá hvað sést hefur á myndum frá Hubble og öðrum sjónaukum á jörðu niðri. Samkvæmt því sem ég er að heyra hefur enginn mökkur greinst á myndum frá Palomar og Mauna Kea

Hafa verður í huga að svona atburðir eru ekki alltaf sýnilegir í sýnilegu ljósi heldur á öðrum bylgjulengdum. 

Hvað gæti þetta þýtt? Það eru einkum þrír möguleikar. Í fyrsta lagi gæti verið að það sé hreinlega enginn vatnsís þarna. Í öðru lagi gæti verið miklu minna vatn en búist var við og í þriðja lagi gæti áreksturinn hafa orðið á óheppilegum stað ef svo má segja.

Hvað um það. Það verður fréttamannafundur klukkan 2 í dag þar sem fyrstu gögn verða birt. Myndir frá LRO af árekstrinum verða þá örugglega birtar.

 

Eins og segir í þessari fínu frétt rekst tveggja tonna skeyti á tunglið klukkan 11:31 að íslenskum tíma. Fjórum mínútum eftir fyrri áreksturinn bíða LCROSS geimfarinu sömu örlög. Á tunglinu eru árekstrar af þessari stærðargráðu vikulegir atburðir en það sem gerir þennan árekstur spennandi er fyrirhugaður árekstrarstaður. Geimförin tvö eiga að rekast á tunglið í gígnum Cabeus þar sem vatnsís kann að leynast í jarðveginum. Bestu sjónaukum heims verður beint að árekstrinum í þeirri von að unnt verði að efnagreina það sem leynist í mekkinum.

Vert er að hafa í huga að dramatíkin í kringum áreksturinn verður ekki eins og í bíómyndunum. Mökkurinn rís upp af tunglinu í skugga. Búast má við að skugginn verði örlítið ljósari í um 30 sekúndur þegar efnið þeytist upp af tunglinu. Þrátt fyrir það verða ljósmyndirnar og gögnin án efa glæsileg og mjög áhugaverð.

Í gær var ég í viðtali við Ríkissjónvarpið um áreksturinn þar sem þessu er ágætlega lýst:

Áhugavert er að hugsa til þess að árekstrar af þessari stærðargráðu verða oftar á jörðinni en tunglinu. Nokkrum sinnum í viku falla loftsteinar á stærð við geimförin tvö inn í lofthjúp jarðar. Ástæðan er auðvitað sú að jörðin er miklu stærri og massameiri en tunglið og laðar því að sér fleiri loftsteina. Sem betur fer er jörðin með þykkan lofthjúp sem ver okkur fyrir ágangi loftsteinanna.

Hægt er að fylgjast með umfjöllun NASA um áreksturinn á netsjónvarpsrás geimstofnunarinnar.


mbl.is Tvö geimför rekast á tunglið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband