Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Sex spennandi fyrirbæri á hausthimni

Við höfum tekið saman lista yfir sex spennandi fyrirbæri sem hægt er að skoða í stjörnusjónaukum af öllum stærðum og gerðum. Hægt er að lesa sér til um öll þessi fyrirbæri á Stjörnufræðivefnum og prenta út kort sem duga (vonandi) til þess að finna þau á himninum. Hér er brot af því besta sem hentugast er að skoða á haustin:

M13 - Kúluþyrpingin mikla í Herkúlesi1) Kúluþyrpingin mikla í Herkúlesi (M13)
Kúluþyrpingin mikla í Herkúlesi er glæsilegasta kúluþyrpingin sem sést frá Íslandi. Í henni eru nokkur hundruð þúsund stjörnur samankomnar í kúlulaga skýi sem er um 150 ljósár í þvermál.

2) Herðatréð í Litlarefi
Hérðatréð í Litlarefi er samstirni nokkurra stjarna sem raðast upp í mynstur sem lítur út eins og herðatré! Þær eru hins vegar mislangt frá okkur á bilinu 200 til 1100 ljósára fjarlægð.

3) Dymbilþokan í Litlarefi (M27)
Dymbilþokan er hringþoka eins og Hringþokan í Hörpunni (M57). Þær eru báðar leifar sólstjarna sem líktust sólinni en þeyttu frá sér ytri lögunum þegar þær enduðu ævi sína.

4) Tvístirnið Albíreó í Svaninum
Gullfallegt tvístirni með litamun. Tiltölulega auðvelt er að finna Albíreó á himninum neðst í Svaninum (er í raun í höfði Svansins þar sem hann flýgur niður eftir Vetrarbrautarslæðunni). Albíreó er trúlega þekktasta tvístirnið á næturhimninum og það er ekki að ástæðulausu!

M57 - Hringþokan í Hörpunni5) Hringþokan í Hörpunni (M57)

Hringþokan í Hörpunni er þekktasta hringþokan á næturhimninum. Við fyrstu sýn lítur hún út eins og loðin stjarna en við nánari athugun líkist hún frekar örlitlum reykhring.

6) Tvöfalda tvístirnið epsilon í Hörpunni
Auðvelt er að finna staðsetning epsilon í Hörpunni rétt hjá Vegu sem er meðal björtustu stjarnanna á himninum. Við litla stækkun sjást tvær stjörnur. Við þokkaleg skilyrði má með talsverðri stækkun sjá að þarna eru í raun fjórar stjörnur (tvö tvístirni).

Hér er greinin á Stjörnufræðivefnum: Sex spennandi fyrirbæri á hausthimni


Nánar um hringa Satúrnusar

Þessi nýi hringur Satúrnusar fannst með Spitzer geimsjónaukanum sem gerir athuganir í innrauðu ljósi.

Upphafssvæði hans er í 6 milljón km fjarlægð frá Satúrnusi og teygir hann sig allt að 18 milljón km út frá reikistjörnunni. Hringurinn hallar auk þess 27 gráður miðað við meginhringa Satúrnusar, sem er áhugavert.

Í fréttinni ætti að standa að fjarlægasta þekkta fylgitungl Satúrnusar, Föbe (ekki Phoebe), hringsóli um Satúrnus innan hins nýfundna hrings og er að líkindum uppspretta hringefnisins.

Það sem gerir þennan hring líka áhugaverðan er þykkt hans. Hann er um tuttugu sinnum þykkari en reikistjarnan sjálf, en hringar Satúrnusar eru annars örþunnir, ekki nema fáeinir tugir metra á þykkt. Þessi mikla þykkt þýðir að hringurinn er mjög efnisrýr, en hann er annars úr mjög fínum ís og rykögnum. Þetta er aðalástæða þess að þessi hringur fannst svo seint. Efnið í honum er dreift yfir svo víðfemt svæði að ef þú værir innan hringsins, þá myndir þú ekki vita af honum. Ekki einu sinni Cassini geimfarið, sem er á braut um Satúrnus, fann hringinn þegar það ferðaðist í gegnum hann árið 2004.

Þessi uppgötvun gæti mögulega útskýrt eina helstu ráðgátu tunglsins Japetusar. Þegar Japetus fannst árið 1671 tóku stjörnufræðingar eftir því að tunglið var misbjart, eftir því hvoru meginn við Satúrnus það var. Drógu þeir þá ályktun að önnur hlið tunglsins væri hvít en hin dökk. Hingað til hefur ekki fundist haldbær útskýring hvers vegna tunglið er svona sérkennilegt, en hinn nýfundni hringur gæti útskýrt það. Þegar Japetus snýst umhverfis Satúrnus safnast rykagnirnar í hringnum á þá hlið tunglsins sem það stefnir í, ekki ósvipað og flugur sem rekast á framrúðu bíls á ferð. Þess vegna er önnur hliðin dökk en hin ljós.

Ef þú vilt fræðast meira um hringa Satúrnusar, þá mæli ég með þessari grein á Stjörnufræðivefnum. Þarna eru stórglæsilegar myndir og hafsjór af fróðleik um þetta undur sólkerfisins.

Mbl.is fær prik fyrir viðleitni þótt frásögnin þar sé kannski ekki alveg fullkomlega rétt.


mbl.is Nýr hringur um Satúrnus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrir hvað fengu þeir verðlaunin?

ccdflaga.jpgÞetta er fremur klén frétt, það verður að segjast. Örfáar línur um stórmerkileg verðlaun, örfáar línur um uppgötvanir sem hafa gerbreytt heiminum. Vonum að þeir bæti úr því í dag. Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði sem eru afhent í dag sýna nefnilega vel hvernig grunnrannsóknir í eðlisfræði geta gjörbreytt heiminum til hins betra.**Uppfært** Jæja, ég sé að fréttin er orðin öllu efnismeiri en í fyrstu. Gott hjá Mbl.is.

Willard Boyle og George Smith fá Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði fyrir að hafa fundið upp CCD myndflögurnar. Þú átt alveg örugglega CCD myndflögu. Þær eru í öllum stafrænum myndavélum nú til dag, þinni eigin vasamyndavél og líka í myndavél Hubblessjónaukans.

Það sem hér fer á eftir er að mestu unnið upp úr grein á Stjörnufræðivefnum um sjónauka og rannsóknir í stjarnvísindum.

CCD myndflögurnar hafa líka gjörbylt rannsóknum í stjarnvísindum þegar þær komu fram árið 1969. CCD flögur leystu silfurhalíð af hólmi í stafrænu byltingunni. Pixlar komu í stað korna og í dag eru ljósmyndir teknar á miklu skemmri tíma en áður.

En hvað er CCD flaga? CCD flaga er net ljósnæmra pixla úr kísli. Við lýsingu safnar hver pixill rafhleðslu í hlutfalli við magn þess ljóss sem á hann lendir. Eftir lýsinguna er hleðslan lesin rafrænt og breytt í ljósmynd. Fyrstu tvívíðu CCD flögurnar voru aðeins 100 x 100 pixlar en í dag hafa jafnvel símamyndavélar nokkrar milljónir pixla eða megapixla.

CCD flögur sem stjörnufræðingar nota eru sérstaklega ljósnæmar. Svo þær verði enn ljósnæmari eru þær kældar langt niður undir frostmark með fljótandi nitri. Næstum hver einasta ljóseind er fönguð. Það þýðir að lýsingartíminn getur orðið umtalsvert skemmri. Það sem áður tók ljósmyndaplötu að fanga á klukkustund nær CCD myndflaga á fáeinum mínútum, jafnvel með smærri sjónauka. Stjörnufræðingar hafa smíðað risastórar CCD myndavélar með hundruð milljóna pixla upplausn. 

Google sjónaukinn Large Synoptic Sky Survey

Árið 2015 opnast nýr gluggi út í alheiminn þegar Large Synoptic Sky Survey sjónaukinn verður tekinn í notkun. Þessi öflugi sjónauki verður með 8,4 metra breiðan spegil, sjónsvið á svið fimmtíu full tungl og þriggja gígapixla CCD myndavél sem tekur 15 sekúndna ljósmyndir samfleytt af himninum.

Vonir standa til um að sjónaukinn ljósmyndi næstum allt himinhvolfið á þriggja nátta fresti. Vænst er til þess að sjónaukinn safni þrjátíu þúsund gígabætum (30 terabæt) af gögnum á einni nóttu - hrikalegt gagnamagn sem verður unnið, greint og flokkað í rauntíma þökk sé samstarfi við tölvurisann Google. Niðurstöðurnar verða öllum aðgengilegar á internetinu. 

Og þá er eins gott að hafa góða nettengingu. Kannski ljósleiðaratengingu, þökk sé þriðja verðlaunahafanum Charles Kao.

Þessi pistill er að mestu unninn úr grein af Stjörnufræðivefnum


mbl.is Þrír deila Nóbelsverðlaunum í eðlisfræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Obama býður börnum í stjörnuskoðun í Hvíta húsinu

aas2009_sma.jpgMiðvikudagskvöldið 7. október 2009 munu bandarísku forsetahjónin Barack og Michelle Obama standa fyrir stjörnuskoðunarkvöldi fyrir börn og unglinga á lóð Hvíta hússins. Settir verða upp tuttugu stjörnusjónaukar og þeim meðal annars beint á Júpíter og tunglið sem prýða næturhiminninn um þessar mundir. Stjörnuskoðunarkvöldið er haldið í tilefni af alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009.

Með þessu stjörnuskoðunarkvöldi vill Bandaríkjaforseti undirstrika stuðning sinn við aukna menntun í vísindum, verkfræði og stærðfræði, sem er grundvöllur tækniþekkingar og efnahags Bandaríkjanna, eiginlega grundvöllur lífsgæða um allan heim. Með stjörnuskoðunarkvöldinu vill Obama líka undirstrika stuðning sinn við stjörnufræði sérstaklega vegna þess að hún eykur vitund okkar um stöðu jarðar og mannkyns í alheiminum. Stjörnufræðin er líka ótrúlega heppileg vísindagrein til að efla áhuga barna og unglinga á vísindum yfirhöfuð, enda snertir hún margar af dýpstu spurningum okkar um alheiminn og er mjög myndræn og falleg.

Obama mun hefja viðburðinn klukkan 8 að staðartíma eða á miðnætti að íslenskum tíma. Hann verður sýndur í beinni útsendingu á vef Hvíta hússins og á netsjónvarpsrás NASA

Sjá nánar hér.

----

galilean_nights_icelandic_litil.jpgBoðað verður til allsherjar stjörnupartís dagana 22. til 24. október næstkomandi. Fara þá fram Galíleónætur, alþjóðlegt vísindamiðlunarverkefni í tilefni af ári stjörnufræðinnar. Haldið verður upp á Galíleónætur út um allan heim með mismunandi hætti. Ef veður leyfir mun Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness bjóða áhugasömum upp á stjörnuskoðun. 

Undirbúningur fyrir Galíleónætur stendur yfir þessa dagana. Verið er að skipuleggja nokkra skemmtilega viðburði t.d. fyrirlestrakvöld föstudagskvöldið 23. október í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Þar verður boðið upp á nokkra örfyrirlestra þar sem vísindamaður segir frá tilteknu viðfangsefni. Ef veðrið er gott verða stjörnusjónaukar fyrir utan og þeim meðal annars beint á Júpíter og fleiri forvitnileg fyrirbæri.

Íslensk heimasíða verkefnisins er hér en þar verður að finna dagskrána þegar nær dregur.

----

Í Vísindaþættinum í dag verður kynning á tveimur áhugaverðum vefsíðum, annars vegar Vísindin.is og hins vegar loftslag.is. Ekki missa af því.

----

Á föstudaginn verður árekstur við tunglið!


Nánar um loftsteininn

Myndskeiðið styður það sem við skrifuðum áðan um umræddan loftstein. Þú getur lesið færsluna hér og fræðst nánar um loftsteina hér. Það er óþarfi að vera með getgátur, þetta er augljós loftsteinn.

Loftsteinninn sést í fremur stutta stund. Það bendir til þess að hann hafi ekki verið ýkja stór þótt hann hafi verið þokkalega bjartur. En eins og með öll stjörnuhröp, þá er þetta óskaplega fallegt. 

Fólk ætti tvímælalaust að gefa sér meiri tíma í að horfa upp í alheiminn. Hann er ótrúlega fallegur og það kemur fólki alltaf jafnmikið á óvart hvað hægt er að sjá.

Færslan við fyrri fréttina er hér.


mbl.is Loftsteinn yfir Árborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu stór?

Loftsteinar sem þessir eru venjulega frekar litlir. Ætli þessi steinn, sem sást í gærkvöldi, hafi ekki verið einhvers staðar á milli þess að vera á stærð við vínber og tennisbolta, sem sagt tiltölulega lítill. Loftsteinarnir geta orðið mjög bjartir, en þeir eru sjaldnast mjög stórir. Stærri loftsteinar yrðu miklu bjartari.

Daglega falla um 300 tonn af efni úr geimnum í gegnum lofthjúp jarðar. Mest af þessu er afar smásætt ryk sem enginn tekur eftir. Aðeins stærstu steinarnir ná alla leið niður til jarðar en sem betur fer eru þeir örfáir.

peekskill_billTil eru mörg dæmi um að loftsteinar hafi náð til jarðar. Í október 1992 sást eldhnöttur á himni yfir Peekskill í New York sem brotnaði í nokkra hluta og féll til jarðar. Eitt brotið rakst á skottið á bíl konu. Konan heyrði hljóð sem minnti á árekstur og hljóp út. Þá sá hún hvar tólf kg þungur loftsteinn lá við hliðina á bílnum hennar sem varð fyrir talsverðum skemmdum. Tryggingarnar bæta ekki tjón af völdum loftsteina svo aumingja konan sat uppi með kostnaðinn. Fljótlega voru henni þó boðnir nokkur þúsund dollarar fyrir loftsteininn og bílinn sem nú er sýningargripur.

Ef loftsteinar eru svona smáir, hvers vegna verða þeir þá svona bjartir?

Þótt loftsteinarnir séu smáir geta þeir orðið mjög bjartir og sést í hundruð km fjarlægð. Ástæðan er fyrst og fremst hraði steinanna. Rétt áður en þeir koma inn í lofthjúpinn eru þeir á um 70 km hraða á sekúndu. Á þeim hraða færu þeir umhverfis jörðina á tæpum fjórum mínútum!

Steinninn var grænblár, hvað segir það okkur?

Sú staðreynd að bjarminn var grænblár segir okkur ýmislegt til um úr hvaða efnum steinninn er. Grænbláan bjarma má rekja til málma í steininum, t.d. magnesíums.

Hvers vegna lýsa loftsteinar?

Í grein Stjörnufræðivefsins um loftsteina er eftirfarandi skýring á því hvers vegna loftsteinar lýsa þegar þeir falla í gegnum lofthjúpinn:

Þvert á það sem margir telja, er það ekki núningurinn við lofthjúpinn sem hitar hrapsteinana. Þegar þeir ferðast í gegnum lofthjúpinn á um 15 km hraða á sekúndu þéttist loftið fyrir framan þá. Þegar gas þéttist hitnar það, líkt og margir hafa fundið þegar hjólapumpa hitnar við notkun. Það er svo þetta þétta loft sem hitar sjálfan hrapsteininn svo að hann lýsir.

Loftsteinninn sem féll í Peekskill 9. nóvember 1992. Hér má sjá myndskeið af loftsteininum.

Ofurheitt loftið fyrir framan steininn, snertir hann í raun ekki þegar steinninn ferðast í gegnum lofthjúpinn. Hröð hreyfing loftsteinsins myndar höggbylgju í loftinu, líkt og hljóðfrá flugvél gerir þegar hún klýfur hljóðmúrinn. Höggbylgjan fyrir framan loftsteininn er þannig nokkra sentímetra frá honum.

Yfirborð loftsteinsins bráðnar vegna hita samanþjappaða gassins fyrir framan hann, og loftið sem streymir um hann blæs bráðinni utan af steininum, það er hann gufar upp. Orkan til að hita steinninn verður að koma einhvers staðar frá og því hægist á steininum eftir því sem meira af hreyfiorku hans breytist í ljós og varma. Hrapsteinninn fellur þannig einungis til jarðar á nokkur hundruð kílómetra hraða á klukkustund.

Þegar þarna er komið við sögu er hrapsteinninn enn frekar hátt í lofthjúpnum og það tekur hann nokkrar mínútur að falla til jarðar. Steinninn er búinn að vera lengi í lofttæmi geimsins og því er kjarni hans mjög kaldur. Þeir hlutar sem hitnuðu mest á ferðinni um lofthjúpinn hafa bráðnað og þeyst í burtu en einnig er loftið hátt í lofthjúpnum mjög kalt og hitar því ekki steininn. Loftsteinar sem ná til jarðar eru því ekki mjög heitir heldur allt frá því að vera volgir og niður í það að vera mjög kaldir (þaktir hélu).

Hafa einhverjir loftsteinar fundist á Íslandi?

Brot úr steininum sem sást í gærkvöldi hafa líklegast ekki náð niður til jarðar. Líklegt er að á Íslandi leynist loftsteinar innan um allt hitt grjótið, vandinn er sá að erfitt er að greina loftsteina frá öðru grjóti. Þess vegna hafa enn sem komið er, engir loftsteinar fundist hér á landi.


mbl.is Sáu loftstein í Ölfusi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverðir fyrirlestrar á laugardag

Vert er að vekja áhugafólki um vísindi athygli á forvitnilegum fyrirlestrum sem fram fara laugardaginn 3. október. Klukkan 13:00 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands, flytur Guðmundur Eggertsson, prófessor í erfðafræði, fyrirlestur um uppruna lífsins. Guðmundur var einmitt í viðtali í Vísindaþættinum á þriðjudaginn og er viðtalið nú loksins komið á netið.

Rúmri klukkustund síðar hefst fyrirlestur Einars H. Guðmundssonar, prófessors í stjarneðlisfræði, um stjörnuathuganir Rasmus Lievog í Lambhúsum á Álftanesi fyrir rúmum 200 árum. Sá fyrirlestur fer fram klukkan rúmlega 14:00 í Bessastaðakirkju. Að loknu erindi Einars fjalla Trausti Jónsson veðurfæðingur og Hilmar Garðarsson sagnfræðingur fyrirlestur um veðurathuganir Lievogs.

Nánari upplýsingar um fyrirlestrana eru hér.

----

Það eru enn laus sæti á stjörnuskoðunarnámskeiðið í næstu viku. Ekki missa af þessu frábæra námskeiði.

----

Við sögðum um daginn frá GigaGalaxyZoom. Þetta frábæra verkefni Stjörnustöðvar Evrópu á suðurhveli (ESO) var uppfært um daginn með 370 megapixla ljósmynd af Lónþokunni í Bogmanninum, sem tekin var með 67 megapixla myndavél á 2,2 metra breiðum sjónauka í Chile. Þessi fallega mynd nýtur sín vel á GigaGalaxyZoom og hægt er að ferðast inn djúpt inn í hana. 


Íslenst stjörnukort fyrir október

Stjörnuskoðun mánaðarinsVið höfum sett upp stjörnukort sem sýnir næturhimininn yfir Íslandi á milli kl. níu og tíu á kvöldin í október (á íslensku að sjálfsögðu!). Á kortinu má finna reikistjörnurnar sem sjást á kvöldin, stjörnumerkin og áhugaverð fyrirbæri. Þessu til viðbótar fylgir leiðarvísir um stjörnuhimininn fyrir byrjendur í stjörnuskoðun.

Hér er stjörnukortið ásamt leiðarvísi á Stjörnufræðivefnum


Uppruni lífsins í Vísindaþættinum

Í Vísindaþættinum þriðjudaginn 29. september kemur heldur betur góður gestur í spjall til okkar, enginn annar en Guðmundur Eggertsson líffræðingur. Ætlunin er að rabba við hann um uppruna lífsins hér á jörðinni og vangaveltur um líf utan jarðar. Guðmundur mun halda fyrirlestur um þetta spennandi viðfangsefni laugardaginn 3. október í stofu 132 í Öskju.

Arnar Pálsson setti inn tilkynningu um fyrirlestur Guðmundar á bloggsíðu sína. Ætla ég að gerast svo djarfur henda henni hingað inn óbreyttri. Vona að hann fyrirgefi það.

Eftir rétta viku, 3 október 2009, mun Guðmundur Eggertsson halda fyrirlestur um uppruna lífsins.

Allar lífverur á jörðinni eru af sama meiði, það vottar innribygging þeirra, DNA, prótínmyndunarkerfi, og efnaskipti. En hvernig varð lífið til? Til að svara þeirri spurningu hafa verið settar fram mjög, mjög, mjög margar tilgátur. Vandamálið er að prófa tilgáturnar, þær þurfa að vera nægilega nákvæmar til að hægt sé að framkvæma tilraunir eða gera athuganir til að sannreyna þær (eða hrekja!).

LeitinAdUpprunaLifs Guðmundur mun fjalla um þessa stærstu spurningu líffræðinnar, og styðjast við að hluta bók sem hann gaf út árið 2008 (Leitin að uppruna lífs, líf á jörð, líf í alheimi - Bjartur). Bókin hefur ekki fengið mikla umfjöllun hérlendis, þrátt fyrir að vera tilnefnd til verðlauna Hagþenkis. Atli Harðarson birti þó lofsamlega umsögn um bókina.

Sjá einnig grein Guðmundar í Náttúrufræðingnum, endurprentuð á Stjörnufræðivefnum.

Erindið verður kl 13:00 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ, stofu 132 og er öllum opið, engin aðgangseyrir.

Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í tilefni afmælis Charles Darwins, sjá dagskránna á darwin.hi.is.

 

  

Þátturinn hefst venju samkvæmt klukkan 17 á Útvarpi Sögu. Hann verður svo aðgengilegur á vefnum degi síðar... vonandi, það hefur víst stundum klikkað.

----

Á morgun flýgur MESSENGER geimfarið framhjá Merkúríusi í þriðja sinn á leið sinni til þessarar innstu reikistjörnu sólkerfisins. Með framhjáfluginu minnkar hraði MESSENGER nógu mikið til þess að geimfarið komist á braut um Merkúríus árið 2011. MESSENGER tók þessa fallegu mynd hér fyrir neðan af Merkúríusi þann 27. september síðastliðinn úr 672.000 km fjarlægð, 55 klukkustundum fyrir framhjáflugið.


Carolyn Porco flýgur með okkur til Satúrnusar

Maður þreytist aldrei á að tala um Satúrnus, sjálfan hringadróttinn. Hef ekki enn jafnað mig á þessari ótrúlegu ljósmynd af Satúrnusi.

Í gær rakst ég á fróðlegt viðtal við Dr. Carolyn Porco í New York Times. Þessi kjarnakona er aðalvísindamaðurinn í myndahópi Cassini geimfarsins. Hún var einmitt líka þátttakandi í Voyager verkefnunum (þar sem hún kynntist meistara Carl Sagan) og er líka hluti af New Horizons rannsóknarhópnum, en eins og einhverjir vita kemur New Horizons til Plútó árið 2015 (úff, get ekki beðið). Lokaorð viðtalsins eru eins og töluð úr mínu hjarta:

“To my mind,” Dr. Porco said, “most people go through life recoiling from its best parts. They miss the enrichment that just a basic knowledge of the physical world can bring to the most ordinary experiences. It’s like there’s a pulsating, hidden world, governed by ancient laws and principles, underlying everything around us — from the movements of electrical charges to the motions of the planets — and most people are completely unaware of it.

“To me, that’s a shame.”

Algjörlega. Fólk fer á mis við svo margt fallegt og stórbrotið sem vísindin hafa kennt okkur. 

Í viðtalinu er vísað á fyrirlestur sem hún hélt á vegum TED um ferðalag Cassini geimfarsins. Mæli eindregið með því að þið gefið ykkur um 20 mínútur til að horfa á hann.


(Botna ekkert í því hvers vegna þetta drasl hér fyrir ofan virkar ekki. Hér er alla vega hlekkur á fyrirlesturinn http://www.ted.com/index.php/talks/carolyn_porco_flies_us_to_saturn.html )

Þess má geta að Carolyn Porco var ein þeirra sem til greina kom að bjóða til Íslands í tilefni af alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar. Ein ástæðan er sú að hún er algjörlega frábær fyrirmynd stúlkna sem dreymir um að verða vísindamenn. Það var reyndar fyrir gengishrun og því gátum við því miður ekki boðið henni hingað til lands. Kannski á næsta ári, hver veit?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband