Baráttan fyrir bættri lýsingu

Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að fylgjast með baráttunni fyrir bættri lýsingu hérna í Alberta í Kanada. Í borginni Edmonton (þar sem ég bý í augnablikinu) og í nágrannasveitarfélögunum býr um ein milljón manna. Borgin er miðstöð fyrir olíuiðnaðinn í Alberta og það þarf því ekki að koma á óvart að hér hafi hingað til lítið verið hugað að orkusparnaði, ekki frekar en heima á gamla, góða Íslandi.

ljósmengun á jörðinni
Samsett heimskort sem sýnir jörðuna að nóttu til. Örvarnar benda á Edmonton í Kanada og á Reykjavík á Íslandi en báðar borgirnar sjást greinilega á kortinu. (Hér er slóð á upphaflegu myndina.)

Ein af birtingarmyndum þessarar orkusóunar er illa hönnuð lýsing úti um alla borg. Sem dæmi má nefna bílasölu sem er við sömu götu og ég bý við. Ljósastaurarnir og auglýsingaskiltið lýsa upp hálft hverfið, m.a. gluggana okkar sem búum á 9. hæð í blokk í nokkur hundruð metra fjarlægð! Þetta ástand minnir ískyggilega á íþróttavellina á höfuðborgarsvæðinu sem lýsa upp heilu og hálfu hverfin að kvöldlagi.

Íþróttasvæði Stjörnunnar í Garðabænum
Íþróttasvæði Stjörnunnar í Garðabænum. Myndin er tekin á bílastæði langt fyrir utan sjálfan fótboltavöllinn! Ljósmynd: Sævar Helgi Bragason

Fjölmargar bílasölur, verslana- og iðnaðarsvæði, olíuhreinsistöðvar og illa hönnuð götulýsingu eiga stærstan þátt í því að appelsínugulur ljósahjálmur myndast yfir Edmonton að kvöld- og næturlagi. Ég fór í smá könnunarleiðangur um daginn til þess að áætla fjölda stjarna á himninum yfir útivistarsvæði nálægt miðborg Edmonton. Út frá daufustu stjörnunum sem ég sá (birtustig +4,45) má áætla að alls sé hægt að sjá um 250 stjörnur á himinum. Það er talsvert minna en þær 1600 stjörnur sem sjást á heiðskírum himni þar sem ekki gætir ljósmengungar! Sömu niðurstöður fást frá stjörnustöðinni við Vísindasafnið (birtustig +4,5).

Athuganir sem ég hef gert í grennd við miðborg Reykjavíkur benda til þess að ástandið þar sé lítið skárra en í Edmonton þótt íbúar séu miklu færri. Ég þarf samt fleiri athuganir áður en ég get farið út í nákvæmari samanburð.

Í lokin má ég til með að benda á stutta grein um ljósmengun á Stjörnufræðivefnum. Einnig höfum við sett saman stuttan bækling um ljósmengun á Íslandi (pdf-skjal 850 kb) sem greinir frá vandanum og leiðum til úrbóta.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband