Mynd vikunnar: Skilnaður stjörnufjölskyldu

potw1111a_1069489.jpg

Flestar kúluþyrpingar sem sveima umhverfis Vetrarbrautina okkar hafa kjarna sem eru þéttskipaðir stjörnum. NGC 288 er hins vegar ein fárra þar sem stjörnurnar eru ekki eins bundnar af þyngdarkrafti hver annarrar og þyrpingin því laus í sér. Þessi nýja mynd frá Advanced Camera for Surveys á Hubble geimsjónauka NASA og ESA sýnir fullkomlega stjörnurnar í kjarna NGC 288.

Litir og birta stjarnanna gefur okkur vísbendingar um hvernig þær hafa þróast í þyrpingunni. Litlu daufu ljóspunktarnir á myndinni eru venjulega lágmassastjörnur sem brenna enn vetni í kjörnum sínum líkt og sólin okkar gerir. Bjartari stjörnum má skipta í tvo hópa: gulleitar stjörnur eru rauðir risar á seinni hluta æviskeiðs síns og eru nú stærri og bjartari en kaldari. Björtu bláu stjörnurnar eru enn massameiri sem ekki eru lengur á rauða risaskeiði sínu og eru knúnar áfram af helíumsamruna í kjarna sínum.

Stjörnur í kúluþyrpingum verða til nánast samtímis úr sama gasskýinu. Því má segja að hér sé um að ræða eina stjörnufjölskyldu. Hins vegar telja stjarneðlisfræðingar að í þyrpingum sem eru ekki eins þéttskipaðar, líkt og NGC 288, geti stjörnurnar dreift sér og að lokum farið hver í sína áttina.

NGC 288 er að finna í tiltölulega lítt þekktu stjörnumerki á suðurhimni sem nefnist Myndhöggvarinn. Hún er í um 30.000 ljósára fjarlægð frá sólinni. Í Myndhöggvaranum er einnig að finna NGC 253 eða Myndhöggvaravetrarbrautina sem sést í sama sjónsviði með handsjónauka. Það var William Herschel sem uppgötvaði NGC 288 árið 1785 en hann áttaði sig líka á að um væri að ræða kúluþyrpingu sem í mætti greina stakar stjörnur.

Þessi mynd var búin til úr myndum sem teknar voru í gegnum mismunandi síur með Advanced Camera for Surveys á Hubble geimsjónaukanum. Myndir sem teknar voru í gegnum bláa síu voru litaðar bláar, appelsínugula síu grænar og nær-innrauða síu rauðar. Loks voru myndir sem sýna glóandi vetni litaðar appelsínugular. Heildarlýsingartími nam einni klukkustund.

Mynd vikunnar kemur frá NASA/ESA

Tengt efni


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband