Loftsteinadrífa nær hámarki í nótt - Curiosity fær sér að borða

Í nótt nær loftsteinadrífan Óríonítar hámarki.

Óríonítar er loftsteinadrífa í meðallagi sem stendur yfir frá 15. til 29. október ár hvert. Við hámarkið sjást venjulega í kringum 20 hraðfleygir loftsteinar á klukkustund en þeir geta verið fleiri sum ár.

Í nótt gætum við átt von á 20 til 30 stjörnuhröpum á klukkustund úr drífunni.

Óríoníta má rekja til rykslóðar sem halastjarnan Halley hefur skilið eftir sig á ferðalögum sínum inn í innra sólkerfið.

Þegar jörðin ferðast í gegnum rykslóðina verða mörg stjörnuhröp sem virðast stefna úr tilteknu stjörnumerki, í þessu tilviki við hlið Óríons, rétt fyrir ofan björtu, rauðu risastjörnuna Betelgás.

Óríon kemur upp á austurhiminn um klukkan 01:00 eftir miðnætti. Merkið er í hásuðri klukkan 07 í fyrramálið svo árrisulir ættu að líta til himins þá.

screen_shot_2012-10-20_at_12_40_32_pm.png

Á hverju ári verða margar loftsteinadrífur, sumar meira áberandi en aðrar. Hér má sjá töflu yfir helstu drífur sem sjást frá Íslandi.

Curiosity fær sér að borða

Síðustu tvær vikur hefur Curiosity verið að störfum við Rocknest, litla sandöldu á Glenelg svæðinu. Þar breiddi jeppinn út tækjaarm sinn og tók fyrstu skóflustungurnar á Mars.

grotzinger-1pia16231-br2.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech

Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan voru þrjár skóflustungur teknar. Fyrstu tvö sýnin voru notuð til að hreinsa skófluna af óhreinindum sem bárust frá jörðinni eins og ég lýsti í eldri færslu en þar var einnig fjallað um einkennilegan bjartan hlut sem sást fyrir neðan jeppann.

Þetta ferli tók lengri tíma en búist var við vegna ljósa fyrirbærisins sem sést á myndinni hér undir (það er um einn millímetri að stærð). Menn voru ekki vissir um hvort þetta fyrirbæri tilheyrði jeppanum eða væri upprunalega frá Mars.

grotzinger-3pia16233-br2.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Eftir nokkra yfirlegu og rannsóknir var komist að þeirri niðurstöðu að um efni frá Mars væri að ræða, hugsanlega ljóst sandkorn. Á næstunni verður ChemCam leysigeislanum skotið á efnið til að kanna samsetningu þess.

Þriðja sýnið var síðan flutt inn CheMin, aðra af tveimur tilraunastofum í skrokki jeppans, CheMin stendur fyrir Chemistry & Mineralogy og er, eins og nafnið bendir til, efna- og steindagreiningartæki. Tækið mælir efnasamsetningu bergs og jarðvegs með því að skjóta röntgengeislum á sýnin.

0071ml0423000000e1_dxxx.jpg

Þetta er fínasta efnið sem Curiosity kannar á Mars. Það er að mestu sandur og silt sem gæti hafa borist langt að með vindinum á Mars, til dæmis í miklum sandstormum sem umlykja oft alla reikistjörnuna.

Á næstu dögum verður annað sýni svo sett í SAM, Sample Analysis at Mars, hina tilraunastofu jeppans. SAM getur greint lífræn efni og gastegundir í lofthjúpnum og af yfirborðinu.

Nánar að því síðar!

- Sævar Helgi


mbl.is Hvítur hlutur á Mars vekur forvitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þetta ekki kind.Mér sýnist það

josef asmundsson (IP-tala skráð) 20.10.2012 kl. 13:00

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Nei þetta er að sjálfsögðu ísbjörn. ;)

Guðmundur Ásgeirsson, 20.10.2012 kl. 13:43

3 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Spennandi að fylgjast með þessu.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 20.10.2012 kl. 14:16

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Eru menn nú hættir að þekkja rjúpuna?

Árni Gunnarsson, 20.10.2012 kl. 19:37

5 identicon

Í vetrarbúningi

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 20.10.2012 kl. 23:47

6 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Fuglslegt!!

Helga Kristjánsdóttir, 21.10.2012 kl. 11:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband