Stjörnuteiti með vísundum á Elgseyju

Ég fór í fyrsta stjörnuteitið mitt hér í Kanada í gær. Það verður ekki annað sagt en að staðsetningin hafi verið falleg við vatn í Elk Island Park þjóðgarðinum um 60 km austur af Edmonton. Ég hef tekið þátt í allmörgum stjörnuteitum á Íslandi sem hafa yfirleitt heppnast vel. Það var því mjög forvitnilegt fyrir mig að sjá hvernig stórt og gamalgróið félag stæði að málum.


Það var heilmikil dagskrá til viðbótar við sjálfa stjörnuskoðunina. Í garðinum er leikhús þar sem hægt er að vera með viðburði innandyra. Það hefur reynst vel því septembervindar hafa ekki blásið mjög byrlega þau þrjú ár sem þetta stjörnuteitið hefur verið haldið. Þetta ár reyndist engin undantekning því aflýsa þurfti öllu um tíuleytið þegar skall á stormur á svæðinu.


Staðarhaldarar í Elk Island Park hafa markvissa stefnu um að halda lýsingu í lágmarki og eru að vinna að því að verða alþjóðlegt verndarsvæði fyrir nátthiminn (International Dark Sky Reserve). Því var vel við hæfi að Peter Strasser, framkvæmdastjóri hjá International Dark Sky Association, hæfi dagskrána innandyra á erindi um ljósmengun og hvernig hægt sé að bæta lýsingu svo stjörnuhimininn hverfi ekki í ljósahafinu. Ég hafði áður verið á tveimur fyrirlestrum hjá Peter á föstudaginn svo efnið var kunnulegt en aldrei er góð vísa of oft kveðin! Blogga um þessi mál og boðskap Peters við tækifæri.


Ýmislegt fleira var á dagskrá í leikhúsinu s.s. fyrirlestur um leðurblökur sem lauk með því að öll krakkahersingin á staðnum fór út og bjó til leðurblökur úr pappa. Úti var einnig að finna málara sem vann að málverki sem tengdist stjörnuhimninum. Þetta var stórfengleg upplifun fyrir mig og mér leið eins og ég væri að koma í kaupstað í fyrsta sinn.

Stoltur málari við trönurnar


Í miðri dagskránni innandyra kom öryggistilkynning frá umsjónarmönnum garðsins. Þau sögðu frá því að það væri vísundur á svæðinu og að fólk ætti að halda sig í hæfilegri fjarlægð (100 m). Ég missti af því öllu saman en sá þó nokkra vísunda í fjarlægð þegar ég kom inn í garðinn. Það var í fyrsta skipti sem ég hef séð þá skepnu.


Ég mætti stoltur með minn eigin sjónauka sem kostaði 50 kanadíska dollara og kemst fyrir í litlum bakpoka. Var mjög spenntur fyrir að sjá sjónauka félagsmanna og varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum! Stærstu sjónaukarnir á svæðinu voru líklega tveir heimasmíðaðir sjónaukar sem eru 16" og 12,5". Ég held að ég hafi ekki litið í heimasmíðaðan sjónauka áður svo það var stór stund fyrir mig að kíkja á Júpíter og tunglið í sjónaukunum. Stærri sjónaukinn er í eigu Dennis sem smíðaði báða sjónaukana en hinn á annar reyndur félagsmaður sem nefnist Larry.

Þeir Larry og Dennis eru miklir stjörnuskoðunarkumpánar og fara oft saman út fyrir borgina til þess að skoða næturhimininn. Þeir reyna að sjá eins dauf fyrirbæri og sjónaukarnir leyfa sem er býsna mikið.  Larry hefur sagt mér nokkrar sögur af afrekum þeirra og að hann hafi náð að sjá fyrirbæri sem er um 20x daufara en Plútó (af birtustigi +17,3)! Ég hef reynt að sjá Plútó í stórum áhugamannasjónauka í Chile en gat ekki áttað mig á því hvar fallna reikistjarnan var í öllu stjörnugerinu.


Hér fylgja tvær myndir til viðbótar. Önnur er af mér og Mr. Spock í Vúlkanatjaldinu, en ferðamálayfirvöld frá bænum Vúlkan í Alberta voru með kynningu á staðnum með tilheyrandi Star Trek glensi.

Sverrir og Dr. Spock


Hin myndin er af sjónaukanum mínum og 16" sjónaukanum hans Dennis. Þeir kappar, Dennis og Larry, segja að það taki samt bara nokkrar mínútur að setja upp stóru sjónaukana. Sem fyrr segir fékk stjörnuteitið í gær snöggan endi þegar stormur skall á eins og hendi væri veifið. Það var ekki annað að sjá en þeir væru mjög snöggir að taka niður sjónaukana og skella þeim inn í bíl á nokkrum mínútum. Á myndinni má einnig sjá áltröppur en þær eru notaðar þegar þarf að skoða fyrirbæri sem eru hátt á lofti í svona risasjónaukum.

Sjónaukinn minn og 16

Ég er strax farinn að hlakka til næsta stjörnuteitis sem verður eftir hálfan mánuð. Það nefnist Norhern Prairie Starfest. Þá verður nýtt tungl og skilyrði til stjörnuskoðunar vonandi eins og best verður á kosið. Einn af fyrirlestrunum sem verða þar á dagskrá mun fjalla um stjörnufræði á Íslandi. Meira af því síðar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband