Stjörnubjart í Reykjavík allt árið

Ég byrjaði á litlu „stjörnuskoðunarverkefni“ í vor undir yfirskriftinni „Hve lengi sjást stjörnur úr Reykjavík á vorin?“. Það sem kom mér af stað voru þrjár athuganir frá mér og öðrum félaga í Stjörnuskoðunarfélaginu undanfarin sumur: 

1) Síðasta sumar kom ég auga á tvær stjörnur á himninum í kringum miðnætti 13. júlí (Vega í Hörpunni og Altair í Erninum).

2) Þremur árum áður hafði Hermann Hafsteinsson komið auga á þriðju stjörnuna (Arktúrus í Hjarðmanninum) sama dag 13. júlí 2007.

3) Ég gat rétt svo séð Karlsvagninn þann 15. maí 2009 þótt það væri orðið vel bjart yfir hánóttina.

Mér fannst því forvitnilegt að athuga hve lengi væri hægt að sjá stjörnur núna í vor og hélt dagbók yfir athuganir mínar á spjallborði Stjörnuskoðunarfélagsins.

Niðurstöður athuganna

Það kom mér mjög á óvart að ég gat séð stjörnur í síðari hluta maí og enn meira á óvart að þær sáust ennþá þótt komið væri fram í júní (sá Arktúrus í Hjarðmanninum 3. júní). Stjörnuskoðunarverkefninu lauk aðfaranótt mánudagsins 20. júní en þá kom ég bæði auga á Arktúrus og Vegu í Hörpunni um hánóttina eftir nokkurra mínútna leit. Þar með er það komið á hreint að hægt er að sjá a.m.k. tvær stjörnur að næturlagi frá Reykjavík allt árið!

Hér er dagbók verkefnisins á spjallsvæði Stjörnuskoðunarfélagsins: http://korkur.astro.is/viewtopic.php?f=1&t=805

Að neðan er kort sem sýnir á hvaða svæði er líklegt að stjörnur sjáist frá Íslandi. Ég er nokkuð viss um að það sé einnig hægt að sjá stjörnur frá Akranesi í kringum miðnætti á sumarsólstöðum. Ég er hins vegar ekki jafnviss um að hægt sé að finna stjörnurnar á himninum í Borgarnesi því þar fer sólin ekki jafnlangt niður fyrir sjóndeildarhringinn eins og í Reykjavík. Það er verðugt verkefni að finna út úr því hve norðarlega er hægt að fara svo stjörnurnar sjáist.
Hvar sjást stjörnur allt árið? 
 

Stjörnukort fyrir útlönd í júní (Suður-Evrópu og Bandaríkin)

 

Á hverju sumri setjum við inn stjörnukort fyrir Íslendinga sem ferðast suður á bóginn til Suður-Evrópu eða Bandaríkjanna. Nú er hægt að sækja stjörnukort fyrir júlí og júní.

Stjörnuskoðun í júní 2011

-Sverrir

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Sverrir

Svo má ekki gleyma því að blessuð sólin okkar er stjarna eins og allar hinar :-)

Annars hef ég séð Venus nokkuð vel um hábjartan dag. Þá notaði ég Canon 15x50-IS handsónauka, en það mátti vel sjá reikistjörnuna með berum augum ef maður vissi hvar hún átti að vera.

Venus sá ég slíka sem skuggamynd þegar hún gekk fyrir sólu hér um árið. Tók mynd af því með venjulegri myndavél.  Sjá hér.

Í bæði skiptin var þetta um miðjan dag.

Með góðri kveðju, 

Ágúst H Bjarnason, 24.6.2011 kl. 09:04

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Já, Venus sést auðvitað líka um hábjartan dag. Svo sá ég halastjörnu McNaught um hábjartan dag líka árið 2007.

En í ágúst í fyrra var ég staddur á Vestfjörðum og sá þá Vegu um hábjartan dag. Hringdi í Sverri til að staðfesta að stjarna væri á þessum stað á himninum og gerði hann það. Einnig sá annar félagi minn Vegu líka svo það er staðfest.

Þetta er afskaplega skemmtilegt verkefni hjá Sverri.

- Sævar

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 24.6.2011 kl. 13:19

3 identicon

Sæll Ágúst.

Já, mér var einmitt oft hugsað til sólarinnar þegar ég var í stjörnuskoðun núna í vor. Er núna í fríi á Akureyri og fór út í Múla og í Héðinsfjörð til þess að reyna að sjá miðnætursólina en skýin skyggðu á hana.

Vona að ég eða einhver annar hafi tækifæri til þess að halda áfram með þetta verkefni, þ.e. að staðfesta þessar athuganir og reyna að komast að því hve langt norður er hægt að fara svo enn sjáist stjörnur um mitt sumar. Svo er ýmislegt annað sem hægt er að velta fyrir sér, t.d. hvenær stjörnur fara að sjást á Akureyri eða Þingeyri? Um að gera að reyna að nota sumarið í sól- eða stjörnuskoðun.

Bestu kveðjur,

Sverrir

Sverrir Gudmundsson (IP-tala skráð) 25.6.2011 kl. 00:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband