Dvergvetrarbraut og kúluþyrping

potw1126a.jpg

Hér sést ein nálægasta stjörnuþoka eða vetrarbraut við jörðina, dvergsporvalan í stjörnumerkinu Kilinum. Þokan er dauf og svo dreifð að stjörnufræðingar fundu hana ekki fyrr en á áttunda áratug 20. aldar. Dvergsporvalan er fylgivetrarbraut okkar og ber mörg einkenni kúluþyrpinga og miklu stærri vetrarbrauta.

Stjörnufræðingar álíta að dvergsporvölur eins og Kjalardvergurinn séu mjög algengar í alheiminum en mjög erfitt er að koma auga á þær. Þær eru það daufar og dreifðar á himninum að auðvelt er að horfa beint í gegnum þær. Á þessari mynd birtist Kjalardvergurinn sem margar stjörnur sem dreifast yfir miðja mynd. Erfitt er að sjá hvaða stjörnur tilheyra dvergvetrarbrautinni og hverjar eru stjörnur í forgrunni úr Vetrarbrautinni okkar. Jafnvel enn fjarlægari stjörnuþokur skjóta upp kollinum hér og þar.

Í Kjalardvergnum eru stjörnur af ýmsum aldri sem virðast hafa myndast í hrinum á milli mjög rólegra tímabila sem stóðu yfir í nokkra milljarðar ára. Þokan er í 300.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni og er því mun fjarlægari en Magellanskýin (nálægustu vetrarbrautirnar) en miklu nær okkur en Andrómeduþokan, nálægasta þyrilþokan.

Þrátt fyrir smæðina er Kjalardvergurinn tiltölulega stór á himninum sökum nálægðar sinnar við okkur, eða rétt um helmingur fulls tungls en auðvitað miklu daufari. Þótt myndin sé ekki stórbrotin er hún líklega sú besta sem tekin hefur verið af Kjalardvergnum hingað til. Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla og 4 metra Victor M. Blanco sjónaukanum í stjörnustöðinni á Cerro Tololo í Chile.

Mynd: ESO/G. Bono & CTIO (potw1126)

----

Aragrúi stjarna við miðju Vetrarbrautarinnar

potw1126a_1093843.jpg

Mynd vikunnar frá Hubble að þessu sinni er af kúluþyrpingunni Djorgovski 1. Hún er nálægt miðju Vetrarbrautarinnar og fannst því ekki fyrr en árið 1987, tíu árum eftir að dvergsporvalan hér að ofan fannst.

Sjá nánar http://www.stjornuskodun.is/mynd-vikunnar/nr/449

- Sævar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband