1.2.2008 | 13:05
Gamla konan á Mars
Fyrir nokkrum dögum birtust fréttir um agnarsmáan Marsbúa. Ég setti ranga mynd inn á vefinn en er nú búinn að laga það. Færslan og myndin er hér neðar á þessari síðu.
En það er ýmislegt annað forvitnilegt sem sést á Mars. Á mynd sem Spirit-jeppinn tók á leið sinni upp Husband-hæðina sést steinn sem lítur út eins og gömul kona með einhvers konar höfuðfat og skykkju, á rölti upp hæðina, hugsanlega á leið að hitta Marsbúann agnarsmáa:
Ég vona að allir sjái umrædda konu; það þarf að minnsta kosti ekki mikið ímyndunarafl til þess. Upprunalega myndin er hins vegar að finna hér og gamla konan er vinstra meginn á myndinni, frekar smávaxin eins og Marsbúinn ógurlegi.
Missýn er magnað fyrirbæri. Við erum svo ótrúlega góð að sjá kunnugleg mynstur úr ótrúlegustu hlutum.
- Sævar
30.1.2008 | 16:06
Smástirni hafa komist nær og munu komast nær
Smástirnið sem um ræðir kallast 2007 TU24 og var næstum tvöfalt lengra frá jörðu en tunglið okkar er (meðalfjarlægðin til tunglsins er 385.000 km). Smástirnið er um 250 metrar í þvermál og hefði vitaskuld getað valdið skaða ef það hefði rekist á jörðina. Þá hefði 10 km breiður gígur myndast, orka losnað á við fimm kjarnorkusprengjur og jarðskjálfti upp á 7 á Richter orðið. Ryk hefði þyrlast upp í lofthjúpinn, dreifst yfir hnöttinn og sennilega valdið einhverri lítillegri kólnum á lofthita um stutta hríð. Tunglmyrkvinn sem verður aðfaranótt 21. febrúar myndi þá líklega ekki vera blóðrauður og fallegur heldur dimmur og dökkur.
Það er kannski orðum aukið að stjörnuáhugamönnum hafi gefist kostur á að sjá það í sjónaukum sínum því það var frekar dauft. Bandarískur stjörnuáhugamaður náði þessum fínu myndum af smástirnu þjóta yfir himinninn (ath, þetta gerist miklu hægar í raunveruleikanum) með 14 tommu sjónaukanum sínum.
Það sem stjörnufræðingum þykir einna helst merkilegast við þetta er stærð smástirnisins en ekki fjarlægðin þegar það komst næst jörðinni. Í mínum huga og huga flestra stjörnufræðinga er 538.000 km fjarlægð nokkuð langt frá jörðinni. Þessi mynd hér fyrir neðan, sem geimfarið MESSENGER tók, sýnir nokkurn veginn hvernig jörðin og tunglið hefðu birst geimfara á yfirborði þess (jörðin og tunglið hefðu sennilega verið örlítið stærri í rauninni).
Eins og sjá má er þetta ansi fjarlægt og ekki nokkur hætta á árekstri. Til að gera okkur örlitla grein fyrir fjarlægðinni skulum við hugsa okkur hefðbundið hnattlíkan. Ef jörðin er á stærð við hnattlíkan, eins og það sem er að finna í sumum skólastofum, er tunglið á stærð við golfkúlu (örlítið stærra) í tæplega 9 metra fjarlægð. Smástirnið væri þá á stærð við sandkorn í nálega 15 metra fjarlægð!
Fjöldi smástirna svífur framhjá okkur mörgum sinnum á ári, sum nær en önnur. Í fyrra svifu að minnsta kosti 17 smástirni framhjá okkur milli jarðar og tungls! Það kalla ég nálægt! Þessi smástirni voru hins vegar það smá að ekkert þeirra hefði þó valdið miklum skaða ef þau hefðu rekist á jörðina.
Smástirnið Apófis er aftur á móti nokkuð sem við ættum að fylgjast vel með!
Að lokum minni ég enn og aftur á námskeiðið í stjörnufræði og stjörnuskoðun sem við stöndum fyrir ásamt Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness. Fyrra námskeiðið tókst frábærlega og fékk mjög góðar viðtökur. Enn eru nokkur pláss laus og ætti allt stjörnuáhugafólk ekki að láta þetta framhjá sér fara.
![]() |
Smástirni fór framhjá jörðinni í 500.000 km fjarlægð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.1.2008 | 15:14
Svarthol fyrir lengra komna
Vissulega þekkjast massamikil risasvarthol í miðju margra vetrarbrauta, líkast til einnig í okkar eigin Vetrarbraut. Myndunarsaga þessara risasvarthola er enn þann dag í dag mikil ráðgáta. Helsta rangfærsla fréttarinnar er sú að svartholið er alls ekki 18 milljörðum sinnum stærra en sólin helfur 18 milljörðum sinnum massameira.
Ennfremur má árétta að uppgötvunin á færslu sporbrautanna er ekki sönnun á almennu afstæðiskenningunni heldur sönnunargagn eða styrking. Það er lítið um sannanir í eðlisfræði. Þetta er aftur á móti enn ein perlan í safn kenningarinnar.
Í síðasta lagi má nefna að svartholið er ekki aðeins í mikilli fjarlægð frá sólkerfinu okkar heldur í mikilli fjarlægð frá Vetrarbraut okkar. 3,5 milljarðar ljósára er virkilega stór fjarlægð meira að segja á stjarnfræðilegum skala (25% af fjarlægðinni út að endimörkum okkar sýnilega alheims). Þessi dulstirni eru í raun vetrarbrautir sem innihalda risasvarthol sem er í óða önn að gleypa til sín efni.
Við hjá stjornuskodun.is höfum tamið okkur að nota orðið vetrarbraut í stað stjörnuþoka. Hið síðarnefnda er notað fyrir margs konar fyrirbæri og er ruglingslegt í notkun. Ég minni á námskeið Stjörnuskoðunarfélagsins í stjörnufræði og stjörnuskoðun (www.astro.is).
Þótt þýðingar fréttanna séu stundum slakar þá fagna ég því að mbl beri okkur fréttir af undursamlegum alheimi okkar.
![]() |
Gríðarstórt svarthol fundið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
25.1.2008 | 12:09
Agnarsmár Marsbúi
"Marsbúinn" á myndinni lítur út fyrir að vera stór þegar maður hefur ekkert til að miða við. Staðreyndin er sú að þarna er um að ræða stein, örstutt frá Marsjeppanum Spirit í Kólumbíuhæðum í Gúsevgígnum á Mars. Myndin er hluti af stórri panoramamynd sem sést hér fyrir neðan:
Það finnur sennilega enginn Marsbúan agnarsmáa á þessari mynd. Í forgrunni er Marsjeppinn Spirit, rykugur eftir erfiðan rykstorm á Mars. Hann er á stærð við golfbíl eða svo. Hér getur þú aftur á móti séð stærri mynd þar sem búið er að merkja inn staðinn þar sem hann er.
Marsjepparnir Spirit og Opportunity lentu á Mars snemma árs 2004 og hafa því verið í fjögur jarðarár á yfirborði reikistjörnunnar eða tæplega tvö Marsár. Hæðin sem Spirit jeppinn ekur um þessa dagan er nefnd til minningar um þá geimfara sem létust um borð í Kólumbíu geimferjunni árið 2003 á leið til jarðar.
Í maí á þessu ári bætist nýtt geimfar við Marsflotann sem nú er að rannsaka Mars. Lendingarfarið Phoenix á að lenda við norðurpól Mars og rannsaka það sem þar er að finna. Spennó!
![]() |
Marsbúi eða garðálfur? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 1.2.2008 kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.1.2008 | 14:07
Námskeið í stjörnufræði og stjörnuskoðun
Kannski kominn tími til að endurlífga þetta blogg.
Nú í janúar og febrúar stöndum við fyrir námskeiðum í stjörnufræði og stjörnuskoðun ásamt Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness. Við héldum fyrst námskeið í september sem tókst vonum framar og hyggjumst endurtaka leikinn í þrígang núna. Fyrst verðum við með barna- og unglinganámskeið helgina 19. og 20. janúar milli klukkan 14 og 16 báða dagana. Á barnanámskeiðinu verður Snævarr Guðmundsson með Stjörnuverið en þannig getum við sýnt krökkunum hvernig himinninn lítur út, alveg eins og við værum úti að skoða hinn raunverulega himinn. Þetta er mjög öflugt kennslutæki sem Snævarr hefur farið með í fjölmarga grunn- og framhaldsskóla við góðar undirtektir. Seinni hluti barnanámskeiðsins er svo stjörnuskoðun en þá bjóðum við öllum krökkunum að koma með eigin stjörnusjónauka og læra á hann undir stjörnunum. Við munum þá kenna krökkunum að finna Satúrnus eða hvað það er sem krakkarnir vilja sjá. Þetta er mjög skemmtilegt og gagnlegt námskeið og kostar 5000 krónur fyrir barn og eitt foreldri saman.
Fullorðinsnámskeiðin eru aftur með öðru sniði. Þau standa yfir frá 22. til 24. janúar og svo aftur 5. til 7. janúar. Fyrstu tvö kvöldin eru hugsuð í kennslu innandyra með fyrirlestrum. Þriðja kvöldið er svo hugsað sem stjörnuskoðun þar sem fólk fær "hands-on" reynslu með sínar eigin græjur. Ætlunin er að kenna fólki að finna fyrirbæri á himninum, hvernig það á að búa sig og hvað gaman er að skoða með þeirra eigin stjörnusjónaukum. Við teljum þetta námskeið einstaklega gagnlegt fyrir alla stjörnuáhugamenn og kostar það 10.000 krónur á hvern einstakling.
Það er alls engin skylda að eiga stjörnusjónauka til að koma á þessi námskeið. Allt sem þarf er áhugi á stjörnufræði og stjörnuskoðun og vilji til að læra. Nánari upplýsingar um þetta námskeið er að finna á heimasíðu Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness http://www.astro.is
Ég hvet alla sem áhuga hafa til að mæta á þessi stórskemmtilegu og gagnlegu námskeið.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.8.2007 | 10:24
Mars verður EKKI eins stór og tunglið í kvöld
Þessi frétt dúkkar upp á hverju einasta ári. Þetta er fjórða árið í röð sem Mars á að vera jafn stór á himninum og tunglið. Þetta er aftur líka fjórða árið í röð sem Mars verður EKKI jafn stór og tunglið.
Mars getur aldrei orðið jafn stór og tunglið á himninum. Hann er alltof fjarlægur til þess. Það væri líka mjög slæmt ef svo væri en örugglega mjög tilkomumikið á næturhimninum.
Mars er mjög langt frá jörðu um þessar mundir en er að nálgast jörðu. Hann verður jólastjarnan á þessu ári og verður næst jörðu 18. desember. Mars verður þá staddur í Tvíburamerkinu en í 88 milljón km fjarlægð frá jörðu, þá miklu daufari en tunglið.
Til þess að sjá Mars vel verður maður að eiga góðan stjörnusjónauka. Þótt Mars sé stundum nálægt jörðu, en þó aldrei nær en tæplega 56 milljón km fjarlægð, er hann meðal erfiðustu reikistjarna í stjörnuskoðun. Mars er nefnilega frekar lítil reikistjarna, helmingi minni en jörðin og mjög langt í burtu. Öll smáatriði eru því lítil á Mars séð í gegnum sjónauka. Samt getur verið ótrúlega gaman að skoða hann. Ég hef séð Olympusfjall, pólhetturnar, ský og fleira á Mars með sjónaukanum mínum.
Endilega komið þessum skilaboðum áleiðis til fólks og leiðréttið þennan leiða misskilning. Þrátt fyrir allt, þá skal ég lofa ykkur að þetta rugl kemur fram aftur á næsta ári.
Á þessari slóð er hægt að finna upplýsingar um stjörnuathuganir á Mars
http://www.stjornuskodun.is/vefur/stjornuskodun/ad_skoda_mars.html
p.s. Ég vil minna á stjörnuskoðunarnámskeið Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og Stjörnufræðivefsins sem fram fer 11-13. september. Sjá nánar á vefsíðu félagsins, http://www.astro.is. Það fer hver að verða síðastur að skrá sig á námskeiðið.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.7.2007 | 12:40
Ferðalag um Suður-Ameríku
Mælum með því!
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.6.2007 | 14:01
Norræni stjörnusjónaukinn
19.6.2007 | 00:25
Sólskoðun
Stjörnufræðivefurinn og Stjörnuskoðunarfélagið stóðu fyrir sólskoðun á Austurvelli 17. júní. Það var skýjað með köflum en sólin sýndi sig inn á milli, samtals í u.þ.b. tvo tíma. Þótt engir sólblettir hafi verið til staðar var fólk ánægt með að fá að skoða lífgjafann okkar.
Við förum alltaf út öðru hverju í sólskoðun og munum við láta vita hér á blogginu hvenær og hvar við munum koma til með að stilla upp (ef fólk vill kíkja). Það getur verið stuttur fyrirvari. Á stjörnufræðivefnum má finna upplýsingar um hvernig á að skoða sólina.
14.6.2007 | 10:54
Geimferjurnar umdeildar
Geimferjuátætlun Bandaríkjamanna og alþjóðlega geimstöðin hafa verið umdeild frá upphafi. Það er ákveðin viðurkenning fyrir mannskepnuna að geta lifað utan jarðar í lengri tíma en hvaða vísindalegur ávinningur er af geimstöðinni til lengri tíma?
Margir Bandarískir vísindamenn vilja meina að geimferjuáætlunin sé tóm peningasóun. Hún étur upp ótrúlegar peningaupphæðir meðan önnur verkefni sitja á hakanum og fá ekki fjárveitingu þ.á.m. TPF sem á að leita að öðrum jörðum. Þessir vísindamenn benda á að þótt geimtæknin hafi eflist og margar smátilraunir gerðar í geimstöðinni að þá hljóti menn að spurja sig: Hvað viljum við svo? Aðra mannaða ferð til Tunglsins? Til hvers? Hvað með Mars?
Bandaríkjamenn hefðu t.d. getað verið búnir að koma sér upp stærsta agnahraðli heims SSC (Superconducting Supercollider) sem fékk ekki fjárveitingu vegna geimstöðvarinnar. Nú styttist hins vegar í að CERN stofnunin í Sviss taki í notkun stærsta agnahraðal heims LHC (Large Hadron Collider) sem mun varpa ljósi á öreindirnar sem byggja upp heiminn okkar. (Las einhver Angels&Deamons ?)
Hvað finnst ykkur?
![]() |
Geimfarar Atlantis leggja í aðra geimgöngu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |