Nýr og endurbættur Stjörnufræðivefur

Við höfum nú opnað nýjan og endurbættan Stjörnufræðivef á sömu gömlu og góðu slóðinni: www.stjornuskodun.is. Búið er að setja inn fullt af nýju efni, m.a. um sólkerfið, stjörnuskoðun og stjörnumerkin (og margt fleira). Uppsetning greina tekur miklu skemmri tíma í nýja vefkerfinu heldur en í því gamla þar sem við notuðumst við html. Við munum því yfirleitt notast við sjálfan vefinn frekar en bloggið fyrir greinaskrif. Þó verða settar inn færslur hér sem tengjast fréttum og vísa á fréttir og greinar á Stjörnufræðivefnum.

Stjörnuspeki er bull

Eins og allir vita er ekkert mark takandi á stjörnuspekiruglinu. Fyrir utan þá staðreynd að sólin gengur í gegnum þrettán stjörnumerki en ekki tólf (eins og fólk heldur) þá geta stjörnuspár átt við hvern sem er. Tökum sem dæmi:

"Þú vilt óður betrumbæta á marga vegu sem eiga það allir sameiginlegt að snúast um greiðslukortið þitt. Þetta getur kostað sitt. Spurðust fyrir hjá vinum."

Það sjá allir að þetta á klárlega við um hvern einasta íslending sem fæddir eru í Ljósnmerkinu. Eða hvað? Þetta rugl getur átt við um hvern sem er. Hin raunverulega uppröðun dýrahringsins er svona:

  • Fiskarnir -- 12. mars til 18. apríl
  • Hrúturinn -- 19. apríl til 13. maí
  • Nautið -- 14. maí til 19. júní
  • Tvíburarnir -- 20. júní til 20. júlí
  • Krabbinn -- 21. júlí til 9. ágúst
  • Ljónið -- 10. ágúst til 15. september
  • Meyjan -- 16. september til 30. október
  • Vogin -- 31. október til 22. nóvember
  • Sporðdrekinn -- 23. nóvember til 29. nóvember
  • Naðurvaldi -- 30. nóvember til 17. desember
  • Bogmaðurinn -- 18. desember til 18. janúar
  • Steingeitin -- 19. janúar til 15. febrúar
  • Vatnsberinn -- 16. febrúar til 11. mars

Annað sem kemur fram í fréttinni, sem fer svona alveg í okkar fínustu, er að rugla saman stjörnuspekingum og stjörnufræðingum. Stjörnufræði er vísindi en stjörnuspeki er gervivísindi. Sá sem er stjörnufræðingur stundar vísindi, stjörnuspekingurinn ekki.

Ég endurtók eitt sinn fræga tilraun þar sem ég afhenti tíu manns stjörnuspá sem ég sagði að ætti við um hvern og einn. Þegar fólkið hafði lesið spánna, spurði ég hvort það væri eitthvað vit í þessu. Allir sögðu að ca. 80% ætti við um það og þetta passaði bara ansi vel. Þá benti ég öllum á að þetta væri stjörnuspá sem ætti að eiga við þekktan fjöldamorðingja. Mér líst ansi illa á það ef fólk líkist óþægilega mikið fjöldamorðingjum. 

Annars var Hitler fæddur 20. apríl og tilheyrði raunverulega Hrútnum.

- Sævar 


mbl.is Bretar rýndu í stjörnuspá Hitlers
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósmengun er stórt vandamál

Á síðustu árum hefur ljósmengun vaxið gríðarlega innan höfuðborgarsvæðisins, raunar svo mikið að nánast ómögulegt er að stunda stjörnuskoðun innan þess. Í ljósi þessarar þróunar hafa félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness leitað í síauknum mæli að aðstöðu fyrir utan höfuðborgarsvæðið, þar sem ljósmengun er í algjöru lágmarki og myrkur gott. Slíkir staðir eru vandfundnir í nágrenni höfuðborgarinnar. 

Undanfarin misseri hafa félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélaginu stundað stjörnuskoðun við Grænavatn í Krýsuvík með góðum árangri. Í Krýsuvík er myrkur með því besta sem gerist á suðurlandi og aðstæður þar oftast hinar ákjósanlegustu. Krýsuvík er nógu langt frá borg og bæjum til að ljósmengun frá þeim komi ekki í veg fyrir að daufustu vetrarbrautir sjáist og fínustu smáatriði á reikistjörnunum séu sýnileg, en nógu stutt svo hægt er að fara þangað án mikillar fyrirhafnar. Í raun er Krýsuvík meðal bestu staða á landinu fyrir stjörnuáhugafólk að viðra fyrir sér óspilltan næturhiminn. Útsýni til suðurs er algjörlega óheft, nokkuð sem er stjörnuáhugafólki mjög mikill hagur í. Segja má að Krýsuvík sé vin í ljósmengunareyðimörkinni, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, og þar sér Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness framtíð sína fyrir sér. 

ljosmengunarkort

Eins og sjá má á þessu korti af ljósmenguninni er hún gríðarleg frá höfuðborgarsvæðinu og bæjum í kringum. Grænavatn er rétt sunnan við Kleifarvatn sem sést vel á myndinni og þar er ljósmengun lítil sem engin. Þrátt fyrir það er bjarminn frá borginni í norðri svo mikill að ómögulegt er að skoða fyrirbæri lágt á norðurhimni. Sértu staddur eða stödd á Suðurstrandavegi líta þessir bæir út fyrir að vera eyjur í náttmyrkrinu.

Ljósmengun er gríðarlegt vandamál. Á hverjum degi sóum við milljónum króna með illa hannaðri lýsingu sem gerir ekkert gagn en kostar mikla fjármuni og er mjög ósnyrtilegt. Með einföldum aðgerðum er hægt að búa þannig um lýsinguna að hún beinist einungis á þá staði sem á að lýsa en ekkert annað. Það er miklu skynsamlegra og miklu snyrtilegra. 

bonus_a_seltjarnarnesi

Á þessari mynd sést mjög léleg lýsing á gömlu Bónusversluninni á Seltjarnarnesi. Eins og sjá má lýsir kastarinn lítið upp planið fyrir framan verslunina en þeim mun meira upp í loftið, engum til gagns. Þetta er ennfremur mjög sóðalegt og ljótt. Ætli Bónus hefði getað lækkað vöruverð örlítið ef þeir vönduðu lýsinguna á verslunum sínum?

Hvers vegna sættum við okkur við lélega lýsingu í umhverfi okkar? Við myndum ekki sætta okkur við að göturnar okkar væru uppfullar af drasli, loftmengun væri svo mikil að ekki sæist í Esjuna og hávaðamengun svo mikil að ekki væri hægt að njóta kyrrðarinnar. Því miður er ofangreint dæmi langt í frá það eina þar sem trassaskapur og hugsunarleysi skemmir fyrir næturhimninum og eykur ljótleika okkar nánasta umhverfis. Ég vil lifa í snyrtilegu umhverfi, en þú?

- Sævar 


Þykktin helmingi meiri. Stórmerkileg frétt en slök fyrirsögn

Hér hefur Ástralinn heldur betur komist að byltingarkenndri niðurstöðu en kannski ekki svo stórbrotinni eins og fréttamenn vilja meina í fyrirsögnum sínum. Eins og margir vita er vetrarbrautin okkar skífulaga safn af 100-400 milljörðum sólstjarna. Með niðurstöðu sinni hefur Gaensler tvöfaldað þykktina miðað við fyrri vitneskju. Tvöföld þykkt er í mínum huga ekki tvöföld stærð. T.d. teljum við okkur enn vita að vetrarbrautin er u.þ.b. 100 þúsund ljósár í þvermál (sem alls ekki hefur tvöfaldast). Í metrum talið er þetta 1.000.000.000.000.000.000.000 m.  Skífan í laginu eins og geisladiskur og er skv. Geansler 12.000 ljósár að þykkt. Hér fyrir neðan má sjá hvernig vetrarbrautarskífan lítur út frá okkur séð allan hringinn.

Þörf er á frekari rannsóknum til að staðfesta þessa fullyrðingu Ástralans en hér er samt komið skemmtilegt dæmi um það hvað opnir gagnabankar um stjörnufræði hafa að geyma mörg stórbortin leyndarmál. Hver sem er getur gramsað í þessum gögnum! 

 Milkyway_pan1


mbl.is Vetrarbrautin er tvöfalt stærri en talið var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugamenn horfa á myrkvann í Krísuvík

Nokkrir félagar í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness hafa ákveðið að safnast saman um nóttina í Krísuvík við gamla fjósið nærri Grænavatni og skoða myrkvann.

Upplýsingar um tunglmyrkvann

Á Stjörnufræðivefnum (www.stjornuskodun.is) eru allar nánari upplýsingar um tunglmyrkvann.
mbl.is Almyrkvi á tungli annað kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjörnufræðivefurinn kominn í lag

Stjörnufræðivefurinn www.stjornuskodun.is er kominn í lag eftir að við skiptum um hýsingaraðila. Vefurinn er sjálfur í yfirhalningu og mun nýtt útlit birtast bráðlega.

Styttist í tunglmyrkvann

Þann 21. febrúar verður almyrkvi á tungli sem mun sjást um miðja nótt frá Íslandi (ef veður leyfir). Komið hefur upp sú hugmynd að stjörnuáhugamenn hittist og og fylgist með myrkvanum. Við þekkjum það af reynslu frá síðustu tveimur tunglmyrkvum að þótt veðurútlitið sé ekki gott í upphafi myrkvans koma oft glennur þannig að tunglið sést inni á milli skýjanna.

Áform um hitting stjörnuáhugamanna verða kynnt hér á blogginu þegar nær dregur.

tunglmyrkvi_02 Almyrkvinn verður á milli kl. 3:00 og 3:51 aðfararnótt fimmtudagsins (eftir 12 daga). Tunglið byrjar að ganga inn í alskugga jarðar kl. 1:43 og hefst þá deildarmyrkvi. Það er mjög gaman að fylgjast með því þegar tunglið myrkvast enda er engu líkara en búið sé að stroka út hluta tunglskífunnar (skilin eru ekki hnífskörp eins og í aðdraganda sólmyrkva).

Hér eru upplýsingar um myrkvann (tímasetningar og hvaðan hann sést) af myrkvasíðu NASA. Stjörnufræðingurinn Fred Espenak á heiðurinn af útreikningunum en hann er víðfrægur sem Mr. Eclipse (eins og heimasíða hans gefur til kynna). Tímasetningarnar á kortinu eru skv. UTC (sömu og hér á Íslandi). Öfugt við sólmyrkva eru tunglmyrkvar „heimsviðburðir“ því þeir sjást frá allri næturhlið jarðarinnar!

Hér er að finna myndir íslenskra áhugamanna af myrkvum síðustu ára:

Mynd frá Snævarri Guðmundssyni

Myndir frá Sævari Helga Bragasyni

- Sverrir


Svei þessari súlu

Áhugamenn um stjörnuskoðun hafa löngum fordæmt ljósmengun. Þessi svokallaða friðarsúla er hönnuð til þess að dæla ljósi upp í næturhimininn og auka þar með mengunina frá Reykjavík sem núþegar er gróflega oflýst borg.

Ég veit ekki með aðra en ég (og aðrir náttúrudýrkendur) fæ meiri frið og sálarró undir fallegum, stjörnubjörtum næturhimni. Þessi friðarsúla er vel meint en gerir meira ógagn en gagn, sama hversu listrænt/táknrænt gildi hennar kann að vera. 


mbl.is Kveikt á friðarsúlunni í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Námskeið í stjörnuskoðun

Ég vil benda á að ennþá eru örfá sæti laus á námskeiði Stjörnuskoðunarfélagsins í stjörnuskoðun (með stjörnufræðiívafi). Námskeiðin eru núna 5.-6. febrúar og má finna allar nánari upplýsingar á www.astro.is. Lokað verður fyrir skráningu innan skamms!

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband