Fyrsta uppgötvun Curiosity og fyrsta skóflustunga hans á Mars

Vorið er komið hjá Curiosity í Gale gígnum. Í síðustu viku stoppaði jeppinn stutt við steininn Jake Matijevic, tók myndir með MAHLI smásjánni og gerði mælingar með APXS litrófsritanum eins og við fjölluðum um hér. Ekið var af stað aftur að Glenelg en þangað er Curiosity nú næstum kominn. Þar verða SAM (Sample Analysis on Mars) og CheMin (Chemistry and Minerals) í skrokki jeppans notuð í fyrsta sinn.

Á leiðinni ók Curiosity fram á áhugaverða opnu sem hefur verið nefnd Hottah sem minnir á gangstéttarhellu sem búið er að lyfta upp. Lagið er 10 til 15 cm þykkt og ber öll merki þess að hafa orðið til á botni árfarvegar í umtalsverðum straumi:

pia16156.jpg

Hottah er völubergslag í Gale gígnum, leifar árfarvegs. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Jarðmyndun af þessu tagi kallast völuberg en það úr fínum, ávölum steinvölum sem eru límdar saman með sandi. Völurnar eru of stórar til að vindur hafi getað flutt þær. Þegar vatnið ber setið fram og völurnar með, rekast þær á og rúnast hægt og rólega.

Ávala mölin sést betur á myndinni undir. Myndin vinstra megin er frá Mars en sú hægri af uppþornuðum árfarvegi jörðinni. Þetta er bein sönnun fyrir því að vatn rann eitt sinn í Gale gígnum og fyrsta vísindauppgötvun Curiosity!

pia16189_fig1.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS og PSI

Hottah er hluti af lagi sem Curiosity lenti ofan á en úr lofti sést að um aurkeilu er að ræða. Aurkeila er keilulaga setbunki — staður þar sem fljótandi vatn streymdi út úr þröngu gili, gljúfri eða dal en um leið og komið var niður á sléttlendi missti það orku, dreifði úr sér og aurkeila varð til.

Gilið sem aurkeilan á rætur að rekja til, hefur verið nefnt Peace Vallis eða Friðardalur. Þetta gil er rúmir 17 km á lengd, 600 metra breitt og 30 metra djúpt. Aurkeilan fyrir framan gilið og uppþornaði árfarvegurinn sem Curiosity uppgötvaði, staðfestir að gilið er sorfið af talsverðu magni vatns.

692125main_grotzinger-4-pia16159-43_1024-768.jpg

Á myndum HiRISE af aurkeilunni sjást margir farvegir sem urðu sennilega ekki allir til við eina gusu heldur á löngum tíma. Hve löngum er ekki vitað. 

Fleiri sambærileg lög eru í kringum Curiosity og verður tækjum jeppans beint að þeim. Þannig verður kannað hversu lífvænlegt þetta umhverfi var.

Fyrsta skóflustunga Curiosity á Mars

Þessa stundina hefur Curiosity verið lagt við litla sandöldu sem nefnd hefur verið Rocknest. Þarna verður fyrsta skóflustungan tekin.

20121001_sol55_pano.jpg

Rocknest sandaldan þar sem Curiosity mun taka sín fyrstu jarðvegssýni (smelltu tvisvar til að stækka myndina). Mynd: NASA/JPL-Caltech/Damien Bouic

Curiosity var látinn aka inn í ölduna og bakka út aftur (svona eins og jarðfræðingur sem sópar burt sandi með gönguskó sínum) til að sjá hvað er innan í henni:

20121004_mars_msl_sol55-56_scuff_animation_navcam.gif

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Emily Lakdawalla

Síðan var APXS litrófsritanum og MAHLI smásjánni á arminum beint að sandinum þann 4. október...

20121004_mars_msl_sol58_hazcam_anim_arm-on-scuff_f537.gif

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Emily Lakdawalla

...og þessar myndir teknar:

20121004_mars_msl_sols56-8_mahli_rocknest_scuff.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Efst eru myndir teknar í mismikilli fjarlægð, neðst sjást vindbornar agnir sem mynda kápu yfir öldunni en hægra megin sést aldan eftir að Curiosity ók inn í hana.

Á arminum er skóflan sem mun sækja sýni úr þessari sandöldu, líklega á sunnudaginn eða aðfaranótt mánudags. 

20121001_msl_0051mr0468000000e1_dxxx.jpg

Skófla Curiosity. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Þegar skóflan hefur náð sýnum, verður hún látin titra og myndskeið tekið upp af því með Mastcam. Á þennan hátt verður kannað hvort sýnið sé að mestu úr fínu efni (gott) eða hvort það inniheldur mikla möl (slæmt).

Ef sýnið er gott verður skóflunni lokað og hún „þrifin“. Á henni eru nefnilega leifar frá jörðinni. Með því að hrista sýnið í skóflunni í 2-3 klukkustundir er hægt að þrífa skófluna og losa hana við öll jarðnesk efni sem á henni eru (svona svipað og að hreinsa munninn með munnskoli).

Þetta verður endurtekið í tvígang en að lokum verður fjórða sýnið tekið og flutt í SAM og Chemin. Fyrst verður gerð æfing sem sýnir hvernig sýnið fýkur í vindinum áður en raunverulegi flutningurinn á sér stað. Á meðan munu SAM og Chemin ganga í gegnum sinn eigin undirbúning.

Allt þetta ferli mun taka tvær til þrjár vikur. Þegar þessu er lokið mun Curiosity aka af stað niður litla hlíð yfir ljósasta hluta Glenelg svæðisins. Þar verður borvélin á arminum notuð í fyrsta sinn en líkt og við á um skófluna, þarf að hreinsa borinn áður en hann flytur sýni í SAM og Chemin. Það ætti að gerast eftir um fjórar til fimm vikur.

Á meðan Curiosity er svo til kyrrstæður á Mars verður tíminn líka nýttur til að taka stóra panoramamynd frá Rocknest.

Hér undir sést svo hvar jeppinn var staddur nú í byrjun október:

694018main_watkins-1-pia16200-43_1024-768.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/University of Arizona

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband