Nýrra niðurstaðna að vænta um uppruna alheimsins

Næstkomandi fimmtudag munu vísindamenn birta nýjar niðurstöður rannsókna á örbylgjukliðnum (e. cosmic microwave background) — eftirgeislun Miklahvells — með Planck gervitungli ESA.

Planck gervitunglinu var skotið á loft þann 14. maí árið 2009 og hefur síðan gert mælingar á örbylgjukliðnum, eina af meginstoðum Miklahvellskenningarinnar.

Fyrsta myndin frá Planck var birt í júlí 2010.

planck_fsm_03_black_frame_orig.jpg

Þarna sést allt himinhvolfið og liggur skífa Vetrarbrautarinnar yfir miðja mynd. Út frá henni ganga straumar úr köldu ryki sem mynda vef úr stjörnumyndunarsvæðum.

Á bak við Vetrarbrautina sést örbylgjukliðurinn, elsta ljósið í okkar 13,7 milljarða ára gamla alheimi. Örbylgjukliðurinn sýnir alheiminn eins og hann leit út þegar hann var aðeins 380.000 ára gamall. Samhliða útþenslu alheimsins hefur teygst á bylgjulengd þessa ljóss sem greinist nú sem örbylgjur og er aðeins 2,7 gráður yfir alkuli.

Þetta ævaforna ljós er allt í kringum okkur. Sennilega hefur þú „séð“ það í sjónvarpinu þínu. Um það bil 1% af snjónum sem við sáum í gömlu analog tækjunum er ljós frá Miklahvelli! Hversu svalt er það?

Mynd eins og þessi er stjörnufræðingum einstaklega mikilvæg. Með henni er hægt að læra um efnasamsetningu alheimsins, aldur hans og þróun í fortíð, nútið og framtíð.

Flekkirnir eru vegna hárfínna hitastigsbreytingua í örbylgjukliðnum. Þessar breytingar koma fram í örlítið mismunandi efnisþéttleika í árdaga alheimsins. Þéttustu svæðin voru fræin sem gátu af sér allt sem við sjáum í kringum okkur í dag: Stjörnurnar og vetrarbrautirnar.

Sumir stjarneðlisfræðingar hafa meira að segja getið sér til um að í örbylgjukliðnum gætu verið ummerki hliðstæðra alheima sem hafa rekist á alheiminn okkar. En það er önnur saga.

Við munum fylgjast grannt með þessu og segja frá niðurstöðunum á Stjörnufræðivefnum á fimmtudaginn. Nýjar niðurstöður um uppruna alheimsins, hvað gæti verið meira spennandi!

- Sævar Helgi


Myndir af sjónarspili gærkvöldsins

Hátt í 300 manns mættu til okkar í stjörnuskoðun í gærkvöld. Þetta var stórkostlegt kvöld enda himininn óhemju glæsilegur skreyttur dansandi norðurljósum og halastjörnu í ljósaskiptunum, auk þess sem vaxandi tungl prýtt jarðskini átti sitt mánaðarlega stefnumótt við Júpíter.

Fjölmargir horfðu til himins og sumir tóku glæsilegar ljósmyndir af sjónarspilinu sem sjá má hér.

panstarrs-gisli-mar-arnason.jpg

Halastjarnan PanStarrs undir dansandi norðurljósum í gærkvöldi. Mynd: Gísli Már Árnason

panstarrs-jon-sigurdsson-b.jpg

Halastjarnan PanStarrs. Mynd: Jón Sigurðsson

nordurljos-vestmannaeyjar-oskares.jpg

Norðurljós yfir Vestmannaeyjum. Mynd: Óskar Elías Sigurðsson

Sjáið fleiri myndir á Stjörnufræðivefnum!

- Sævar Helgi


mbl.is Mikið sjónarspil á himni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Komdu og skoðaðu halastjörnuna með Stjörnuskoðunarfélaginu í kvöld

Í kvöld (sunnudagskvöldið 17. mars), milli klukkan 20:00 til 22:00, mun Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness bjóða áhugasömum að skoða halastjörnuna PanStarrs og fleiri forvitnileg fyrirbæri á himninum. Við verðum ekki við Valhúsaskóla að þessu sinni, heldur golfskála Golfklúbbsins Ness (sjá kort). Þar er útýnið mjög gott í vestur og myrkur fínt miðað við höfuðborgarsvæðið.


View Larger Map

Ef þú átt stjörnusjónauka og kannt lítið sem ekkert á hann er þetta líka kjörið tækifæri til læra á sjónaukann með hjálp félagsmanna.

Halastjarnan er fremur dauf og sést best með handsjónauka, sér í lagi halinn. Ef þú átt handsjónauka, skaltu endilega taka hann með.

Á himninum þetta kvöld er annars margt að sjá. Tunglið er vaxandi og skammt frá Júpíter í Nautsmerkinu og þar fyrir neðan veiðimaðurinn Óríon, eins og sjá má á kortinu hér undir.

Panstarrs-16-17-mars-2013

Stjörnukortið er úr forritinu Stellarium en það er bæði ókeypis og á íslensku (sækja hér).

Allir út að kíkja!

- Sævar Helgi


mbl.is Panstarrs sást vel hér við land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kort af staðsetningu Panstarrs á kvöldhimninum

Hér er kort úr Stellarium sem sýnir staðsetningu halastjörnunnar á himninum annað kvöld.

Panstarrs-16-17-mars-2013

-Sverrir 


Fyrsta myndin af halastjörnunni PanStarrs yfir Íslandi

Stjörnuáhugamaðurinn Jón Sigurðsson tók þessa mynd af halastjörnunni PanStarrs á himninum yfir Þingeyri í kvöld (15. mars). Þetta er, eftir því sem við komumst næst, fyrsta myndin af halastjörnunni á íslenska stjörnuhimninum.

544122_4508448715449_673954271_n.jpg

Uppfært 16. mars: Jón Sigurðsson hefur raðað myndum af halastjörnunni í myndband á YouTube.

 

Halastjarnan er ekki eins áberandi með berum augum og vonast var eftir. Undirritaður varði til að mynda rúmri klukkustund í að reyna að sjá hana með berum augum á himninum yfir suður Svíþjóð í kvöld, án árangurs. 

Nauðsynlegt er að nota handsjónauka til að sjá halastjörnuna vel. 

Þetta rímar við það sem aðrir íslenskir áhugamenn hafa sagt okkur. Björn Jónsson skrifaði eftirfarandi athugasemd á Facebook síðuna okkar:

„Fór vestur á Álftanes og fann PanSTARRS kl. 20:45 með handsjónauka eftir 15-20 mínútna (!) leit. Sá hana svo með naumindum með berum augum um kl. 21. Ég held að það sé útilokað að sjá hana með berum augum mikið fyrr en það. Upp úr kl. 21 var hún hinsvegar orðin flott í handsjónauka og halinn mjög greinilegur. Hún er það lágt á lofti (innan við 10 gráður virtist mér) að það mega engin tré eða byggingar vera fyrir auk þess sem bjartir ljósastaurar væru truflandi - því er æskilegt að fara á stað þar sem lítið er um björt ljós í vesturátt.“

Sem sagt, til að sjá halastjörnuna þarf handsjónauka, horfa í rétta átt og góðan skammt af þolinmæði.

Við ætlum að reyna að hjálpa ykkur að sjá halastjörnuna á sunnudagskvöldið frá klukkan 20:00 og þar til hún hverfur undir sjóndeildarhringinn. Við verðum við golfskála Golfklúbbsins Ness á Seltjarnarnesi. Nánari upplýsingar hér.

- - -

Fylgst með í Vestmanneyjum

Eftirfarandi barst okkur frá vinum okkar í Stjörnufræðifélagi Vestmannaeyja:

Í kvöld, föstudagskvöldið 15. mars um kl. 20 hittust nokkrir félagar í Stjörnufræðifélagi Vestmannaeyja úti á Breiðabakka á Heimaey til þess að reyna að koma auga á Halastjörnuna PanStarrs. Fyrirfram var ekki við miklu að búast, því ský huldu mest allan himininn, en í vestri var svolítil glæta af rauðgulum himni. Ekki mættu margir, enda var búið að gera tilraun kvöldið áður sem endaði í kalsarigninu. En þarna sátum við og nutum veðurblíðunnar mauluðum kleinur og biðum þess að skýin þokuðust ofar. Kindurnar fengu afganginn af kleinunum þegar okkur var að verða bumbult af þeim. Sigð tunglsins gægðist af og til í gegnum skýin, en stoppaði stutt við. Rétt fyrir kl. 21 sá formaðurinn stjörnu rétt neðan við skýjahuluna og í sólroðanum, sem honum fannst líkleg. Ekki var þó unnt að staðfesta þetta sem halastjörnuna, fyrr en meirihluti stjórnar félagsins var búinn að leggja blessun sína yfir fyrirbærið. Eftir að mestu fagnaðarlátunum linnti var fylgst með halastjörnunni lækka á himni í kapp við nálæg ský. Konunglegur aðstoðar-ljósmyndari félagsins, Heiðar Egilsson tók myndir í gríð og erg og okkur til mikillar furðu sást stjarnan miklu betur á myndunum, en með okkar ófullkomnu sjón eða jafnvel sjónaukunum. Yngra fólkið fylgdist með stjörnunni með berum augum, en hinir störðu og rýndu án mikils árangurs, nema með sjónaukanum. Hringt var í tölvumann félagsins sem kom auðvitað stökkvandi og sá fyrirbærið áður en það skreið svo nálægt sjóndeildarhringnum að ekki var unnt að sjá hana vel lengur. Þá var klukkan orðinn 21:30 og fundi slitið. Skemmtilegri samverustund var lokið. Við reynum á ný næstu kvöld - stay tuned.

Þetta skrifar Karl Gauti Hjaltason.

- Sævar Helgi


Komdu í halastjörnuskoðun með Stjörnuskoðunarfélaginu á sunnudagskvöld!

Næsta sunnudagskvöld (17. mars), milli klukkan 20:00 til 22:00, mun Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness bjóða áhugasömum að skoða halastjörnuna PanStarrs og fleiri forvitnileg fyrirbæri á himninum. Við verðum ekki við Valhúsaskóla að þessu sinni, heldur golfskála Golfklúbbsins Ness (sjá kort). Þar er útýnið mjög gott í vestur og myrkur fínt miðað við höfuðborgarsvæðið.


View Larger Map

 

Ef þú átt stjörnusjónauka og kannt lítið sem ekkert á hann er þetta líka kjörið tækifæri til læra á sjónaukann með hjálp félagsmanna. 

Halastjarnan er fremur dauf og sést best með handsjónauka, sér í lagi halinn. Ef þú átt handsjónauka, skaltu endilega taka hann með.

Á himninum þetta kvöld er annars margt að sjá. Tunglið er vaxandi og skammt frá Júpíter í Nautsmerkinu og þar fyrir neðan veiðimaðurinn Óríon, eins og sjá má á kortinu hér undir.

screen_shot_2013-03-15_at_2_39_56_pm.png

Stjörnukortið er úr forritinu Stellarium en það er bæði ókeypis og á íslensku (sækja hér). 

Allir út að kíkja!

- Sævar Helgi


Curiosity finnur sönnunargögn um að Mars hafi verið lífvænlegur

Í gær bárust stórmerkilegar fréttir frá Curiosity þegar kynntar voru fyrstu niðurstöður rannsókna vísindamanna á borsýnunum sem jeppinn safnaði á John Klein svæðinu í Yellowknife flóa í Gale gígnum á Mars.

Í stuttu máli benda efnafræðileg, steindafræðileg og jarðmyndunarleg sönnunargögn til þess, að jeppinn standi á fornum vatnsbotni á Mars, stað sem örverur hefðu sennilega getað þrifist á. Með öðrum orðum: Í fyrsta sinn höfum við sönnunargögn þess efnis að Mars hafi líklega verið lífvænlegur!

pia16764_selfie2ndfincrop-br2.jpg

Sjálfsmynd sem Curiosity tók á John Klein svæðinu þar sem hann undirbjó fyrstu borunina á annarri reikistjörnu. Sjá má merki um fyrstu prófanir borsins neðarlega vinstra megin. Á þessum stað hefur Curiosity fundið sönnunargögn þess efnis að Mars hafi eitt sinn líkega verið lífvænlegur. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Sönnunargögnin komu frá SAM og CheMin efnagreingingartækjum jeppans.

CheMin efnagreinir sýni með því að skjóta röntgengeisla á þau og skoða svo mynstrið sem til verður. Þessu er nánar lýst hér.

Hér undir er samanburður á röntgenbylgjumynstri ryksýnisins úr sandöldunni Rocknest en vinstra megin er borsýnið úr John Klein berginu. Mynstrin eru nokkuð lík en í borsýninu fannst mikið af leirsteind (merkt „phyllosilicate“) og ekkert salt. Það bendir til þess að myndun John Klein bergsins tengist ferskvatnsumhverfi. 

20130312_pia16830_fig1_f840.jpg

Mynd: NASA/JPL/AMES

SAM er tilraunastofa á stærð við örbylgjuofn í skrokki Curiosity en í henni eru þrjú tæki sem efnagreina sýnin: Massagreinir, gasskiljunartæki og stillanlegur leysi-litrófsriti. Þessum tækjum er lýst nokkuð ítarlega í þessari bloggfærslu.

í SAM er ofn sem hitar sýnin og við það losna efni sem tækin þrjú greina. Þegar borsýnið var hitað upp í rúmar 800 gráður losnuðu mörg efni en þó einkum vatn, koldíoxíð, súrefni og tvenns konar brennisteinssambönd, brennisteinsdíoxíð (oxað) og vetnissúlfíð (afoxað). Hitastigð sem vatnið losnaði við úr sýninu og bylgjugreningarmynstur CheMin segir okkur, að þarna sé líklega um að ræða leirsteind sem kallast smektít.

pia16835.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/GSFC

Hlutfall oxuðu og afoxuðu efnanna er miklu hærra í borsýninu en rykskýninu. Þetta bendir til að á John Klein hafi verið næg efnaorka fyrir örverur: Umhverfið var lífvænlegt.

En hvað er átt við með lífvænlegu umhverfi?

Lífvænlegt umhverfi er umhverfi sem örverur gætu hafa þrifist í. Til þess að svo megi verða þarf þrennt til: Rétt sýrustig, nægt vatn og orkuupspprettu.

Við skulum skoða þetta nánar.

Meridiani vs. Gale gígurinn

pia16833.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Þessar myndir voru teknar með næstum tíu ára millibili. Búið er að vinna myndirnar þannig að bergið komi jarðfræðingum fyrir sjónir eins og það liti út á Jörðinni. Það auðveldar túlkun á því sem við sjáum.

Vinstra megin er berg sem Opportunity jeppinn rannsakaði árið 2004 á Meridiani sléttunni. Efnið í berginu hefur flust til í vatni, límst saman og þannig breyst úr seti í berg; Setberg. Síðar fyllti vatn upp í sprungur í berginu og myndaði einnig litlar kúlur — sethnyðlinga — hematít „bláberin“ eins og þær eru kallaðar.

Hægra megin sést samskonar setberg í Gale gígnum. Liturinn er svipaður og við sjáum einnig litlu sethnyðlingana. Munurinn er sá að í berginu í Gale gígnum er hvít æð sem liggur í gegnum bergið. Þetta er líklega kalsíumsúlfat (gifs) útfelling.

Á báðum stöðum var augljóslega vatn en var staðurinn lífvænlegur? Til að skoða betur aðstæðurnar sem þetta berg myndaðist í þurfum við að kafa dýpra inn í bergið.

pia16834.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Hér fyrir ofan sést mynd af „klórsvæði“ Opportunity (vinstri) og borholu Curiosity (hægri). Eins og sjá má er liturinn á duftinu gerólíkur. Duftið er brúnrautt hjá Opportunity en grátt hjá Curiosity. Rauði liturinn sýnir að bergið er að miklu leyti úr mjög oxuðum járnsteindum og járnsúlfítum. Þetta eru efni sem benda til þess að umhverfið hafi verið súrt og alls ekki lífvænlegt. Þó ber að hafa í huga að örverur á jörðinni geta þrifist í súru umhverfi.

Gráa duftið hjá Curiosity inniheldur leirsteindina smektít og önnur efni, t.d. kalsíumsúlfat, sem myndast í tiltölulega hlutlausu vatni. Þetta er umhverfi sem er miklu lífvænlegra. Bergið lítur á margan hátt út eins og dæmigert berg á Jörðinni í hlutlausu, lífvænlegu umhverfi.

Lífvænleikinn fer einnig eftir því hversu mikið vatn var til staðar. Á blaðamannafundinum í gær tók John Grotzinger, sem hefur umsjón með rannóknum Curiosity, dæmi af hunangi. Hvers vegna getur hunang, blanda sykurs og vatns, enst svona lengi án þess að skemmast?

Þótt mikið vatn sé í hunanginu er það samt ekki nógu mikið fyrir örverur. Komist örverur í hunangið, sýgur blandan vatn úr örverunum í gegnum osmósu svo örverurnar fá ekki þrifist.

Samskonar ferli hefur gerst á Meridiani. Í stað sykurs er salt, magnesíumsúlfat, sem svo mikið er af, að það hefði komið í veg fyrir örverulíf. Örverur hefðu aldrei þrifist þar. Meridiani er ólífvænlegur staður. Í Gale gígnum sjáum við engin merki um söltin en þar virðist hafa verið feykinóg ferskvatn!

Þriðja atriðið sem bendir til lífvænleika Gale gígsins eru steindirnar sjálfar. Steindirnar sem fundust í Gale gígnum eru á margan hátt eins og rafhlöður. Sumar eru neikvætt hlaðnar og misoxaðar, samanber brennisteinsdíoxíðið og vetnissúlfíðið. Þessi efni gætu verið uppspretta efnaorku fyrir örverur. Ekki er svo ýkja langt síðan við fundum út að frumstæðar örverur geta dregið orku úr bergi, nærst á því eins og ljósaperur á rafeindum rafhlaðna.

Rétt sýrustig, nægt hlutlaust vatn og orkuuppspretta. Allt var þetta í heppilegum skömmtum fyrir örverur í Gale gígnum. Það er það sem við eigum við með því að staðurinn hafi verið lífvænlegur.

Tökum þetta saman: Setbergið sem Curiosty boraði í á John Klein svæðinu í Yellowknife flóa var eitt sinn botn á stöðuvatni. Það inniheldur mikið af leirsteindum, t.d. smektít sem myndast í vatni við hlutlaust sýrustig. Þar eru einnig og neikvætt hlaðnar og mixouð efnis em veita nauðsynlega orkuupspprettu. Bergið í Gale gígnum sýnir að umhverfið þar var mun þægilegra en það salta, súra og ólífvænlega umhverfi sem Spirit og Opportunity hafa kannað.

pia16832.jpg

Curiosity lenti á aurkeilu í Gale gígnum á Mars í ágúst 2012. Jeppinn ók nokkur hundruð metra að John Klein svæðinu þar sem hann boraði í fyrsta sinn í berg. Bergið reyndist stöðuvatnaset sem inniheldur efni sem benda til þess að staðurinn hafi eitt sinn verið lífvænlegur. Myndin er búin til úr litrófsmælingum THEMIS litrófsritans í Mars Odyssey. Mismunandi litir tákna efni sem viðhalda varma mislengi. Rauði liturinn sýnir efni sem viðheldur varma lengi. Mynd: NASA/JPL-Caltech/ASU

Ekki aðeins Curiosity að þakka

Þessi stórmerka uppgötvun er ekki aðeins Curiosity að þakka og mikilvægt að halda því til haga. Sú ákvörðun að lenda jeppanum í Gale gígnum og aka að þeim stað sem hann er nú á byggir á upplýsingum sem geimför á braut um Mars hafa aflað á undanförnum ár. Ferðalög Curiosity eru valin út frá því sem þessi geimför sjá.

Tvö geimför eiga stærstan þátt í uppgötvun Curiosity: Mars Express geimfar Geimvísindastofnunar Evrópu (ESA) og Mars Reconnaissance Orbiter NASA. Í báðum förum eru litrófsritar (OMEGA í Mars Express og CRISM í Mars Reonnaissance Orbiter) sem geta kortlagt efnasamsetningu yfirborðsins í miklu meiri upplausn en eldri tæki eins og TES í Mars Global Surveyor og THEMIS í Mars Odyssey voru fær um.

OMEGA og CRISM fundu vatnaðar steindir í Gale gígnum sem voru, ásamt lagskiptingu Sharpfjalls, aðalástæða þess að ákveðið var að lenda Curiosity þar.

20130312_gale_crism_map_cropped.jpg

Steindakort CRISM litrófsritans í Mars Reconnaissance Orbiter af lendingarstað Curiosity í Gale gígnum á Mars (merktur með gulum krossi). Grænn litur sýnir leirsteindir, blár og blárauður litur súlföt, rautt ólivín og appelsínugulur blöndu súlfata og leirs. Mynd: NASA/JPL/JHUAPL/Ralph Milliken (frá Emily Lakdawalla)

Þótt þetta sé mesta uppgötvun Curiosity til þess, er markmiðum leiðangursins ekki fyllilega náð: Að finna út hvort Mars sé eða hafi verið lífvænlegur. Þetta er þó mikilvægt skref í rétta átt. Menn eiga mikið verk fyrir höndum við að skilja hve lengi umhverfið var lífvænlegt. Hver eru tengslin milli stöðuvatnasetsins á John Klein svæðinu og setlaganna í Sharpfjalli?

Þessi ótrúlega spennandi leiðangur verður sífellt áhugaverðari!

- Sævar Helgi Bragason


mbl.is Vísbendingar um vatn á Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjáðu halastjörnu með berum augum á himninum

Seinni hluta marsmánaðar gefst þér kostur á að sjá halastjörnu með berum augum. Það gerist ekki ýkja oft svo þú ættir ekki að missa af tækifærinu.

Halastjarnan nefnist PanStarrs og mun hún sjást skömmu eftir sólsetur út marsmánuð og fram í apríl (eða þar til hún er bæði orðin of dauf og sumarbirtan tekur við). Fjallað er um þennan gest í nýjasta þætti Sjónaukans sem sjá má hér undir:

Sjónaukinn 7. þáttur - Horft til himins í mars 2013 from Stjörnufræðivefurinn on Vimeo.

Þann 5. mars var PanStarrs næst jörðinni, þá í rúmlega 160 milljón km fjarlægð frá okkur. Fimm dögum síðar, þann 10. mars, kemst hún næst sólinni og nær þá hámarksbirtu. Þá sést hún best frá suðlægari slóðum en Íslandi en smám saman fjarlægist halastjarnan sólina og fer hækkandi á himninum. Um leið fer birta hennar dvínandi.

Þegar best lætur gæti PanStarrs orðið álíka björt (eða bjartari) og stjörnurnar í Karlsvagninum; sem sagt nógu björt til þess að hún sjáist nokkuð auðveldlega með berum augum.

Hvert á að horfa og hvenær?

Besti tíminn til að sjá halastjörnuna ætti að vera milli 12. og 20. mars en þá verður hún mjög lágt á vesturhimni við sólsetur. Hér undir eru tímasetningar úr Almanaki Háskóla Íslands á sólarlagi í Reykjavík (vertu úti um það leyti, halastjarnan ætti að birtast skömmu eftir sólarlag):

  • 12. mars - kl. 19:20
  • 13. mars - kl. 19:23
  • 14. mars - kl. 19:26
  • 15. mars - kl. 19:29
  • 16. mars - kl. 19:32
  • 17. mars - kl. 19:35
  • 18. mars - kl. 19:38
  • 19. mars - kl. 19:41
  • 20. mars - kl. 19:44

Til að sjá PanStarrs er mikilvægt að koma sér fyrir þar sem hvorki fjöll, byggingar né gróður trufla útsýnið til sjóndeildarhringsins í vesturátt. Halastjarnan er nefnilega mjög lágt á himninum um þetta leyti og það gæti orðið örlítið krefjandi að finna hana.

panstarrs-kort-12-24-mars.jpg

Halastjarnan PanStarrs verður lágt á himni upp úr miðjum marsmánuði. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Andri Ómarsson

Að kvöldi 13. mars gæti útsýnið orðið sérstaklega fallegt. Þá birtist halastjarnan á himninum við sólsetur, skammt frá mjórri vaxandi mánasigð.

Sjaldgæft er að sjá tunglið og halastjörnu saman á dimmbláum himni.

Notaðu handsjónauka. Þótt halastjarnan sjáist með berum augum er útsýnið enn betra með handsjónauka. Þá sést halinn líka betur.

Skannaðu vesturhimininn með handsjónaukanum þegar sólin er horfin undir sjóndeildarhring.

Þegar líður á marsmánuð færist halastjarnan smám saman ofar á norðurhimininn, fyrst í gegnum stjörnumerkið Fiskana, þá Pegasus og svo yfir í Andrómedu í lok mánaðarins. Þá hefur hún dofnað talsvert og sést best með handsjónauka eða stjörnusjónauka.

panstarrs-kort-vitt.jpg

Kort af ferli halastjörnunnar PanStarrs yfir himininn fram á vor. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Andri Ómarsson

Við hvetjum ljósmyndara til að reyna að fanga sjónarspilið. Þið mættuð þá endilega deila myndunum með okkur, bæði með því að senda okkur myndir á netfangið stjornuskodun@stjornuskodun.is eða deila þeim á Facebook síðunni okkar.

Opið hús hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness

Eitthvert kvöldið milli 13. og 20. mars mun Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness hafa opið hús í Valhúsaskóla. Nákvæm dagsetning er háð veðri en stílað verður upp á stjörnubjart kvöld svo hægt verði að skoða halastjörnuna. Opna húsið verður auglýst bæði á vef félagsins og á Facebook síðu þess sem og Facebook síðu Stjörnufræðivefsins.

Upphitun fyrir halastjörnuna ISON

Við krossleggjum fingur og vonum að halastjarnan PanStarrs standi undir væntingum. Líta má á hana sem upphitun fyrir enn glæsilegri halastjörnu sem sjást mun í lok þessa árs, halastjörnuna ISON.

Horfið til himins!

- Sævar Helgi


Hvað er að sjá á stjörnuhimninum í mars?

Árið 2013 stefnir í að verða gott halastjörnuár. Í lok ársins mun halastjarnan ISON skreyta himininn yfir Íslandi en nú um miðjan mars verður halastjarnan PanStarrs áberandi á kvöldhimninum. Um hana og ýmislegt fleira er fjallað í nýjasta þætti Sjónaukans.

Sjónaukinn 7. þáttur - Horft til himins í mars 2013 from Stjörnufræðivefurinn on Vimeo.

Horfum til himins!


Halastjarna fer (sennilega) hársbreidd framhjá Mars í október 2014

Í byrjun þessa árs (3. janúar) fann stjörnufræðingurinn Robert McNaught við Siding Spring stjörnustöðina í Ástralíu, halastjörnuna  C/2013 A1 (Siding Spring) (nafnið vísar til þess að þetta var fyrsta halastjarnan sem fannst árið 2013). Það merkilega við þessa halastjörnu er, að þann 19. október á næsta ári verður hún ótrúlega nálægt Mars — í innan við 37.000 km hæð yfir yfirborðinu!

Óvissan í útreikningum á braut halastjörnunnar er enn það mikil að ekki er hægt að útiloka árekstur við Mars, þótt það sé mjög ósennilegt að það gerist. Fleiri athuganir munu gera stjörnufræðingum kleift að reikna brautina út nákvæmlega. 

comet-siding-spring-mars-orbit-sim.gif

Ferill halastjörnunnar C/2013 A1 (Siding Spring) í október 2014 þegar hún verður einstaklega nálægt Mars. Mynd: JPL Small-body Database Browser / Emily Lakdawalla

Fyrir skömmu þaut smástirnið 2012 DA14 framhjá jörðinni í ekki ósvipaðri fjarlægð og komst raunar nær okkur en gervitungl á staðbraut. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur hefur tekið saman pistil um þann atburð sem lesa má hér.

Af þeim gervitunglum sem sveima um Mars nú um stundir nær evrópska geimfarið Mars Express mestri hæð, um 10.000 km, en öll hin brautarförin eru í 300 til 400 km hæð yfir Mars. Á Mars eru engin gervitungl á staðbraut svo engar líkur eru á að gervitunglin rekist á halastjörnuna.

Hins vegar er önnur hætta á ferðum.

Þegar halastjörnur ferðast inn í sólkerfið byrja þær að gufa upp vegna hitans frá sólinni. Þá losna frá þeim gastegundir, ís- og rykagnir sem mynda hjúp eða hadd í kringum kjarna halastjörnunnar. Kjarninn er lítill, kannski 1 til 10 km í þvermál (hugsanlega nokkrir tugir km, miklu stærri en smástirnið 2012 DA14), en hjúpurinn getur orðið feikistór, jafnvel meira en hundrað þúsund kílómetrar í þvermál!

mars_siding_spring_19-10-14.jpgÞegar halastjarnan þýtur framhjá Mars í október á næsta ári verður reikistjarnan því væntanlega innan í hjúpnum um tíma. Þá skapast hætta fyrir gervitunglin á braut um Mars.

Á þessum tíma verður halastjarnan á 56 km hraða á sekúndu. Stærð agnanna í hjúpnum skiptir máli; flestar eru örsmáar en aðrar geta verið nokkrir sentímetrar að stærð. Ef þessar litlu, hraðfleygu agnir rekast á gervitunglin geta þau laskast og jafnvel eyðilagst.

Jepparnir á Mars eru sennilega hólpnir. Flestar agnirnar munu brenna upp í lofthjúpi Mars í það sem gæti orðið stórkostlegustu stjörnuhrapasýningu sem sögur fara af. Ef þú stæðir á yfirborðinu sæirðu líklega mörg þúsund stjörnuhröp á klukkustund! Sannkallað loftsteinaregn!

Vonandi verður myndavélum jeppanna beint til himins þegar halastjarnan nálgast og fer framhjá. Það gætu náðst stórkostlegar myndir!

Við munum að sjálfsögðu fylgjast vel með gangi mála. Á meðan bíðum við eftir fyrri halastjörnunni af tveimur sem sjást með berum augum á þessu ári: Halastjörnunni PanStarrs.

p.s. Ég dýrka Mars og hreinlega elska þessi dásamlegu geimför sem þar eru en mikið væri það nú skemmtilegt ef þessi halastjarna rækist á reikistjörnuna. Þá yrðum við vitni að atburði sem gerist kannski á 100 milljón ára fresti.

- Sævar Helgi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband